19.03.1924
Efri deild: 23. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1994 í B-deild Alþingistíðinda. (1443)

29. mál, hæstiréttur

Frsm. (Jón Magnússon):

Jeg þarf ekki að tala langt mál að þessu sinni. Get látið mjer nægja að vísa til þess, sem hv. 5. landsk. hefir sagt, og til greinargerðar nál. Jeg viðurkendi það við 2. umr., að þó að breyting þessi væri ekki sprottin af sparnaðarástæðum, þá áliti jeg, að dómstjórinn ætti ekki að hafa aukaþóknun fyrir starf sitt. Þegar dómendum rjettarins er fækkað, þá er það nauðsynlegt, að allir dómendurnir taki sem jafnastan þátt í dómsstörfunum. Það er vitanlegt, að þegar sami maður er dómstjóri um lengri tíma, þá hefir hann ekki jafnmikla æfingu í dómarastörfunum sem hinir dómendurnir, þar sem hann hefir ekki annað að gera en að velja á milli dómsatkvæða hinna, ef þá greinir á, nema í þeim örfáu tilfellum, að hann vildi gera ágreiningsatkvæði. Þegar dómendur eru 5, er öðru máli að gegna í þessu efni heldur en ef þeir eru aðeins 3. Rjetturinn hefir í fyrra tilfellinu betur ráð á að missa þannig einn mann frá dómsstörfunum sjálfum. Menn hafa talað um það í þessu sambandi, að það sje til þess að viðhalda virðuleik rjettarins, að halda beri þeirri venju að skipa dómstjórann. En mjer finst ekki svo, og mjer er heldur ekki kunnugt um það, að nein metorðaskrá sje til hjer. Held jeg, að það muni á engan hátt rýra álit rjettarins, þó að breyting sú, sem um er að ræða, nái fram að ganga, og jeg býst satt að segja við, að það verði hollast að skoða öll embættin jafnvirðuleg. Það er nú einu sinni svo, að Íslendingar eru svo demókratiskt hugsandi, að þeim mun áreiðanlega þykja hæstirjettur jafnvirðulegur, enda þótt dómstjórinn sje kosinn af dómendunum, en ekki skipaður af landsstjórninni. Eða finst mönnum biskupsembættið óvirðulegt fyrir það, að biskupinn er kosinn af prestum landsins? Eða forsetar Alþingis, eða rektor háskólans o. s. frv.? Þess eru mörg dæmi með öðrum þjóðum, að kosið sje til slíkra mjög virðulegra embætta. T. d. má geta þess, að í Englandi er kosið til jafnvirðulegs embættis sem Lord mayorsembættisins í hvaða borg þess lands sem er. Fyr á tímum var það konunglegt embætti, en nú er því breytt. Mun svo vera um mörg fleiri virðuleg embætti, án þess að slík breyting hafi haft nokkur rýrandi áhrif út á við. Þeir, sem vilja vita, hver sje dómstjóri hvert ár, geta sjeð það í auglýsingu, sem birt verður í hvert skifti eftir kosninguna. Sú fullyrðing hv. andstæðinga breytingarinnar, að störf dómstjórans verði ekki rækt eins vel, ef breyting fær fram að ganga, held jeg að ekki sje sögð í þeim tilgangi, að hún sje tekin alvarlega.

Hæstv. forsrh. sagði, að fyrir gæti komið, að enginn yrði löglega kosinn dómstjóri. Ef það kæmi fyrir, þá held jeg að ekki væri annað að gera en að höfða sakamál á hendur öllum dómendunum fyrir alveg einstök embættisafglöp. Annars skal jeg ekki fjölyrða um þetta. Atkvæðin verða að skera úr málinu. Jeg þykist hafa fært nægileg rök fyrir mínum málstað. Hvort þetta fyrirkomulag á sjer stað við svipaðar stofnanir annarsstaðar, veit jeg ekki og hefi ekki rannsakað það sjerstaklega.