25.04.1924
Neðri deild: 54. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2010 í B-deild Alþingistíðinda. (1455)

29. mál, hæstiréttur

Magnús Jónsson:

Það hefir nú þegar verið talað þó nokkuð með og móti brtt. minni, og skal jeg því ekki eyða miklum tíma í að tala um hana, enda er þetta svo mikið lögfræðingamál, að erfitt er, fyrir leikmenn í jurisprudentíu að tala um það.

Jeg skal taka það fram, að jeg er mótfallinn öllum tilraunum um að spara verulega á hæstarjetti, hvort sem er með því að fækka dómendum, eins og hjer er farið fram á, eða með því að láta dómendur jafnframt hafa á hendi lagakenslu í háskólanum, svo sem áður hefir verið reynt. Þegar frv. var til umræðu í allshn., hjelt jeg þessu einlægt fram, og vildi jeg í raun og vera alls ekki afgreiða málið frá nefndinni. Það þarf því ekki að koma hv. 2. þm. Árn. (JörB) á óvart, hafi hann haft eyran hjá sjer í nefndinni, þó að jeg gerði ágreining, enda skrifaði jeg undir nál. með fyrirvara. Annað er það, að jeg ber svo mikla virðingu fyrir sjerþekkingu, að þegar þetta mál er flutt af manni, sem hefir verið talinn ágætur lögfræðingur, og lögfræðingurinn í nefndinni taldi þetta fært, þá gat jeg illa staðið mig við að gera ágreining. En jeg tók það skýrt fram í nefndinni, að fyrirvari minn væri bundinn við það atriði, sem jeg hefi flutt brtt. um. Hafði jeg nokkra ástæðu til að halda, að stjórnin mundi gefa glögga yfirlýsingu um, að hún mundi ekki fækka í hæstarjetti nema sett væri um leið á stofn miðdómstig, og hefði þá getað sætt mig við það.

En eftir að jeg komst að því, að erfitt var að fá slíka yfirlýsingu, og eftir að hæstv. forsrh. (JM) hefir meira að segja gefið yfirlýsingu í gagnstæða átt, þá þótti mjer vænt um, að jeg slepti ekki að koma fram með þessa brtt. Hún er í fullu samræmi við það, sem jeg hefi ávalt haldið fram í þessu máli, og í fullu samræmi við starfsemi mína í nefndinni. Jeg skal ekki fara neitt inn á það nú, hvort heppilegt muni vera að fækka hæstarjettardómurunum um tvo menn, en stofna aftur miðdómstól í staðinn; jeg er og tæplega nógu kunnugur dómstólastarfseminni til þess að vera fær um það. En um hitt blandast mjer ekki hugur, að sparnaðurinn, sem til er stofnað með frv., þarf ekki að vera að engu gerður, þótt miðdómstigið sje upp tekið. Ef t. d. bæjarfógetinn í Reykjavík ætti sæti í honum ásamt einum manni öðrum, þá myndu laun þess manns þó aldrei fara fram úr launum eins hæstarjettardómara. Við þetta myndu því sparast 10–20 þús. krónur, og er það engin smáupphæð, þegar tekið er tillit til þess, að hjer er um ekki stærri eða dýrari stofnun að ræða. Það er og mögulegt, að enn meira mætti spara með því, að einhver lögfræðisprófessoranna ætti sæti í miðdómnum ásamt bæjarfógetanum. Það getur verið mjög gerlegt, þótt hitt kunni að vera frágangssök, að slíkur maður ætti sæti í æðsta dómstól landsins.

Jeg á bágt með að sjá, að það yrði nokkuð til að tefja málið, þótt brtt. mín yrði samþykt, því samkvæmt 10. gr. frv. koma lögin hvort sem er ekki fyrst um sinn til framkvæmda. Hitt getur aftur komið fyrir, að kröfur komi fram um að stofna þennan miðdómstól, þótt ekki hafi neitt verið fækkað í hæstarjetti áður. Gæti það þá vel orðið til fyrirstöðu, að slík breyting næði fram að ganga, að menn þyrðu ekki að treysta tómu loforði um það, að dómurum hæstarjettar yrði síðar fækkað. Það myndi þá verða greiðari leið að fækka nú þegar í hæstarjetti með þessum skilyrðum. — Það er raunar ekki svo að skilja, að jeg leggi neina sjerstaka áherslu á, að þessi brtt. mín verði samþykt, en verði hún ekki samþykt, þá greiði jeg bara atkvæði gegn frv. — Jeg er sem sje alls ekki viss um, að það sje nokkuð betra fyrirkomulag, að hafa tvo dómstóla og færri í hæstarjetti, heldur en eins og nú er. En hitt er mjer ljóst, að það væri til stórspillis að fækka hæstarjettardómurunum úr 5 niður í 3 án þess að nokkuð kæmi í móti. Það eru oft mikilsvarðandi dómar, sem velta aðeins á álitamáli, og er þá tryggingin fyrir rjettum dómi stórkostlega minkuð, ef dómendum er fækkað niður í 3. Það yrði þá aðeins einn á móti einum og svo skæri þriðji maðurinn úr, og er fjarri því, að þar með sje fengin sú trygging fyrir rjettum dómi, sem heimta verður af æðsta dómstóli landsins.

Það má vera, að þessi brtt, komi í bága við 2. gr. hæstarjettarlaganna, og yrði þá að breyta henni til 3. umr.

Jeg hefi skrifað hjer upp nokkrar athugasemdir við það, sem fram hefir komið við þessa umr., en get vel slept að fara út í þær. Jeg skal þó aðeins taka það fram að því er snertir Bandaríkin, sem einn hv. þm. vitnaði í, að þar stendur alt öðruvísi á en hjer hjá okkur. Þau eru sett saman af mörgum sjálfstæðum ríkjum, þar sem gert er út um flest mál með hæstarjettinum heima fyrir; svo það eru aðeins sárfá mál, sem koma fyrir hinn sameiginlega hæstarjett allra ríkjanna. — Skal jeg svo ekki orðlengja þetta meira að sinni.