26.03.1924
Neðri deild: 33. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í B-deild Alþingistíðinda. (146)

1. mál, fjárlög 1925

Jakob Möller:

Það er nú sjálfsagt tilgangslítið að taka hjer til máls, því að menn munu vera hingað komnir til annars en að láta sannfærast, og er þar víst jafnt á komið með sál og líkama, að því er ráðið verður af auðum stólum hv. þm.; og þótt jeg kunni að segja hjer fáein orð, er það fremur til að ljetta af samviskunni en af því að jeg búist við að hafa með því áhrif á gang málanna. Þó vildi jeg beina athygli fjvn. að einstökum atriðum í breytingartillögum hennar. Verða þá fyrst fyrir mjer í þessum kafla þrjár tillögur á þskj. 163, 51.–53. liður. Um þá fyrstu af þessum tillögum er það að segja, að sama er, hvaða tillögur nefndin gerir í því máli, þar sem borga verður upphæðina alt að einu, enda mun hún síst vera of há. Hjer er um samningsbundna greiðslu að ræða, sem þýðingarlaust er að reyna að smeygja sjer undan. Jeg tók eftir því, að forsætisráðherra (JM) gerði þá athugasemd við þá næstu af þessum tillögum, að eins væri þar ástatt. Mjer er ekki það mál kunnugt, en sannarlega get jeg ekki öfundað háttv. fjvn. af sínu leiðinlega verki, ef tilraunir hennar til að lækka útgjöld ríkissjóðs koma fram í því að ráðast á samningsbundnar greiðslur. Þriðja tillagan mun að vísu ekki ganga í þá átt, en jeg get ekki sjeð, að það nái nokkurri átt, að hún nái fram að ganga. Það geta allir sjeð, hvílík sanngirni er á því að lækka námsstyrk til stúdenta, sem eru við nám erlendis, um meira en helming, og skilja þá eftir allslausa á götum stórborganna, og þá ekki síður, hvílík fásinna er að ætla sjer að skuldbinda einstaka stofnun til að taka sjer þessa gjaldabyrði á herðar. Hjer er alt á eina bókina lært. — Jeg tók það fram, að hv. nefnd hefði haft leiðinlegt starf með höndum. Hún hefir klipið þetta 200–500 krónur af hverjum einstökum lið, og samtals nemur þetta 160 þús. kr. í þessari upphæð eru fólgnir einstaka háir liðir, svo sem 25 þús. kr., sem eiga að sparast við það að leggja niður sendiherraembættið í Kaupmannahöfn. Maður sá, er þessu embætti hefir gegnt, hefir nú sagt af sjer, og mun þessi tillaga nefndarinnar standa í sambandi við það. Annað eins hefir nú komið fyrir áður án þess að slíkt hafi verið gert, — að maður hafi sagt af sjer, vegna þess að gert hafi verið ráð fyrir því, er ekki hefir ræst, og er því eins líklegt, að þessi spámaður nefndarinnar verði til lítillar frambúðar.

Það kemur fram, að nefndinni hefir þótt lítill árangur af sínu leiðinlega starfi, þar sem hún leggur til að hækka skólagjöld við mentaskólann úr 100 kr. upp í 150 kr. Það fylgir með í nál., að þetta verði til að minka stúdentaframleiðsluna, og er þar jafnframt gefið í skyn, að ekki sje skaði skeður. Þetta má nú vel vera. En hvernig kemur þessi minkun stúdentaframleiðslunnar út? Hún kemur þannig út, að efnafólkið sendir syni sína í skóla jafnt eftir sem áður, án tillits til þess, hvort þeir eru vel eða illa til þess fallnir, en fátæka fólkið, sem hingað til hefir því aðeins reynt að kosta börn sín til náms, að þau hefðu sjerstaka löngun og hæfileika til þess, er með þessu útilokað frá því að menta börn sín á þennan hátt. Jeg hygg, að fjárkreppa manna og örðugleikar í þessu efni sjeu nægilegir, þótt þessu sje ekki bætt ofan á, og mjer finst, að jeg eigi engin nógu sterk orð til að lýsa slíku atferli. Jeg býst við, að það reynist örðugt að vekja þessa stóla, er standa auðir hjer í salnum, til meðaumkunar með þessum fátæklingum, sem þessi tillaga nefndarinnar gerir rangt til, en jeg efast um, að hægara væri að vekja þá þingmenn, sem í þeim eiga að sitja, til meðaumkunar, og þess vegna harma jeg ekki svo mjög, þótt þeir sitji ekki í þeim. Mjer hefir nú aldrei verið hælt fyrir að vera sparnaðarmaður, og jeg skal fúslega játa, að mjer er þessi sparnaður mjög ógeðfeldur og mun alls ekki vinna það til, til þess að fegra mig í augum kjósenda, að greiða honum atkvæði. Það verður að fara sem fara vill. Jeg læt heldur ekki hv. nefnd telja mjer trú um, að ríkissjóður standi eða falli með öðru eins og þessu, eða að það sje vænlegast til bjargráða að murka niður alla mentun í landinu. — Hv. frsm. (ÞórJ) talaði um mannslíf af miklum fjálgleik. Veit jeg það vel, að ilt er að geta ekki brúað hættuleg vatnsföll. Jeg veit samt ekki, hvort verra er, að menn deyi fyrir fult og alt eða að andlegt líf þeirra sje murkað úr þeim, eins og margar tillögur nefndarinnar ganga út á, eða með öðrum orðum, hvort sje verra að deyða sál eða líkama.

Ein af till. nefndarinnar fer fram á að lækka laun gamals starfsmanns úr 7000 kr. niður í 4000. Fylgir það með í nál, að þessi maður verði að leita sjer nýrrar atvinnu sjer til lífsframfæris. Það lítur út fyrir, að nefndinni hafi ekki verið kunnugt um, að þessi maður er kominn á þann aldur, að slíkt er með öllu útilokað. Með þessu er manninum því fleygt út á klakann, svo að manni fer að finnast, að það geti orkað tvímælis, hve mannslíf sjeu mikils metin.

Háttv. frsm. talaði um búnaðarframkvæmdir og um það, hve miklu fje væri varið til slíkra framkvæmda í hverju menningarlandi. Þetta get jeg fallist á, og þær tillögur nefndarinnar, sem ganga í þessa átt, eru einmitt þær einu, er jeg býst við að greiða atkvæði. Ekki hefir þó nefndinni tekist að vera sjálfri sjer samkvæm í þessu atriði. Þannig fer 108. brtt. fram á að fella niður fjárveitingu til einstaks manns, er mjög snertir þessi mál. Jeg á hjer við styrkinn til rannsóknar á jarðargróðri Íslands. Enginn mun í alvöru geta neitað því, að slíkar rannsóknir sjeu þýðingarmiklar. En auðsjeð er, hvar fiskur liggur undir steini. Hjer er um fjárveitingu til einstaks manns að ræða, og því á að fella hana niður, alveg án tillits til þess, hvort hún er þörf eða óþörf. Ef ýms önnur störf, er launaðir ráðunautar hafa með höndum, eru nauðsynleg, þá er þetta það ekki síður.

Þá leggur nefndin til að fella niður styrk til veðurathuganastöðvarinnar og afsakar það með því, að þetta varði ekki landbúnaðinn. Þetta er nú vitanlega fullkominn misskilningur. Aðeins af því, að þessi fræðigrein er ókunn hjer, er nú þvílík tillaga sem þessi fram komin. Mig furðar á því, að hið helsta, sem nefndin telur þessari stofnun til gildis, er það, að hægt sje að senda veðurskeyti til Danmerkur. Ef það væri helsta mótbáran gegn því að fella niður styrkinn, skyldi jeg ekki hreyfa mótmælum. En það er enginn vafi á, að mikið gagn getur leitt af veðurathugunum, bæði til lands og sjávar. Hitt er satt, að veðurspár rætast ekki á einum degi. Veðurathuganastöðin hjer hefir líka átt við mikla örðugleika að etja, sem nú er í ráði að bæta úr, og þá er lagt til að leggja hana niður. Þannig hefir hana skort ábyggilegar athuganir á veðurfari norður og vestur frá landinu, og á meðan svo er, er ekki von, að rannsóknir verði fullkomlega tryggar. En nú stendur til, að úr því verði bætt með bygging loftskeytastöðva á austurströnd Grænlands. Víst er um það, að veðurathuganastöðin getur bjargað mannslífum og jafnframt stutt atvinnuvegina. — Einhver gat þess, að um eitt skeið hefði veðurathuganastöðin í Kaupmannahöfn verið höfð að háði. Vel má vera, að svo hafi verið, því víða hefir það komið fyrir, að stöðvarnar hafa verið óábyggilegar fyrst í stað, en lagast með tíð og tíma og orðið að lokum stórþarfar og nauðsynlegar fyrir land og lýð, eins og nú er víða um heim. Jeg álít því mjög illa farið, ef þessi tillaga nefndarinnar nær fram að ganga.

Jeg get ekki stilt mig um að minnast enn á tvo liði, 90. og 105. brtt. Fyrri liðurinn fer fram á, að upphæðin til kaupa á listaverkum verði feld niður, og hinn síðari að lækka styrkinn til skálda og listamanna úr 12 þús. kr. niður í 8 þús. Hjer er um hið mesta ósamræmi að ræða. Fyrir nokkrum árum var farið að styrkja málara með því að láta ríkið kaupa listaverk þeirra. Þetta var mjög heppileg ráðstöfun. Listamennirnir vorn látnir gjalda styrkinn fyrirfram og styrktir um leið og ríkið eignaðist verk þeirra. Nú get jeg ekki betur sjeð en að ósamræmi sje í því fólgið að svifta málarann þessum listamannastyrk, en að láta skáld og aðra listamenn halda sínum, þótt lækkaður sje. Jeg veit, að margir líta hornauga til þessara styrkja, en þrátt fyrir örðugan fjárhag mundi jeg greiða atkvæði með báðum upphæðunum óbreyttum, og vona, þótt 90. brtt. verði samþykt, að hv. deild taki því sæmilega, þótt jeg taki þann styrk upp við 3. umr. eitthvað lækkaðan í hlutfalli við hinn.

Mjer þótti leiðinlegt að sjá 111. brtt., sem fer fram á að fella niður styrkinn til alþýðufræðslu Stúdentafjelagsins. Þessi alþýðufræðsla hefir starfað í tugi ára og alt verið gert til þess, að hún næði til sem flestra, enda er hún öllum kunn og alstaðar vel rómuð. Það hefir verið talað um afmentunarstefnu í sambandi við sumar gerðir fjvn., og jeg get ekki að því gert, að mjer finst ekkert annað orð lýsa betur athæfi hennar í þessu máli.

Það hefir mikið verið talað hjer um skóla og styrki til þeirra. Meðal annars fer nefndin fram á, að feldur sje niður styrkur til lýðskólans í Bergstaðastræti. Kemur þar fram sú skoðun margra hv. þm. utan Reykjavíkur, að óleyfilegt sje að veita styrk til skóla, er Reykvíkingar sækja. Þó hafa þeir ekki enn svift alla skóla í Reykjavík styrk, en vera má, að þess sje ekki langt að bíða, enda er hjer um ósamræmi að ræða, þar sem þennan umrædda skóla sækja utanbæjarmenn jafnt og innfæddir Reykvíkingar. Nú í vetur veit jeg ekki betur en að fullur helmingur nemenda skólans hafi verið utan Reykjavíkur, og svipað hlutfall mun hafa verið á undanförnum árum. Jeg get líka fullyrt, að skólinn nýtur nokkurs styrks úr bæjarsjóði Reykjavíkur, svo að hv. fjvn. þarf ekki að setja það fyrir sig, að hann hafi hvílt að öllu leyti á ríkissjóði.

Það má segja svipað um 88. brtt. hv. fjvn., að hún kemur sjer öllu ver fyrir utanbæjarmenn en Reykvíkinga. Hún fer fram á að fækka þeim stundafjölda, sem Þjóðmenjasafnið er opið, og er það gert til þess að geta lækkað þá lítilfjörlegu upphæð, sem þjóðmenjaverði er veitt til aðstoðar, sem er greidd 4 mætum konum, sem verið hafa í safninu til þess að leiðbeina gestum. Það gefur að skilja, að verði stundafjöldinn minkaður, sem safnið er opið, eiga aðkomumenn verri aðstöðu að sjá safnið. Flestir þeir, sem hingað koma utan af landi, hugsa fyrst um að sjá söfnin, og þá ekki síst þetta safn, og geta þá ýmsir farið þess á mis, ef stundafjöldinn er minkaður. Annars verð jeg að segja, að laun kvenna þeirra, er þarna starfa, eru svo lág, að þau geta tæplega minni verið, enda hefir nefndin viðurkent það með því að vilja fækka vinnustundunum jafnframt því að leggja til að lækka launin. Jeg vil því fastlega skora á hv. deild að láta hvorttveggja haldast óbreytt, laun og starfstíma. Í sambandi við þetta vil jeg minna á, að allar líkur eru til, að dýrtíð verði síst minni 1925 en nú, og er því síðut rjettmætt að lækka launa þeirra starfsmanna, sem standa í fjárlögum, en njóta ekki dýrtíðaruppbótar.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að tala um fleiri brtt. hv. fjvn., þó að rjett hefði verið að minnast á sumar þeirra, svo sem tillögu nefndarinnar um kvennaskólann í Reykjavík, er vjer þm. Reykvíkinga flytjum aðra brtt. um. En jeg vildi vekja athygli hv. þm. á brtt., sem jeg á á þskj. 196 og jeg vil biðja þá að hafa hliðsjón af, þegar greidd verða atkvæði um brtt. á þskj. 163, er lúta að hinu sama. Í stað þess að fella niður nokkra útgáfustyrki, sem eru samtals 4300 kr., er þess farið á leit, að það verði lagt á vald hæstv. stjórnar, hvort styrkirnir skuli greiddir. Jeg hefi orðið var við það, að ýmsir hv. þm. hafa skoðað þessa till. mína sem skop eitt, vegna þess hve upphæðin er smávægileg, en mjer er full alvara að fara þess á leit við þá hv. þm., sem álíta tæplega fært vegna fjárhagsörðugleikanna að heimila þessar greiðslur í fjárlögum, en bera hinsvegar fult traust til hæstv. stjórnar, að þeir leggi það á hennar vald að skera úr, hvort fjárhagur ríkisins þoli þessi útgjöld. Því að svo er um allar þessar greiðslur, að þótt þær verði feldar nú, koma þær til útgjalda einhverntíma síðar. Þessum útgáfum verður auðvitað haldið áfram seinna, þó að þeim verði nú slegið á frest. Geta hv. þm. því vel falið hæstv. stjórn að skera úr, hvort fært muni að greiða þennan kostnað á næsta ári. Jeg vil taka það fram um einn af þessum liðum, Lög Íslands, að nú hafa ráðstafanir verið gerðar til þess, að sú útgáfa hefjist á ný, eftir að síðasta þing hafði veitt styrk til þess. Útgefandinn lagði töluvert í kostnað til að koma útgáfunni í framkvæmd, og tel jeg mjög hæpið, að rjett sje af þinginu að taka styrkinn af honum aftur, eftir að hann hefir lagt fram talsvert fje, í trausti þess, að styrkurinn til útgáfunnar yrði látinn standa áfram.