26.03.1924
Neðri deild: 33. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 420 í B-deild Alþingistíðinda. (148)

1. mál, fjárlög 1925

Jón Baldvinsson:

Það er í tilefni af orðum hv. frsm. (ÞórJ) um styrkinn til orðasöfnunar, sem jeg vildi segja nokkur orð. Hann kvað þetta starf geta haldið áfram, þó að styrkurinn væri feldur niður, því að sjálfboðaliðarnir mundu ekki hætta við vinnu sína. En þetta er misskilningur. Ef sá maður, sem stýrir þessu verki, er tekinn frá því og neyddur til að leita sjer annarar atvinnu, er við því búið, að hitt starfið falli niður. Hjer gegnir einmitt sama máli, sem háttv. frsm. tók fram í öðru sambandi. Hann gat þess um styrkinn til Búnaðarfjelagsins, að nytjastarfsemi þess yrði slitin í sundur, ef styrkur þess væri lækkaður. Alveg eins er um þetta, að það starf má ekki slíta í sundur.

Háttv. frsm. andmælti lítillega tillögu minni um 500 kr. styrk til kvöldskóla verklýðsfjelaganna, en jeg vona þó, að þessi litla brtt. finni náð fyrir augum hv deildar, einkum þar sem hv. frsm. lagði hvergi nærri eins fast á móti henni sem mörgum öðrum brtt.

Þá vil jeg víkja nokkrum orðum að hæstv. fjrh. (JÞ). Hann er því miður ekki viðstaddur í deildinni, en þó finst mjer, að ummæli hans hjer í kvöld megi ekki standa ómótmælt stundinni lengur, ef halda á uppi þingræði í þessu landi og því sjálfræði, sem bæjar- og sveitarfjelög hafa að lögum. Hann talaði, að gefnu tilefni af hálfu hv. frsm., um kaup Reykjavíkurbæjar á jörð einni hjer í nágrenninu, og skein það út úr ummælum hans, að ef hann hefði verið í þeirri stöðu, að hann hefði átt að leggja samþykki sitt á þessi kaup, þá hefði hann synjað staðfestingar á þeim. Þegar slík ummæli koma úr stjórnarsessi, verður að mótmæla þeim þegar í stað sem gerræðisfullri tilraun til að taka af bæjarstjórnum það vald, sem löggjöfin heimilar þeim. Hæstv. fjrh. kann að vera andvígur þessum jarðakaupum, sem hann mintist á, en það rjettlætir ekki orð hans. Jeg vildi mega spyrja hæstv. fjrh., hvað verkfræðingur Jón Þorláksson mundi hafa sagt á árunum 1918–1919, þegar Reykjavíkurbær var að ráðast í að koma á fót rafmagnsstöð, ef stjórnarráðið hefði þá neitað bænum um samþykki sitt til þeirrar ráðstöfunar? Mjer finst þessi ummæli hæstv. fjrh. ganga alt of langt, svo að ekki megi þau ómótmælt standa, Það er eins og hæstv. fjrh. vilji taka sjer alræðisvald hjer á landi, verða einskonar íslenskur Mussolini.

Þar sem hæstv. fjrh. rjeðst nokkuð hastarlega á Búnaðarfjelagið, þá ber mjer ekki að svara fyrir það, og stendur það miklu nær öðrum. En þó get jeg ekki að mjer gert og minnast á þessi ummæli hans, því að jeg hefi stundum leyft mjer að koma með hógværar og rökstuddar aðfinslur við ýmsa starfsmenn ríkisins. Er skemst á að minnast, að fyrir 2 dögum voru fluttar rökstuddar aðfinslur við nokkrar ráðstafanir vegamálastjóra, og ruku þá ýmsir háttv. þm. og hæstv. fjrh. upp til handa og fóta og töldu óviðurkvæmilegt að ráðast á menn, sem ættu ekki sæti á þingi og gætu ekki borið hönd fyrir höfuð sjer. Jeg vil biðja menn að bera þessar aðfinslur saman við það, sem nú heyrist úr stjórnarsessi um embættismann einnar stofnunar, sem ríkið styrkir. Þegar minst var á vegamálastjóra, þá þaut hæstv. fjrh. upp og talaði um dylgjur um fjarstadda menn. En nú segir hæstv. fjrh., að forseti Búnaðarfjelagsins hafi narrað fáráðlinga til að fara út í allskonar vitleysu í búnaðarframkvæmdum. Þykir mjer hastarlegt, ef bændur í hv. deild láta þessu ómótmælt. Það verður og óvandari eftirleikurinn að finna að gerðum ýmsra manna, þótt ekki eigi sæti á þingi, þegar þetta heyrist úr stjórnarsessi.