26.03.1924
Neðri deild: 33. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 417 í B-deild Alþingistíðinda. (147)

1. mál, fjárlög 1925

Sveinn Ólafsson:

Það voru nokkur orð í svörum hv. frsm. (ÞórJ), sem komu mjer til að standa upp. Jeg skal fara fljótt yfir sögu og takmarka mig við þau.

Hjer hafa fallið í kvöld mörg þung orð og alvarleg í þá átt, að fyrst og fremst beri að verja opinberu fje til þess, er lýtur að framleiðslu og öflun daglegs brauðs, og helst ekki til annars. Það er og eðlilegt á þessum þrengingartímum. Vjer erum of jarðbundnir til þess að lifa af listinni eða lærdómi, og verðum því að hugsa fyrst og fremst um þetta. En einmitt af því að hv. frsm. lagði svo mikla áherslu á þetta, furðaði jeg mig á því, að hann skyldi koma með þau boð frá hv. fjvn., að hún legðist á móti síðustu 2 brtt. á þskj. 196, sem sje tillögu hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), um lánveitingu til tóvinnuvjela, það er að segja kembingar- og lopunarvjela, og tillögu okkar hv. 1. þm. N.-M. (HStef), um heimild til ábyrgðar á láni fyrir verksmiðjufjelag, sem líkur dálitlar eru til að kunni að rísa upp á Austurlandi, ef ráðist verður þar í stofnun dúkaverksmiðju, sem mikill áhugi er fyrir. Báðar tillögurnar eru svipaðar að því leyti, að hvorug stefnir til fjáreyðslu. Önnur fer fram á lán, en í hinni er leitað heimildar til ábyrgðar á láni. Hjer er því ekki að ræða um eyðslu, heldur hitt, að styðja sjálfsbjargarviðleitni þeirra manna, er kynnu að vilja ráðast í eitthvað af þessu tægi, og gefa þeim hvöt, sem vilja leggja fram fje í þessu skyni. Mig furðar það, ef hv. fjvn. er einhuga að leggja á móti þessu. Jeg verð að segja, að jeg skil hana þá ekki og þau mörgu og alvöruþrungnu orð hv. frsm. í þá átt, að verja beri fje til eflingar atvinnuveganna og til að bæta úr brýnustu þörf landsmanna. Hjer er sannarlega stefnt til þess að bæta úr brýnni þörf, klæðaþörf þeirri, sem fullnægt er nú með miljónaskatti til útlanda, og ef þetta gæti leitt til þess, að einstakir menn legðu fram fje það, sem þarf til þessara nauðsynlegu fyrirtækja, og án útgjalda fyrir ríkissjóð, þá væri sannarlega vel að verið.

Jeg skal leyfa mjer að taka fram, að þessi hugmynd um dúkaverksmiðju á Austurlandi hefir verið lengi á döfinni og var komin nokkuð á veg fyrir ófriðinn mikla. Þá var hafinn viðbúnaður, og voru þá góðar líkur um hluttöku af hálfu Norðmanna. Jeg hygg, að þessar líkur sjeu enn fyrir hendi, og hreint ekki slæmar.

Jeg veit að vísu, að nú upp á síðkastið hefir mikið verið bollalagt um stóra allsherjardúkaverksmiðju í Reykjavík, sem stofna skyldi með aðstoð enskra auðmanna og bætt mundi geta úr allri þörf landsmanna. Jeg mintist á þetta í gær, og jeg verð að segja, að þurfi slíkt fyrirtæki að byggjast að miklu leyti á ensku fje, þá hygg jeg það ekki happadrýgra en þótt það fje yrði sótt til þeirrar þjóðar, sem nær oss er og skyldari.

Rjett er að minna á það, að undanfarið hefir miklu fje verið varið úr ríkissjóði til samskonar fyrirtækja annarsstaðar á landinu, svo sem til Gefjunar og Álafoss, og á síðasta ári til kembivjela á Húsavík. Mig furðar því mjög, ef þessi gamla viðleitni þingsins til að lyfta undir þennan iðnað í landinu væri nú alveg gufuð upp.

Jeg þarf annars ekki að fjölyrða frekar um þessa tillögu, einkum þar sem hv. 1. þm. N.-M. (HStef) hefir talað mjög vel og röggsamlega fyrir henni, og get jeg látið að mestu leyti sitja við orð hans. Þó vil jeg taka það fram, út af þeirri hugmynd, sem nú er að veltast fyrir mönnum um allsherjarverksmiðju og virðist ætla að verða þess valdandi, að önnur fyrirtæki af þessu tægi dragist úr hömlu, að hún mun fyrst um sinn ekki vinna sjer mikið fylgi í öðrum hjeruðum landsins, að minsta kosti ekki í þeim, sem fjærst eru Reykjavík. Menn í fjarlægum hjeruðum hafa hvað eftir annað brent sig á því, að fyrirtæki, sem komið hefir verið upp í Reykjavík með hluttöku annara landsmanna, hafa ekki orðið eigendum að fjeþúfu, heldur Reykjavík einni. Margir menn í fjarlægum hjeruðum eiga hluti í Eimskipafjelagi Íslands, sem er búsett hjer og skattlagt svo grimmilega til bæjarþarfa, að ókjörum sætir, og mun það eiga ekki minstan þátt í erfiðleikum fjelagsins. Allir sjá, hvernig bærinn reynir að nota sjer Landsverslunina, að hann leggur á hana skatt síðastliðið haust, sem nemur 15% af nettóarði hennar. Þannig er farið með allsherjarfyrirtæki hjer í bæ, og verði allsherjarverksmiðja til dúkagerðar sett á stofn hjer, má gera ráð fyrir, að hún verði notuð eins og mjólkurkýr bæjarins og að það borgi sig betur að sækja þá ullarvinslu til annara landa. Þess vegna verða slík fyrirtæki annaðhvort að rísa upp í hjeruðum landsins, fyrir norðan, austan og vestan, eða að öðrum kosti verður að sækja þessa vinslu eins og áður út fyrir pollinn, þótt lítilmannlegt sje.

Jeg drap á það í gær, að eftir lauslegri áætlun, en þó sennilegri, væru úr Múlasýslum einum greiddar milli 200 þús. og 300 þús. kr. árlega til norskra verksmiðja fyrir dúkagerð. Þetta samsvarar því, að koma mætti á fót fyrir þetta fje nothæfri ullarverksmiðju á 2–3 árum. Það er engin furða, þó að oss Austfirðinga langi til að komast hjá að greiða þessi óeðlilegu og þungu gjöld til annara landa. Jeg skal annars ekki þreyta hv. þingmenn á langri ræðu um þetta, en vildi láta þessa getið, áður en brtt. okkar hv. 1. þm. N.-M. (HStef) verða lagðar á höggstokkinn, ef það á fyrir þeim að liggja, eins og helst má ráða af orðum hv. frsm. En þó að svo fari, þá verð jeg að telja það hastarlegt, ef brtt. hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) verður líka feld, því að verði nú ekki komist það langt að efna til dúkaverksmiðju, þá er þó einsætt, að heimilisiðnaðinum verður að veita bráðabirgðastuðning á næstu árum með kembingarvjelum á fleiri stöðum en orðið er. Á allsherjarfyrirtæki hefi jeg enga trú og hygg, að nokkur ár muni líða áður en bákn það tekur til starfa, sem fyrirhugað er hjer í Reykjavík og sem fyrirsjáanlega dreifir hugum manna í þessu máli, tefur það og spillir því.