26.03.1924
Neðri deild: 33. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 422 í B-deild Alþingistíðinda. (149)

1. mál, fjárlög 1925

Sigurjón Jónsson:

Jeg vildi segja nokkur orð út af ræðu háttv. frsm. (ÞórJ). Honum þótti heldur fátt mæla með brtt. minni, XXXI. till. á þskj. 196, en jeg vonast eftir að geta enn sýnt fram á, hver nauðsyn sje, að hún nái fram að ganga. Hv. frsm. talaði um það, að bænum hefði ekki verið nein þörf á því að ráðast í þetta fyrirtæki. Jeg skal fátt um það tala. Jeg var ekki með í þeim ráðum. En hafi lítil nauðsyn verið þá fyrir kaupstaðinn, er hann gerði þessi umræddu kaup, þá verður samt ekki um það deilt, að honum er nú alveg nauðsynlegt að gera bryggjuna. Fyrst og fremst til þess að geta rentað þessa dýru eign; og enda þótt hægt væri að renta hana á annan hátt, þá eru samningar um það gerðir, að bryggjan skuli verða gerð, og við þá samninga verður bærinn að standa.

Í sambandi við þau orð sem hjer fjellu, að bryggjan yrði bygð, hvort sem fjeð fengist hjer eða ekki, þá spyr hv. frsm., hvort til sjeu peningar til fyrirtækisins. Að vísu eru peningarnir til; en hafnarsjóður á þá. En í þessari umræddu eign, sem Ísafjarðarbær keypti, er bryggja, svonefnd Tangsbryggja. Þessa bryggju á að auka og bæta, og er hugmyndin sú, að hafnarsjóður kaupi þessa bryggju af bænum. En til þess að hafnarsjóður geti þetta, verður ríkisstyrkurinn að fást, sem er kostnaðar samkvæmt lögum, eins og hjer er farið fram á.

Þá hefir verið talað um það, að þessi styrkur verði ekki beinlínis útborgaður, heldur er ætlast til þess, að hann gangi upp í hallærislán, sem bærinn fjekk hjá ríkissjóði fyrir nokkrum árum. Þá var eldsneytisskortur á Vestfjörðum, og fjekk bærinn þetta fje til þess að brjóta surtarbrand, en það mun ekki hafa orðið honum að miklu liði.

Jeg vona nú, að jeg hafi gert hv. frsm. skiljanlegt, hver þörf sje á því fyrir bæinn, að bryggjan sje gerð, bæði til þess að geta rentað hina dýru eign og líka til þess að fullnægja gerðum samningi.

Með þessu hefi jeg einnig svarað hæstv. fjrh., sem áleit enga þörf á bryggjunni.

Hv. 2. þm. Rang. (KlJ) vil jeg þakka fyrir það, að hann hefir lýst sínu fylgi við þessa brtt., og vænti jeg, að fleiri fylgismenn hans geri það sama. Að endingu vil jeg taka það fram, að jeg álít það sjálfsagt, að samþyktir slíkra mála sem þessa umrædda kaupgernings Ísafjarðarkaupstaðar, sjeu á ábyrgð þess ráðherra, er samþykkir þau. Það er skylda stjórnarráðsins að taka sjálft afstöðu í slíkum málum. Þetta á ekki að vera tómt formsatriði, svo stjórnarráðið geri aðeins að játa eða neita, eftir því sem bæjarstjórnir eða hreppsnefndir ákveða.