01.05.1924
Neðri deild: 60. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2071 í B-deild Alþingistíðinda. (1494)

29. mál, hæstiréttur

Forsætisráðherra (JM):

Jeg held, að jeg finni ekki ástæðu til að svo stöddu að ræða um annað en brtt. þær, sem komnar eru fram við þessa umr., og nokkur ummæli, sem komið hafa fram í sambandi við þær.

Hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) talaði um, að menn vildu ekki á nokkurn hátt rýra öryggi dómsins. Menn vilja ekki minka öryggi hans á neinn hátt frekar en forsvaranlegt þykir; en því hefir aldrei verið leynt af neinum, sem borið hafa fram breytingar á hæstarjetti, heldur hafa þeir þegar tekið það fram í upphafi, að segja mætti, að öryggið væri ekki alveg það sama. Sú breyting var fyrst fram borin, að hæstarjettardómararnir skyldu kenna við háskólann, og flm sagði í upphafi, að segja mætti, að öryggið væri rýrt, en hann væri viss um, að það yrði ekki merkjanlegt í framkvæmdinni. Jeg hefi líka viðurkent þetta, að æskilegast væri að þurfa ekki að fækka dómurunum, en jeg tel forsvaranlegt að gera það.

Hitt get jeg ekki sjeð, að það sje mikið atriði á þessu máli, hvort dómstjórinn er kosinn eða skipaður. Það er ekkert verulegt sparnaðaratriði, en jeg skal út af því, sem sagt hefir verið, leyfa mjer að vísa í nál. hv. Ed. um þetta mál. Þar er sagt, með leyfi hæstv. forseta: „Þetta ákvæði virðist samkvæmast sjálfstæði dómsvaldsins. ..... Það mundi og vera fult eins gott fyrir samvinnuna í rjettinum, að sem jafnast væri á komið með öllum dómurunum um starf þeirra, laun og annað, enda er slíkt skipulag dómstóla ekkert einsdæmi.... Hitt er álitatmál, hve langt kjörtímabilið eigi að vera, eitt ár eða lengur, en vitanlega getur endurkjör átt sjer stað. Nefndinni getur ekki skilist, að forseti hafi meira starf við dóminn en hinir dómararnir.“

Jeg þarf engu við þetta að bæta, enda er það lítið atriði í sjálfu sjer.

Hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ) hefir flutt brtt. á þskj. 464, þannig, að rjett geti verið að bæta í dóminn, þegar sjerstaklega stendur á. Í sjálfu sjer mætti orða þetta; jeg viðurkenni það, en jeg tel þetta nokkuð óákveðið, og ef svo sýndist, að ákveða það nánar, get jeg ekki annað en mælt á móti brtt.

Hvað snertir brtt. á þskj. 501, verð jeg að segja, að það má vera, að betur hefði mátt athuga þetta atriði, en það er þannig vaxið, að fyrir framkvæmd laganna gerir það ekkert til, og því er óþarft að samþykkja brtt. af þeim ástæðum.

Jeg þakka hv. 2. þm. Árn. (JörB) góð orð um mig og aðra, sem málinu fylgja, en jeg vil ekki, að sjerstakt tillit sje tekið til lagaþekkingar í þessu máli. Þetta er atriði, sem hver maður getur gert upp með sjálfum sjer og dæmt um, en ekki neitt sjerstakt fyrir lögfræðinga. Enda væri það óheppilegt fyrir frv., ef svo væri, því jeg býst við, að ef atkv. væri leitað meðal lögfræðinga um þetta mál, yrðu fleiri á móti. En þetta atriði, hvort menn láta sjer nægja 3 eða 5 dómara, getur hver borið um.

Það hefir verið talað um, að sumir, sem eru í þeim flokki, sem jeg telst til, væru á móti þessu frv. Það er eðlilegt; það hefir ekki verið gert að flokksmáli og má ekki gera það, því ef einhver teldi öryggi rjettarins skert of mjög með þessu, mætti ekki neyða hann til að fylgja því fram. En eins og jeg hefi margsagt, tel jeg þessa rýrnun á örygginu að mínum dómi ekki meiri en forsvaranlegt er.

Hv. frsm. (JK) mintist enn á miðdómstigið. Jeg skil það vel, því það er sannfæring margra, sem andvígir eru frv., að ef miðdómstigi væri komið á, væri forsvaranlegt að fækka í hæstarjetti.