25.04.1924
Neðri deild: 54. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2037 í B-deild Alþingistíðinda. (1465)

29. mál, hæstiréttur

Hákon Kristófersson:

Jeg vil taka undir það með hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ), að það er ekki á leikmannafæri að fjalla um þessi efni. Þarf til þess þá sjerfræðisþekkingu, sem jeg viðurkenni fúslega að mig brestur. Þó er það svo, að um sum atriði málsins getum við eins dæmt og lagt orð í belg um eins og þeir, sem sitja inni með lagaþekkinguna.

Hæstv. forsrh. hefir upplýst það, að frv. þetta sje fram komið af sparnaðarástæðum. Er vitanlega ekki nema gott eitt um slíka viðleitni að segja, þegar hún hefir í sjer fólgin þau hyggindi, sem í hag koma, en til er líka sá sparnaður, sem deila má um, hversu heppilegur sje, og svo er um þetta frv. Jeg tel ekki viturlegt að hrófla við hæstarjetti með sparnaðinn einan fyrir augum, ef ætla má, að afleiðingin verði sú, að tryggingin fyrir rjettlátum dómum minki við það. Málið hefði óneitanlega horft öðruvísi við, ef hæstv. forsrh. hefði slegið því föstu, að miðdómstigi yrði komið á. En jeg held, að þegar jafnorðvar maður og hann er lætur sjer þau orð um munn fara, að hæstv. stjórn muni ekki að svo komnu sjá sjer fært að undirbúa það mál, þá þurfi maður varla að gera sjer vonir um, að það komist til framkvæmda í náinni framtíð. Jeg held, að öryggisins vegna sje því nauðsynlegt að hafa dómendurna í hæstarjetti 5. Og þeirrar skoðunar var hæstv. núverandi forsrh. (JM) á þinginu 1919, því þá var það aðeins af sparnaðartilhneigingu, að hann lagði ekki til, að þeir yrðu fleiri. Því hann slær því þá föstu og leggur áherslu á, að æskilegt hefði verið að hafa dómarana fleiri en 5, t. d. 7. Það verður því að slá því föstu, að samkvæmt orðum hæstv. forsrh. hafi alls ekki verið fært að hafa í dómnum minna en 5 menn. Finst mjer því skjóta nokkuð skökku við, en hann vill nú fækka þeim niður í þrjá, og er mjer þetta því óskiljanlegra, sem mjer þó skilst, að hann viðurkenni ennþá, að öryggið sje meira með 5 dómurum en 3. Annað mál væri þetta auðvitað, eins og jeg hefi þegar tekið fram, ef miðstigið væri komið á, sem jeg fyrir mitt leyti tel alveg nauðsynlegt, að verði gert. Hygg jeg, að hæstv. forsrh. sje manna kunnugast um það, að þeir menn hafa verið skipaðir sýslumenn, sem ekki lætur svo vel meðferð mála, að af því veitti, að til væri einhver ódýrari rjettur en hæstirjettur er, til að skjóta málum frá þeim undir. (TrÞ: Hvaða sýslumenn eru það!). Um það er jeg ekki að gefa hjer frekari upplýsingar, eða heldur hv. þm. Str. (TrÞ), að hann geti lokkað fram hjá mjer upplýsingar um það, sem honum sjálfum er eins kunnugt um og mjer!

Þá verð jeg að segja það, að nál. um frv. þetta frá hv. allshn. er eitt það loðnasta nál., sem fyrir mig hefir borið. Og erfitt verk hlýtur það að hafa verið fyrir hv. þm. V.-Sk. (JK) að hafa framsögu í málinu fyrir hönd nefndarinnar, því mjer er kunnugt um, að hann hefir verið því mótfallinn, að frv. þetta næði fram að ganga, og hefir talið fjarstæðu að samþykkja það. Hv. nefnd leggur til, að frv. þetta nái fram að ganga, en jafnframt álítur hún þó, að rjettaröryggið muni minka að miklum mun með fækkun dómendanna, og telur því nauðsynlegt, að sett verði miðdómstig á fót, til að bæta úr því. En hvað liggur þá á að samþykkja frumvarp þetta, meðan ekkert er enn gert til þess að koma þeim dómi á fót! Auk þessa fæ jeg ekki sjeð, að sparnaðurinn af þessu verði sýnilegur á næstunni. Það lætur auðvitað vel í eyrum kjósenda, að tala hátt um sparnað og hrópa þá út, sem ekki hafa sjeð sjer fært að fylgjast með í honum. En eins og jeg sagði áðan, getur sparnaðurinn oftlega orkað tvímælis, og verða menn þá að gera upp með sjálfum sjer, hvort meira virði sje, það sem vinst við hann eða tapast. Nú hefir hv. allshn. orðið sammála um það að skora á stjórnina að undirbúa undir næsta þing frv. um miðdómstigið. En svar hæstv. forsrh. gefur ekki góðar vonir um það, og ef hv. nefnd er sjálfri sjer samkvæm, þá hlýtur hún að snúast á móti frv.

Jeg vil leyfa mjer að benda á dálítið atriði í 6. gr. og um leið minnast á brtt. þá, sem fram hefir komið við þá gr.brtt. er þannig, að það er beinlínis heimtað, að ágreiningsatkvæði sjeu birt í dómasafninu. Jeg viðurkenni, að sem leikmaður er jeg ekki fyllilega fær um að dæma um þetta, en mjer virðist, að slíkt muni vart styrkja það traust, sem maður verður að sjálfsögðu að bera til þessa æðsta rjettar. Og jeg gæti trúað því, að það kynni að vekja óhug úti um land, ef það frjettist, að dómararnir, þegar þeir eru ekki orðnir nema þrír, sjeu ekki á eitt sáttir, og ekki væri það ómögulegt, að frekar gætti áhrifa utan að, ef dómendurnir ættu að birta atkvæði sitt í hverju máli. Jeg held, að helgi þessa rjettar, sem fer með æðsta úrskurðarvald í málum vorum, ætti að vera svo mikil, að fullkomin leynd hvíldi yfir atkvæðum dómenda. En sem sagt, máske sprettur þessi skoðun mín af ókunnugleik.

Þá er enn eitt atriði, sem jeg vildi minnast á; það er, að dómarar í hæstarjetti skuli sjálfir kjósa forseta sinn, í stað þess, að hann er nú skipaður af konungi eða forsrh. Jeg gæti eins vel búist við, að þetta ákvæði gæti valdið óeining og sje komið inn í frv. illu heilli. Þó geri jeg hinsvegar ráð fyrir, að þessi skilningur geti líka verið sprottinn af þekkingarleysi, því hæstv. forsrh., sem borið hefir fram frv., hefir sjálfsagt þrauthugsað þetta atriði sem önnur og talið þessa aðferð rjettari. En spá mín er sú, að þetta verði til ills í reyndinni. Enda er það fullkomlega ljóst, að ennþá hafa engin frambærileg rök komið fyrir því, að fækkun dómendanna væri ekki varhugaverð.

Dálítið einkennilegt er það, þegar maður les nál. og till. hv. nefndar um að fækka dómurum í hæstarjetti, og ber það svo saman við orð hv. frsm. (JK) um að „líf, eignir og öryggi landsmanna“ sje komið undir þessum rjetti. Þetta eru alveg sönn ummæli, og því er það kynlegt, að nefndin skuli leggja til, að dómendum sje fækkað, án þess að á undan sjeu samþykt aðalöryggisákvæði hennar um miðdómstigið. Jeg get ekki samræmt þennan hugsanagang. Því þó, eins og hv. frsm. tók fram, að nefndin skori á hæstv. stjórn að vinna að því, að miðdómstigið komist á, þá hefir nú hæstv. forsrh. lýst því yfir, að hann þori ekki að lofa því, að slíkt verði gert. Jeg sje því ekki, eins og málinu er nú komið, að frv. þetta sje nokkuð frambærilegra en frv. það, sem hv. þm. Borgf. (PO) bar fram fyrir nokkru og ekki þótti tiltækilegt að samþykkja.

Hv. þm. Borgf. sagði, að ekki þyrfti að fara í neinar grafgötur til þess að finna það, að spara þyrfti, en svo skýr og glöggur maður sem hann er, benti hann þó ekki á, hve mikill sparnaður yrði, ef frv. þetta yrði samþykt. En það er þó nauðsynlegt að gera slíkt, að minsta kosti fyrir jafnókunnuga menn og mig. (PO: 20–30 þús. kr.). Jæja, það kann að vera, að svo sje reiknað, en þá er víst talinn með hagnaðurinn af því, að ritaraembættið falli niður. En verður það ekki meira í orði en á borði, þegar dómararnir eru aðeins orðnir þrír!

Sami hv. þm. (PO) sagði það, að hann greiddi þessu frv. atkv. sitt í því trausti, að miðdómstóll yrði ekki settur á stofn fyr eða síðar. (TrÞ: Fleiri!). Fleiri, segir hv. þm. Str. (TrÞ). Þó varla þeir, sem hræddir eru við útlend áhrif; þeir vilja varla draga úr því öryggi, sem landsmenn ætla, að þeir hafi í þessum rjetti.

Það hefir verið talað um brtt. þær, sem fram hafa komið, og jeg sje ekki ástæðu til að gera það frekar. En jeg vil taka það fram að endingu, að eins og málið liggur nú fyrir, sje jeg ekki, að það leiði til neins sparnaðar og býst við, að það verði heldur til ills. Og mjer finst mikil líkindi til, að útlendingar, sem mikil viðskifti eiga við okkur, fái óhug við að frjetta, að æðsti dómstóllinn sje þannig skertur, sá dómstóllinn, sem báðir verða að sækja undir í deilumálunum.

Jeg lofa því þeim hv. sparnaðarmönnum, sem standa að þessu frv., að hafa allan heiðurinn af samþykt þess, en greiði sjálfur atkvæði á móti því. Og jeg er ekki svo öfundsjúkur, að jeg öfundi þá af heiðrinum eða lofinu, sem þeir fá hjá þjóðinni fyrir þetta frv.