25.04.1924
Neðri deild: 54. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2015 í B-deild Alþingistíðinda. (1457)

29. mál, hæstiréttur

Árni Jónsson:

Þetta frv. er eitt af þeim mörgu, sem flutt eru í sparnaðarskyni. Tilgangur þess er að því leyti mjög lofsverður og viðurkenningarverður. Jeg hefi fylgt flestum slíkum frv., sem hjer hafa komið fram, en jeg skal játa það strax, að jeg á mjög bágt með að sætta mig við þetta frv., sem hjer liggur fyrir. Við verðum að gæta þess, að hjer á í hlut æðsti dómstóll okkar, en æðsti dómstóll hverrar þjóðar er hennar helgasta stofnun, sem ekki á að hrófla neitt við, nema mjög mikið sje í húfi. Hver borgari í siðuðu þjóðfjelagi verður að hafa tryggingu fyrir því, að hann verði aldrei órjetti beittur fyrir æðsta dómstóli þjóðarinnar. Hann þarf að hafa tryggingu fyrir því, að rjettur hans sje þar aldrei fyrir borð borinn. Og sú trygging verður aldrei metin til fjár. Ef því þessi sparnaður, sem hjer er farið fram á, gæti á nokkurn hátt orðið til þess að veikja traust rjettarins, og þar með rjettaröryggið í landinu, þá er hann mjög varhugaverður. Því það er með sparnaðinn eins og annað, að of mikið að öllu má gera.

Jeg verð að álíta, eftir því sem fram hefir komið, að þessi breyting verði til þess að veikja traust rjettarins. Málaflutningsmannafjelagið hefir haft þetta mál til umræðu, og var þar kosin þriggja manna nefnd til þess að athuga það. Var Jón Ásbjörnsson málsvari þessarar nefndar og gerði mjög ítarlega grein fyrir áliti hennar nú nýlega í Morgunblaðinu. Býst jeg við, að hv. deildarmenn hafi flestir lesið þá grein. Einnig má á það benda, að dómararnir sjálfir eru á móti þessari breytingu.

Álit dómsins út á við myndi einnig bíða mikinn hnekki við þessa breytingu. Nágrannaþjóðirnar hafa á sínum hæstarjetti: Norðmenn 17 og Danir 13 dómara. Hjer er ekki til neins að vitna í það, að þetta sjeu svo svo miklu fólksfleiri þjóðir heldur en við, enda hefðu Danir þá átt að hafa fleiri dómara, í hlutfalli við Norðmenn. Löggjöf okkar mun vera álíka flókin og umfangsmikil og löggjöf þessara þjóða, en á það verður að líta, þegar ákveða á fjölda dómaranna. Þegar löggjöfin er orðin jafnmargbrotin og nú, er það ekki á færi eins eða tveggja manna að dæma svo, að fullörugt þyki.

Það hefir einnig verið á það bent, að samkvæmt hlutarins eðli verði altaf nokkrir aldraðir menn í þessum rjetti, og það er hætt við, að oft geti farið svo, að að minsta kosti einn dómarinn sje orðinn lítt fær um að annast hin erfiðu og ábyrgðarmiklu störf sín fyrir aldurs sakir.

Hjer á árunum, fyrir 30–40 árum síðan — það var á þingunum 1885–91 — barðist Benedikt heitinn Sveinsson fyrir flutningi hæstarjettar inn í landið. Í frv. hans 1891 er svo ákveðið, að dómararnir skuli vera 5; átti að bæta tveim dómurum við landsyfirrjettinn. Þannig leit þessi maður á málið fyrir mannsaldri síðan. Hann taldi ekki öryggið fullt, ef dómendurnir væru færri. Þá var hagur landsins mjög erfiður, þótt hann ef til vill væri ekki út af eins erfiður og nú, og þá voru heldur ekki komnar allar hinar stórkostlegu byltingar í atvinnuvegum vorum og löggjöf, sem nú er. Það er því auðsjeð, að hafi þá verið þörf á 5 dómurum í rjettinum, þá er hún miklu brýnni nú.

Hv. allshn. hefir verið þetta ljóst, að rjettaröryggið bíður hnekki við það, ef þessi breyting nær fram að ganga. Og hún leggur áherslu á, að þetta fyrirkomulag megi ekki vera til frambúðar. Hún segir berum orðum, að hún líti svo á, að dómsvaldið sje ekki nægilega örugt, ef dómendum í hæstarjetti verði fækkað fyr en stofnað er miðdómstigið, er verði áfrýjunarrjettur frá undirrjetti til hæstarjettar. En samt sem áður mælir nefndin með því, að frv. nái fram að ganga óbreytt. Þetta er í mínum augum mjög einkennilegt, því þótt nefndin geri ráð fyrir, að stjórnin undirbúi þetta miðdómstig fyrir næsta þing, þá er það engin trygging. Vél getur svo farið, að dómarar í hæstarjetti deyi fyrir þann tíma, og þá verða ekki skipaðir menn í þeirra stað samkvæmt frv. Það getur því farið svo, að rjettaröryggið, sem nefndin leggur svo mikla áherslu á, biði hnekki á þessum tíma. En það má það ekki. Þjóðin má ekki missa traustið á þessum dómstóli sínum eitt augnablik.

Þá er annað að athuga við stofnun þessa miðdómstóls og kostnaðarhliðina. Látum svo vera, að ríkissjóður verði ekki fyrir miklum auknum útgjöldum. við stofnun þessa miðdómstigs. En það er almenningur, sem verður að borga. Sje gert ráð fyrir, að hvert mál kosti 500 kr. og 50 mál komi fyrir rjettinn á ári, þá eru það 25 þús. kr., sem fara úr vasa almennings á ári fram yfir það, sem nú er. Mjer finst hv. nefnd því hopa hjer frá sparnaðartilganginum, því sparnaður fyrir ríkissjóðinn, sem lenti á herðum borgaranna, er í rauninni falskur sparnaður. Ríkissjóðurinn á jafnan að vera spegilmynd af efnáhag borgaranna. Blásnauðir borgarar og troðfullur ríkissjóður er hrein fjarstæða.

Þó ljett sje af ríkissjóði útgjöldum, þá er slíkur sparnaður í raun og veru enginn sparnaður, ef almenningur verður ekkert betur úti. Líka vil jeg benda á það, að eftir því sem dómstigum fjölgar, tefst lengur að fá fullnaðarúrskurð um málin. Það er óhætt að segja, að úrskurður fáist einu ári seinna, ef bætt er við nýju dómstigi. Jeg veit hreint ekki, hvort það er heppilegt að fara þá leið. Jeg hneigist helst að því, að halda beri því fyrirkomulagi, sem nú er.

Loks vil jeg fara nokkrum orðum um brtt., sem jeg hefi borið fram við 6. gr., þar sem talað er um ágreiningsatkvæði í dómnum, að í stað þess, að þar er ákveðið, að dómarar eigi heimting á, að atkvæðin sjeu birt, komi: skuli verða birt. Þetta er gert til þess, að dómararnir leggi sig fram eins og unt er, því með þessu móti er girt fyrir það, að einn dómari geti varpað ábyrgðinni af sjer yfir á rjettinn. Þetta fyrirkomulag hefir verið reynt í Noregi og gefist þar vel, og vona jeg því, að till. þessi fái góðan framgang.