25.04.1924
Neðri deild: 54. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2030 í B-deild Alþingistíðinda. (1462)

29. mál, hæstiréttur

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg skal ekki lengja tímann um skör fram, einkum vegna þess, að hv. þm. Borgf. (PO) hefir þegar tekið margt það fram, sem jeg vildi sagt hafa. Það er alls ekkert nýtt hjer á Alþingi, þótt fast sje lagst á móti niðurfelling embætta, samansteypum eða öðrum embættafækkunum. Í hvert sinn, sem tillögur í þessa átt hafa komið fram á Alþingi, hafa ávalt margir orðið til þess að rísa öndverðir gegn þeim. Það hafa ekki altaf verið stórvægilegar ástæður, sem fram hafa verið færðar gegn þessum till Hinsvegar hafa víst flestir háttv. þdm. lýst því yfir, bæði heima í hjeruðum sínum og hjer í hv. deild, að þeir vildu vinna að embættafækkun og öðrum sparnaði. Gegn þessu frv. hafa heldur ekki verið færð sjerlega veigamikil rök. Hv. 4. þm. Reykv. viðurkennir og, að þeir lögfræðingar, sem hann hafi talað við um málið, hafi allir verið á einni skoðun um það, að ekki væri það óforsvaranlegt að samþykkja frv. Það mundi alls ekki skaða álit rjettarins, hvorki hjer heima nje erlendis, og ekki heldur draga úr öryggi dómanna. Jeg vona og, að allflestir muni verða með mjer á þeirri skoðun, að öryggi dómanna muni meira vera komið undir mannvalinu en mannfjöldanum í rjettinum. Jeg hygg að í flestum tilfellum muni þrír valdir og vanir dómarar kveða upp betur rökstudda dóma en fimm menn, sem miður væru starfinu vaxnir eða óvanir dómarastarfi. Það er gömul og algeng mótbára, sem altaf kemur fram, þegar um fækkun embætta er að ræða, þetta, að embættin hafi álitist nauðsynleg þegar þau voru stofnuð, og að það sje skömm fyrir þjóðina að halda þeim ekki uppi framvegis.

Það er staðreynd, sem við verðum að horfast í augu við, að við sniðum stakkinn í þessu sem öðru alt of stóran á árinu 1919. Þá var sjálfforræði fengið eftir langa baráttu, fjárhagsleg afkoma þjóðarinnar glæsileg og allir menn á landi hjer stórhuga, ekki síst hv. þm., sem þá áttu hjer sæti, að undanskildum örfáum. Þegar nú í krappan dans er komið, þá verðum við að sníða stakkinn um.

Menn tala um háskóla, hæstarjett o. fl. sem helgar stofnanir. Svo best verða þær það, sem allir óska, göfugar og gagnlegar stofnanir, að þær sjeu við hæfi. Ef sparnaðurinn á að verða heilbrigður, þá á að byrja ofan frá, en ekki að rýra undirstöðurnar, sem eru atvinnuvegirnir. En jeg vil nú vænta, að hv. Nd. geti orðið hv. Ed. samferða í því að láta eitthvað eftir sig liggja í embættafækkunaráttina á þessu þingi.