01.05.1924
Neðri deild: 60. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2086 í B-deild Alþingistíðinda. (1502)

29. mál, hæstiréttur

Jakob Möller:

Hv. þm. Str. (TrÞ) er mjög að reyna að lappa upp á samviskuna. Hann hefir því lagt land undir fót og farið upp í Ed. og sótt ræður þangað sjer til aflestrar og hugarhægðar. En samviska háttv. þm. Str. er þó ekki þess megnug að lesa alt, sem á ræðunum stendur. Nú skal jeg halda áfram þar, sem hv. þm. Str. gafst upp við lesturinn. Hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) segir svo í þessari ræðu:

„Jeg er á því, að þessi fækkun dómenda í hæstarjéttinum sje tiltækileg nú, einkum af þeirri ástæðu, að jeg fæ ekki sjeð, að komist verði hjá því í náinni framtíð að breyta dómaskipun landsins.“

Með öðrum orðum, hann sjer ekki, að hjá því verði komist að stofna hjer millidómstig þegar á hæla þessa sparnaðarfrv. — og hvar væri þá sparnaðurinn? En nú hefir í öðru lagi því verið lýst yfir, að stjórnin ætli sjer ekki að gera neitt til þess, að komið verði á þessum miðdómi, enda útlit fyrir, að brtt. um það verði feld. Jeg get því ekki ætlað annað en að háttv. þm. Str. byggi á mjög vafasömum forsendum, og verði þessi ræða hv. þm. Seyðf. að litlu liði fyrir þm. Str. vegna þess að ræðumaður sá, sem þm. Str. vitnaði í, telur ekki gerlegt að breyta hæstarjetti nema stofnaður verði miðdómur um leið.

Hv. þm. Str. spyr mig, hví jeg hafi ekki komið fram með brtt. um 5 dómara í rjettinum. Það er nú þegar búið að greiða atkvæði um 1. gr. frv., sem ákveður, að dómarar skuli vera 3, og efast jeg því um, að hæstv. forseti taki slíka brtt. gilda eða teldi fært að bera hana upp til atkvæða.

Hv. þm. Str. sagði, að hann væri altaf samkvæmur sjálfum sjer. Já, jeg geri ráð fyrir, að afstaða hans í þessu máli stafi einmitt af því. En það er ekki altaf svo mikils virði að vera samkvæmur sjálfum sjer. T. d. væri áreiðanlega heppilegra, ef hv. þm. (TrÞ) hefir einhverntíma stungið upp á einhverju, sem hann taldi þjóðráð, að hann drægi sig í hlje, ef hann síðar kæmist að þeirri niðurstöðu, að hjer var ekki um þjóðráð, heldur landráð að ræða. En það virðist hv. þm. eiga mjög erfitt með, af því hann vill undir öllum kringumstæðum vera samkvæmur sjálfum sjer. — En það er fjarri því, að þetta sje altaf heiðarlegt, enda sýnir samviskubit hv. þm., að hann lítur undir niðri svo á málið.

Hæstv. forsrh. (JM) kvartaði mjög undan því áðan, hve andstæðingarnir stæðu hjer vel að vígi. Já, jeg verð að taka undir með hæstv. ráðherra með það, að hans afstaða í málinu er ekki sjerlega öfundsverð. Það er vont að þurfa að lýsa því yfir, að það sje farin öfuga leiðin í frv., sem maður ber fram sjálfur. En á því furðar mig mest, að nokkur heilvita maður skuli treysta sjer til að bera slíkt frv. fram. Einkum er býsnanlegt, að það skuli vera sjálfur dómsmálaráðherrann, sem ber það fram.

Jeg get sagt með hv. þm. Dala. (BJ), að jeg mun greiða atkvæði með þeim brtt., sem fram hafa komið við frv., nema þeirri á þskj. 443, sem fer því fram, að þessi breyting á rjettinum gangi þegar í gildi. Jeg get vel skilið, eftir yfirlýsingu hv. 1. þm. Árn. (MT), hví hann ber hana fram, en hitt á jeg verra með að skilja, að hæstv. forsrh. skuli ekki geta verið með henni, því hún er sannarlega fram borin í sparnaðarskyni, og nái hún ekki fram að ganga, þá er engin trygging fyrir því, að nokkur sparnaður verði að frv. Það er nefnilega vonandi, að þessi óhæfa komi ekki til framkvæmda fyrr en þing og þjóð er búin að sjá að sjer. En afstaða hæstv. forsætisráðherra er þá sú, að hann ber frv. þetta fram „eingöngu í sparnaðarskyni‘‘, en hann vill hreint ómögulega, að þessi sparnaður komist til framkvæmdar strax. Frv. er borið fram vegna yfirstandandi fjárhagsörðugleika, en það má ekki ganga í gildi fyr en þeir örðugleikar ef til vill eru um garð gengnir. Mjer hefir því dottið í hug, að þetta sje eins og annað aðallega gert til að sýna sparnaðarviðleitni á yfirborðinu. Og það þykir mjer kynlegt, ef hv. þm. fara nú ekki að missa trúna á sparnaðarhug hæstv. forsrh. Ætli mörgum hætti ekki við að bera þetta mál saman við stjórnarskrárfrv., sem hann flutti í hv. Ed. í byrjun þings! Það verður náttúrlega hver og einn hv. þm. að gera upp með sjer, hvað hann heldur í þessu efni, — en jeg hefi mína ákveðnu skoðun um það.