26.02.1924
Efri deild: 6. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1973 í B-deild Alþingistíðinda. (1427)

29. mál, hæstiréttur

Flm. (Jón Magnússon):

Það gerist ekki þörf langrar ræðu til andsvara háttv. 5. landsk. þm. (JJ), því að alt, sem hann sagði, kom hvergi nærri frumvarpinu. Biðlaun þau, er hann var að tala um, þekki jeg ekki, því að þau munu í flestum tilfellum ekki vera til. Er því þeirra vegna hægt að kasta flestum starfsmönnum ríkisins fyrirvaralaust út á klakann.

Annars situr ekki á hv. 5. landsk. að vera að beina slíku til mín.

Jeg held, að hæstv. forsrh. (SE) og háttv. 2. þm. G.-K. (BK) ættu miklu frekar en hitt að vera mjer þakklátir fyrir, að jeg skyldi koma fram með frv. þetta. Því að annars má vel vera, að farið hefði verið út í það að sameina lagadeildina og hæstarjett, en móti þeirri sameiningu vil jeg sporna af öllum kröftum, þó aldrei nema til sjeu menn í háskólanum, sem geti dæmt, og í hæstarjetti menn, sem geti kent. Það er alveg rjett hjá háttv. 2. þm. G.-K., að það hefir ekki verið rannsakað til hlítar, hvort ekki væri heppilegt að setja miðdómstig, ef dómendum í hæstarjetti væri fækkað. En þá yrði, eins og jeg hefi margtekið fram, enginn sparnaður af fækkun dómendanna, en það er einmitt hans vegna, sem jeg hefi borið frumvarpið fram, því að sparnaðarins þurfum við með á öllum sviðum.

Um helgi hæstarjettar er það að segja, að jeg get ekki sjeð, að það skerði helgi hans, þó að dómendunum væri fækkað. Hið sama er að segja um helgi stjórnarskrárinnar, þó að henni væri breytt. Enda hef jeg aldrei heyrt, að nokkur stjórnarskrá væri svo helg, að ekki mætti breyta henni eftir kröfum tímanna. Jeg er því sannfærður um, að helgi hæstarjettar eða stjórnarskrárinnar minkaði ekkert, þó að á hvorutveggja væri gerðar skynsamlegar breytingar til sparnaðar, því að við verðum að spara alstaðar, sem hægt er með góðu móti.

Háttv. 5. landsk. sagði, að það hefði ekki verið rjett hjá mjer, sem jeg sagði um laun embættismanna. Út af þeim ummælum háttv. þm. vil jeg benda honum á að leita sjer upplýsinga um þetta á betri stöðum en hann virðist hafa gert hingað til, eftir þekkingu hans að dæma. Því að alt, sem hann sagði um þetta, var hin mesta fjarstæða. Eins og t. d. að það nái nokkurri átt, að öll útgjaldahlið fjárlagafrumvarpsins sje ekkert nema laun embættismanna, þegar aðeins er búið að draga frá henni afborganir og vexti af lánum og eldsneyti til vita. Er það þá t. d. alt embættismannalaun, sem gengur til barnafræðslu, unglingafræðslu, heilsuhæla og ýmislegs sjúkrakostnaðar, vega, síma o. s. frv.? Nei, hjer er ekki sagður nema lítill hluti sannleikans, eins og vant er hjá þessum háttv. þm. Embættakostnaðurinn er í hæsta lagi 2½ milj. kr., eins og jeg hefi margtekið fram, og er þá alt tínt til.

Þó ekki sje gert ráð fyrir nú, að á næstu árum verði bygðar brýr eða lagðir vegir, er þó allmikið fje, sem gengur til viðhalds þessum mannvirkjum. Og jeg er ekki ennþá viss um, að brýn nauðsyn krefji að skera niður allar fjárveitingar til verklegra framkvæmda. En þetta er svo fjarri þessu frv., sem hjer liggur fyrir, að jeg fer ekki út í það frekar nú, til þess að eyða ekki meira tíma þingsins og fje landsins en þegar er búið. En hv. 5. landsk. hefir hjer sem fyr tekið gönuhlaup út fyrir efnið og stofnað til þessara óþörfu umræðna, þar sem við erum báðir sammála í aðalatriðunum.