17.03.1924
Efri deild: 21. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1989 í B-deild Alþingistíðinda. (1437)

29. mál, hæstiréttur

Forsætisráðherra (SE):

Út af ákvæði 1. gr. frv., um að dómararnir kjósi sjer sjálfir forseta, vil jeg skjóta þeirri fyrirspurn til háttv. frsm. (JM), hvort þar sje ætlast til, að einn sje forseti þetta árið og annar hitt. (JM: Já). Úr því svo er, má telja víst, að þar verði eilífur eldur, eilífur flokkadráttur árs árlega.

Ennfremur vil jeg beina þeirri fyrirspurn til hv. frsm., hvort hann ætlist til, að hafður sje settur maður í dómaraembættinu jafnvel 4–5 ár. Því það er altaf talið mjög vont að þurfa að hafa setta menn í dómarastöðum eins og þessum, því með því veikist aðstaða dómsvaldsins gegn umboðsvaldinu.