26.04.1924
Neðri deild: 56. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2059 í B-deild Alþingistíðinda. (1484)

29. mál, hæstiréttur

Jakob Möller:

Jeg hefði gert ráð fyrir, að hv. 1. þm. G.-K. (ÁF) væri kunnugt um það, hve sterk áhrif stjórnarflokksins eru jafnan á stjórnina og löggjöfina — eða geta verið að minsta kosti. Það eru þau vegna þess, að sá flokkur getur ávalt, er hann vill, sagt stjórninni að fara frá. Hver einasti flokksmaður, sem er þeirrar skoðunar, að stjórnin fari óforsvaranlega að í einhverju stórmáli, er því skyldur til að vara hana fyrst við, og dugi það ekki, þá að segja hingað og ekki lengra. Það er því í raun og veru ávalt á valdi stuðningsmanna stjórnarinnar, hver stefna er upp tekin í slíkum málum. — Það var fjarri mjer að vilja halda því fram, að stuðningsmenn stjórnar eigi að styðja hana í öllu. Og síst geri jeg þá kröfu eins og nú stendur á. En hinu held jeg fram, að ef þessi yfirlýsing sumra hv. stjórnarsinna er meira en orðin tóm, þá eiga þeir að láta það koma fram á þann hátt, sem hrífur.