17.03.1924
Efri deild: 21. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1985 í B-deild Alþingistíðinda. (1434)

29. mál, hæstiréttur

Jóhannes Jóhannesson:

Jeg gleymdi að geta þess, að eins og nál. ber með sjer, hefir einn nefndarmanna talið æskilegt, að málsókn við hæstarjett færi fram skriflega. Jeg er sömu skoðunar og teldi það mikinn sparnað, ekki einungis hinu opinbera, heldur og landsmönnum yfirleitt. Áhugi manna fyrir munnlegum málsóknum í rjettinum hjer er mjög lítill, og tel jeg ekki líklegt, að það mundi breytast verulega á næstunni. En jeg býst við því, að væri málsókn höfð skrifleg, hefði maður meiri tryggingu fyrir því, að forsendur dómsins væru betri en nú. Dómurinn mundi semja forsendur að nýju, í stað þess að þær forsendur, sem nú eru prentaðar, eru forsendurnar fyrir undirrjettardómunum því nær eingöngu. Auk þess yrði þetta stórmikill sparnaður fyrir hið opinbera og einstaka menn. Samkvæmt taxta málaflutningsmanna er lægsta gjald fyrir málflutning við hæstarjett 300 kr., en ekki nema 40 kr. Við undirrjett.

Þrátt fyrir dómafjölgun í Reykjavík á síðustu árum, hefir málum í hæstarjetti ekki fjölgað að ráði. Álít jeg það koma af því, að málsóknin er þar of dýr. Menn áfrýja ekki málum nema mikið sje í húfi og þeir þykist vissir um að vinna þau. Jeg álít, að þessi breyting hefði átt að verða samferða hinni, því að báðar hafa mikinn sparnað í för með sjer.