25.04.1924
Neðri deild: 54. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2008 í B-deild Alþingistíðinda. (1454)

29. mál, hæstiréttur

Forsætisráðherra (JM):

Jeg hefi ekki heyrt neitt nýtt koma fram við þessar umræður, og hefi jeg því ekki annað að segja um þetta mál en það, sem jeg sagði í fyrra og nú á þessu þingi í hv. Ed.

Jeg hefi talið það forsvaranlegt að hafa aðeins 3 dómendur í hæstarjetti. Í greinargerð þessa frv. hefi jeg tekið fram, að frv. sje eingöngu borið fram í sparnaðarskyni. Jeg viðurkendi, að það væri í sjálfu sjer æskilegra að hafa 5 dómendur en 3, og því væri betra að þurfa ekki að spara í þessu efni. Og því er ekki að neita, að í raun og veru er meira öryggi í 5 manna dómstól en þriggja. En vjer verðum í svo mörgum efnum að gera oss ánægða með dálítið minna en stærri þjóðir þykjast þurfa. Tala dómendanna getur altaf verið álitamál. Það má segja, að 5 nægi ekki, heldur þurfi dómendurnir að vera 7, og verður því ekki neitað, að það væri betra. Öryggið fer þó ekki að öllu leyti eftir dómendafjöldanum, þó að það sje öllu meiri trygging í fleiri mönnum heldur en færri.

Jeg tel eftir högum vorum viðunanlegt að hafa 3 dómendur í hæstarjetti. Þarf jeg ekki að fara fleiri orðum um það, þar sem hv. allshn. hefir komist að sömu niðurstöðu. Jeg býst og ekki við því, að neinn muni hafa á móti því, að komist verði af án hæstarjettarritaraembættisins. Hvort sem dómendum verður fækkað eða ekki, má vel komast af með minna en óskift starf eins manns.

Jeg hefi sagt frá upphafi, að heppilegra væri að hafa miðdómstig, hvort sem fækkað verður í hæstarjetti eða ekki. En það er framtíðarmál. Verði það stofnað nú, er sparnaður enginn að þessari breytingu. Því get jeg engu lofað um það, að núverandi stjórn leggi fyrir næsta þing frv. um slíkan miðdóm. Jeg tel það æskilegt, meðal annars af þeim ástæðum, sem hv. frsm. (JK) tók fram, að stofnaður sje miðdómur, en þó því aðeins, að hann geti orðið oss ódýr. Hefir verið bent á leið til þess, að kostnaður við hann verði ekki mjög mikill, sem sje að láta bæjarfógetann í Reykjavík og kennarana við lagadeild háskólans eiga sæti í honum. En því yrði ekki komið við fyr en þetta væri gert að skilyrði við veitingu þessara embætta. Það væri því miklu hreinna að segja, að menn vilji enga fækkun í hæstarjetti heldur en að setja það skilyrði, að miðdómstigi, sje þegar komið á, því að þá er enginn sparnaður.

Um það hefir verið rætt, að spara kostnaðinn við hæstarjett á þann hátt, að dómararnir væru kennarar við lagadeild háskólans. Þetta fyrirkomulag tel jeg ófært í hæstarjetti, en í miðdómi gæti það vel átt sjer stað.

Hjer eru því ekki nema tveir kostir fyrir hendi. Annar sá, að fækka nú þegar dómendum í hæstarjetti, án þess að setja á stofn miðdómstig. Hinn er að fella frv. Það er enginn sparnaður, ef frv. þetta væri samþykt og um leið stofnaður nýr miðdómur. Það væri því, að mínu áliti, sama sem að vísa málinu á bug, ef tillaga hv. 4. þm. Reykv. (MJ) yrði samþykt, að þessi fækkun komi ekki til framkvæmda fyr en víst sje um það, að miðdómstig verði stofnað.

Þetta er einfalt mál, sparnaðarmál og ekkert annað. Það er sparnaður, sem jeg tel verjandi, og verður hver og einn hv. þm. að meta, hvernig hann lítur á þetta mál. Alt annað, sem um málið hefir verið rætt, eru aukaatriði. Það var borið undir hv. Ed., hvort hún teldi þessa fækkun verjandi eða ekki, Deildin svaraði því játandi. Nú verður þessi hv. deild að segja, hvernig hún lítur á þetta mál.

Að lokum vil jeg endurtaka, að það er framtíðarmál, að setja á stofn miðdómstig. Það er heppilegra að því leyti, að málin verða betur undirbúin og málsóknin venjulega ódýrari fyrir almenning, þó að það sje reyndar stundum kostnaðarsamara að hafa 3 dómstig en tvö.