26.03.1924
Neðri deild: 33. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 408 í B-deild Alþingistíðinda. (145)

1. mál, fjárlög 1925

Jón Kjartansson:

Jeg skal vera stuttorður. Það er von, að hv. þm. sjeu orðnir þreyttir. Myndi jeg ekki hafa staðið upp, ef hv. frsm. hefði ekki knúið mig til þess með orðum sínum út af ummælum mínum í dag.

Enginn mun bera hv. frsm. það á brýn, að hann berjist ekki vel fyrir brtt. hv. fjvn., enda eru þær þess verðar flestar, og mun jeg sýna það með atkvæði mínu, að jeg legg ekki á móti mörgum þeirra. Hitt er vafasamara, hversu heiðarlega hann berst fyrir till. nefndarinnar eða hversu drengilega hann kemur fram móti andmælendum sínum. Það er afarauðvelt í „Debat“ að gera keppinaut sínum fyrst upp orðin og svara síðan eftir því. Þannig fór hv. frsm. að við mig, út af þeim meinlausu ummælum mínum.

Háttv. frsm. mintist á kvennaskólann í Reykjavík og taldi, að jeg hefði eigi vitað um Blönduósskólann. Það, sem jeg hjelt fram, og því hefir hv. frsm. ekki mótmælt, þvert á móti margoft tekið það sama fram, að kvennaskólinn í Reykjavík er nú sá eini almenni sjerskóli, sem við eigum handa kvenþjóðinni. Kvennaskólinn í Reykjavík er ekki aðeins húsmæðraskóli, eins og Blönduósskólinn, heldur er hann einnig skóli með almennri gagnfræðamentun.

Þá var styrkurinn til Þórs. Jeg var ekki að tala um neina tillögu um 40 þús. kr., sem lægi fyrir; þótti aðeins miður, að nefndin hefði ekki sjeð sjer fært að mæla með þessari upphæð.

Öðrum ummælum hv. frsm. ætla jeg ekki að svara að sinni, enda gaf hann ekki beina ástæðu til þess.

Áður en jeg sest, niður, vildi jeg aðeins finna að þeirri aðferð, sem hv. 2. þm. Rang. (KlJ) og fleiri hafa notað hjer, en sú aðferð finst mjer illa eiga við, að hann var að bera á mann, sem ekki hefir tækifæri til að svara hjer, hv. 1. landsk. þm. (SE), að honum væri að kenna hækkun eða háar áætlanir á sumum liðum fjárlaganna. En eins og jeg hefi sagt, mun jeg ekki lengja umræður meira en þörf er á, og lýk því máli mínu að sinni.