01.05.1924
Neðri deild: 60. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2064 í B-deild Alþingistíðinda. (1491)

29. mál, hæstiréttur

Jörundur Brynjólfsson: Það hafa nokkrar brtt. komið fram við frv. þetta, og hafa þegar tveir af hv. flm. þeirra gert grein fyrir þeim. Hvað þær brtt. snertir, sem hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) og hv. þm. Ak. (BL) flytja á þskj. 456, þá eru þær að því að heita má þær sömu og komu fram í hv. Ed. Get jeg skírskotað til þess, sem jeg sagði við 2. umr. málsins, að jeg býst við, að meiri hl. nefndarinnar sje mótfallinn því að gera breytingar á frv. Það varð að samkomulagi innan nefndarinnar upphaflega að leggja til, að frv. verði samþykt óbreytt. Og þó einhverjir hv. nefndarmenn hafi máske síðan skift um skoðun í þessu efni, þá nær það ekki til mín nje sumra annara í nefndinni. Við getum ekki sjeð, að þeir gallar sjeu á frv., að rjett sje þess vegna að tefja fyrir málinu, ef það er á annað borð alvara manna, að málið gangi fram. Þær brtt., sem jeg nýlega nefndi, eru samhljóða þeim, sem gerðar voru við frv. í hv. Ed. En þar voru þær feldar með 9:5 atkv. Dylst mjer líka ekki, eftir að jeg hefi lesið umr. þær, sem orðið hafa um þetta í hv. Ed., að þessar brtt. eru sáralítils virði. Sá, sem flutti þær þar, er þó ágætur lögmaður, hv. þm. Seyðf. (JóhJóh), en ástæður þær, sem hann færði fyrir þeim, voru harla smávægilegar. Og sumar breytingarnar virðast vera meira tilfinningamál en hitt, að nauðsyn krefji þeirra. Svo skilst mjer t. d. að sje um það, að skipa skuli dómstjóra í stað þess, að rjetturinn kjósi hann, svo sem nú er gert ráð fyrir. Snertir það víst ekki mikið málameðferðina eða rjettaröryggið. Enda voru brtt, eins og jeg hefi þegar drepið á, feldar, en frv. sjálft samþykt og afgreitt til þessarar hv. deildar með 12:2 atkv. Og þeir hinir sömu, sem báru fram brtt., greiddu atkvæði með frv., þrátt fyrir það að þær væru feldar, enda ekkert sjáanlega í þeim, sem varðað getur rjettaröryggið í landinu. Eins og margtekið hefir verið fram, þá er frv. fyrst og fremst borið fram af sparnaðarástæðum, og eru þær ástæður engu óríkari nú en þegar málið kom fyrst fram. Fór jeg allnákvæmlega út í þetta við 2. umr. og vil ekki endurtaka það hjer. En það vil jeg leggja áherslu á, að jeg tel öryggi og álit rjettarins að litlu eða engu skert, þó dómendur verði 3 í stað 5, eins og nú er, og með það fyrir augum fylgi jeg þessu máli. (HK: Hvers vegna þá ekki að hafa aðeins einn dómara?). Jeg get bent hv. þm. (HK) á, að mjög margir dómar eru kveðnir upp af einum manni, og kemur ekki að sök. Allur þorri almennings verður að láta sjer lynda dóma hjeraðsdómaranna. Hann hefir ekki fjárráð til annars meira. Sje um góða og samviskusama dómara að ræða, þá skiftir sjaldnast miklu máli, hvort þeir eru fleiri eða færri. En í þeim málum, sem sjerstaklega orka tvímælis, þá er það auðvitað öruggara, að fleiri en einn kveði upp dóm í þeim. Eins og hv. þm. er kunnugt, er málið flutt í hv. Ed. af einhverjum ágætasta dómara þessa lands, og er því ekki lítið á áliti hans að byggja í þeim efnum. Og styrkir það líka skoðun mína, að annar mikilsvirtur dómari hefir látið í ljós sömu skoðun sem hann. Og jeg er öldungis viss um, að verði brtt. gerðar við frv., sem verði málinu að falli, þá veldur það mörgum mönnum vonbrigða úti um land alt. Er það heldur ekki nema eðlilegt, að þar sem málið hefir verið svo vel undirbúið af þeim mönnum, sem best var treystandi til þess, þá sje lagt svo mikið upp úr skoðun þeirra á því, að málið verði afgreitt eins og þeir telja heppilegast og eins og það hefir verið afgreitt frá hv. Ed. Og grunar mig það, að ýmsum skattþegnum þessa lands muni þykja óviðeigandi, ef málið verður felt fyrir sakir tómra smámuna. Og þegar það má teljast viðurkent, að öryggi rjettarins sje ekki skert með þessari breytingu, þá er þess að vænta, að frv. verði samþykt. Við það sparast um 25 þús. kr.

Hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) vjek að því, að óviðkunnanlegt væri, að menn vissu ekki, hvað dómstjórinn hjeti. Þetta er sama ástæðan, sem fram var færð í hv. Ed., og er aðeins tilfinningamál. Eða hvað gerir það til, þó menn viti ekki nafnið á dómstjóranum, ef menn geta treyst því, að rjetturinn sje á annað borð bær um að kveða upp góða og rjettláta dóma? Auk þessa myndi það jafnan vera auðvelt að fá sjer upplýsingar um þetta atriði.

Þá vil jeg í fám orðum víkja að brtt. frá hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ) á þskj. 464. Fer hún fram á að heimila rjettinum að kveðja með sjer í dóm tvo prófessora við lagadeild háskólans, þegar vandamál ber að höndum. Jeg get verið stuttorður um þetta, því að að minni hyggju yrði öryggi rjettarins í engu eða að minsta kosti litlu betur trygt, þótt ákvæði þetta yrði að lögum.

Þetta er hægt, þegar það er víst fyrirfram, að mál það, sem fyrir liggur, orkar tvímælis, en mjer finst það ekki nema eðlilegt, að slíkt verði fyrst ljóst, þegar málið er komið í dóminn og aðiljar hafa gert grein fyrir sínu máli. Og þá er þetta ákvæði ekki til neins, því að það er orðið um seinan að kveðja menn í dóminn og undir flestum kringumstæðum hefði það ekkert að segja.

Jeg get og getið þess, að ef mönnum þætti eitthvað ábótavant í þessu efni eða öðru, þá er hægurinn hjá að breyta því. En það er ekki nema rjett, að menn sjái fyrst, hvernig þetta gefst.

Sem sagt, mjer sýnist brtt. engan veginn þess eðlis, að nauðsyn beri til að samþykkja þær, nema fyrir þá, sem koma vilja málinu fyrir kattarnef.