25.04.1924
Neðri deild: 54. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2032 í B-deild Alþingistíðinda. (1463)

29. mál, hæstiréttur

Klemens Jónsson:

Jeg kvaddi mjer hljóðs svo snemma á dag, að ýmislegt af því, sem jeg hafði ritað niður hjá mjer, hefir þegar verið upplýst í þessum umr., og get jeg þess vegna verið stuttorðari en ella.

Allir þeir hv. þm., sem hafa talað í þessu máli, hafa talið það sjálfsagt og eðlilegt, að hæstirjettur var á sínum tíma stofnaður verið og að við hefðum vel getað. En jeg get alls ekki tekið undir þetta. Jeg álít, að hæstirjettur hafi fullfljótt stofnaður verið og að við hefðum vel getað beðið með það um nokkra hríð, þrátt fyrir fengið fullveldi, og að það vafalaust hefði farið betur á því, að hann hefði verið settur á laggirnar með dálítið minna yfirlæti og marglæti heldur en raun varð á.

Nú eru, eins og menn vita, almennar raddir komnar fram um það, að sjálfsagt sje að fækka dómendum í hæstarjetti, og er jeg því samdóma. En mjer dylst ekki, að erfitt muni reynast að koma þeim sparnaði á á þessu þingi. Við höfum auðvitað flestir lofað að stuðla að slíku heima í hjeraði, en efndirnar vilja verða misjafnar hjá sumum hv. þm., þegar á þingið kemur. Og þó samþykt sje afnám einhvers embættis hjer í hv. deild, þá siglir það aftur inn við fullan byr í hv. Ed. Mun það líka sannast, að sparnaður þessa þings verður ekki eins mikill og menn hafa gert sjer vonir um. Gefst hv. þm. nú færi á að sýna sparnaðarviðleitni sína í þessu máli, því enginn getur borið brigður á það, að sparnaðurinn við það sje tvímælalaus. Hika jeg ekki við að greiða atkvæði með því óbreyttu eins og það kom frá hv. Ed.

Það, sem knúði mig til að taka til máls, var sjerstaklega það, að mjer fanst ekki koma nógu skýrt fram, hvernig fyrirhuguðu miðdómstigi skuli háttað. Af nál. er eðlilegast að skilja það svo, að bæjarfógetinn í Reykjavík skuli ekki aðeins vera dómari í sínu umdæmi, heldur jafnframt yfirdómari í öllum málum utan af landi. En þá er samband hans við bæjarfógetaembættið líka nokkuð óljóst, — og mundi það verða ódýrara? Jeg held varla. Þessi tilhögun finst mjer ekki vera ráðleg. Starf bæjarfógetans hjer er þegar svo umfangsmikið og erfitt, að ekki er tiltækilegt að bæta þar ofan á, nema því aðeins að bætt verði mikið við skrifstofufje hans. Hinsvegar teldi jeg ekkert því til fyrirstöðu, að miðdómstigið yrði stofnað með einum manni, sem ekki hefði annað að gera.

Nú hefir hæstv. forsrh. upplýst það, að meiningin sje að taka kennara við lagadeildina til aðstoðar við þessi dómstörf, og yrðu þá, að því er mjer skildist, 2 menn, sem sæti ættu í þessum miðdómi. En tæplega get jeg ímyndað mjer, að þetta reynist heppileg lausn á málinu. Jeg veit ekki, hvort það hefir verið athugað, hvern kostnað þetta muni hafa í för með sjer, en jeg er með sjálfum mjer sannfærður um, að hann muni nema talsvert miklu. Einnig frá öðru sjónarmiði er þetta varhugavert. Í lögum um hæstarjett frá 1919, 5. gr., er svo ákveðið, að kennarar við lagadeild háskólans skuli í forföllum hæstarjettardómenda vera sjálfkjörnir dómarar í hæstarjetti, og samkv. því er nú einn prófessor settur þar. Þegar svo tveir af kennurunum eru teknir í miðdóminn, þá er aðeins einn eftir til að gegna starfi hæstarjettardómara. Yrði þá að leita út fyrir lagadeildina, ef svo stæði á, að fleiri þyrfti með. Sje jeg raunar ekki neitt verulegt á móti því En það mun hafa vakað fyrir þeim, sem að hæstarjettarlögunum stóðu, að tryggja hæstarjetti góða dómendur á þennan hátt, því maður verður að gera ráð fyrir, að prófessorar við lagadeild háskólans sjeu yfirleitt góðir lagamenn. Þetta yrði því til að veikja krafta hæstarjettar, ef þar losnuðu sæti. Minnist jeg þess líka í þessu sambandi, að í hinni langvinnu baráttu fyrir því að fá lagadeild inn í landið var því oft haldið fram, að yfirdómendurnir gætu annað kenslunni. En því var aftur mjög harðlega neitað. Það er líka svo, að ekki þarf að fara saman að vera góður lagakennari og góður dómari. En eftir lögunum eru þeir þó sjerstaklega „kvalificeraðir“ til að taka við dómaraembættum í hæstarjetti.

Þegar á alt er litið, held jeg, að óhætt sje að segja, að ekki hafi verið nægilega athugað, hvernig miðstiginu skuli háttað. Og vel get jeg skilið það, þótt hæstv. landsstjórn treysti sjer ekki til að lofa neinu um undirbúning þess fyrir mesta þing.

Það er óspart hamrað á því af andstæðingum þessa frv., að betur sjái augu en auga. En hvers vegna koma þeir hinir sömu ekki fram með till. um að fjölga dómendum í hæstarjetti um 2, 4 eða 6! En jeg er alveg sannfærður um það, að þrem samvöldum dómendum er eins vel treystandi að kveða upp rjetta dóma eins og fimm dómendum með máske upp og ofan dómarahæfileikum. Þeir myndu vanda dóma sína engu síður en þótt þeir væru fleiri.

Þá skal jeg fúslega viðurkenna, að jeg hefi talsverða tilhneigingu til að samþykkja brtt. frá hv. 2. þm. N. M. (ÁJ), á þskj. 430. En jeg vil þó ekki stofna málinu í voða með því að fara að fylgja henni fast fram. Jeg efa heldur ekki, að hver einasti dómari, sem gefur ágreiningsatkvæði, hefir einurð til að láta innfæra það í dómarabókina. Og þeir, sem í máli eiga, hafa rjett til að sjá, hvernig atkvæði dómenda hefir fallið í máli þeirra Jeg held því tæplega, að ástæða sje til að lögbjóða þetta.

Ekki sje jeg heldur ástæðu til að hlynna að metnaði meðal dómendanna með því að ákveða, að þeir skuli kjósa sjer dómstjóra úr sínum hópi. Jeg tel rjettast, allra hluta vegna, að dómstjórinn sje skipaður af konungi, eins og tíðkast hefir. Jeg vil þó ekki fara að tefla málinu í tvísýnu með því að gera þetta að ágreiningsatriði. Fyrir mjer skiftir það mestu máli, að frv. nái fram að ganga; það er áreiðanlega vel þess vert, að það komist í gegn, og verður það þá máske einasta sparnaðarfrv., sem nær að verða að lögum á þessu þingi.