13.03.1924
Neðri deild: 22. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2090 í B-deild Alþingistíðinda. (1509)

67. mál, búnaðarlánadeild við Landsbanka Íslands

Flm (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg skal ekki þreyta háttv. deildarmenn á því að fara að endurtaka greinargerð frv. Ekki skal jeg heldur víkja að tilraunum þeim, sem áður hafa gerðar verið á fyrri þingum til þess að koma upp hagfeldri lánsstofnun fyrir landbúnaðinn, þótt það sje í sjálfu sjer allfróðlegt; en sumt af því er og tekið fram í greinargerð frv. Heldur ætla jeg að víkja nokkrum orðum að ástandi því, sem hjer er og hefir ávalt verið, — að varla hefir verið fáanlegt fje hjá lánsstofnunum í landinu til neinna framkvæmda, sem lúta að landbúnaði, og allra síst hefir það verið með þolanlegum kjörum fyrir bændur, hafi þeir getað fengið fjeð. En lánskjörin þurfa að vera alveg sjerstök til þessara hluta og frábrugðin því, sem á sjer stað í öðrum atvinnurekstri. Hygg jeg því, að allir hugsandi menn verði mjer sammála um, að þetta ástand sje bæði lítt þolandi og enda stórhættulegt fyrir velgengni þjóðarinnar.

Mjer finst rjett að geta þess nú í þessu sambandi, að jeg hefi flutt hjer inn á þing 3 frumvörp til embættafækkunar, og er það gert í sparnaðarskyni, til þess að hafa bætandi áhrif á hag ríkisins. Jeg á við frv. um niðurlagningu sendiherraembættisins, sameining biskupsembættisins við háskólakennaraembætti og afnám grískudósentsembættisins. En þetta frv. mitt, sem hjer liggur fyrir, fer inn á aðra braut en jeg hefi áður haldið í hinum frv. Hjer er gert ráð fyrir fjárframlögum frá lánsstofnun ríkisins til eflingar atvinnu í landinu og til aukinnar ræktunar. En í þessu felst engin mótsögn, eins og jeg nú skal gera grein fyrir. Viðvíkjandi sparnaðarfrumvörpunum tek jeg það fram, að jeg held fast við þá stefnu að fækka þeim embættum og stofnunum, sem hægt er að komast af án. Enda er jeg sannfærður um, að Ísland er það land í heiminum, sem einna ofhlaðnast mun ver af embættum og opinberum stofnunum. Að vísu veit jeg, að það, sem nú hefir verið gerð tilraun til að gera, er aðeins byrjunin í þessu efni. Aðalorustan um embættafækkanirnar verður háð á næstu þingum hjer á eftir, þegar lögin um embættaskipun ríkissjóðs verða endurskoðuð. Þess vegna vil jeg nú taka það fram, að jeg mun ávalt verða fús til samvinnu um þessi mál. Þetta er önnur hlið þessa máls viðvíkjandi rjettingu á fjárhag landsins. Hin hliðin veit að atvinnuvegunum í landinu og viðreisn þeirra, til þess að sem flestar hendur geti unnið að arðberandi störfum, svo auðið verði að grynna eitthvað á þeim óbotnandi skuldum, sem landið er komið í. Þetta er sú langmerkasta hlið þessa máls. Þar sem atvinnuvegirnir eru annarsvegar, mega menn ekki halda fram sömu sparnaðarstefnunni; — þar verða menn að vera stórtækari í fjárframlögum. Það er með þetta eins og með einstaka atvinnurekendur, að á erfiðum árum verða menn að draga úr persónulegum þörfum sínum, en forðast eftir megni að draga úr atvinnurekstrinum, því það getur haft hinar alvarlegustu afleiðingar. Sama gegnir um ríkið. Það verður að efla atvinnuvegina í landinu eftir mætti, en fækka heldur þeim opinberu starfsmönnum og stofnunum, sem það getur komist af án.

Jeg álít, að landbúnaðurinn eigi rjettmætar kröfur til þessa stuðnings, sem þetta frv. fer fram á, og skal jeg nefna nokkur atriði til styrktar þessari skoðun minni. Í fyrsta lagi verður ekki um það deilt hverja þýðingu landbúnaðurinn hefir fyrir afkomu allrar þjóðarinnar; hann er einn af máttarviðunum undir hag ríkisins. Í öðru lagi verður heldur ekki um það deilt, að landbúnaðurinn hefir sjerstaka þýðingu fyrir heilbrigði og hreysti og alt líkamlegt og andlegt atgervi þjóðarinnar. Í þriðja lagi er þetta tryggasti og áhættuminsti atvinnuvegurinn í landinu. Í fjórða lagi er hann orðinn á eftir öðrum atvinnuvegum landsins í samkepninni við þá. Í fimta lagi stafar það, að hann er orðinn á eftir öðrum atvinnuvegum, af því, að hann hefir verið hafður útundan, — ekki einungis af þingi eða stjórn, heldur sjerstaklega af lánsstofnunum í landinu. Þess vegna segi jeg í sjötta lagi, að um það verði alls ekki deilt, að landbúnaðurinn þurfi alveg sjerstakan stuðning. Af þessu dreg jeg þá ályktun, að þingi og stjórn beri nú sjerstök skylda til þess að styrkja og efla þennan atvinnuveg og bæta fyrir syndir feðranna í þessu efni; ekki síst fyrir það, að af öllum framkvæmdum í landinu er landbúnaðurinn tryggastur atvinnuvegur og gefur öruggastan arð.

Í þessu sambandi finst mjer rjett að minna á, hvað aðrar þjóðir gera fyrir þennan atvinnuveg. Hvar sem til er litið, eru alstaðar til sjerstakar lánsstofnanir fyrir landbúnaðinn, sem veita bændum sjerstök lánskjör fram yfir aðra atvinnurekendur. Lánin eru ætíð veitt til langs tíma og afborganir því lágar og vextir sömuleiðis. Alstaðar þar, sem landbúnaður er stundaður, er það viðurkent bæði í orði og verki, hversu mikla þýðingu það hefir fyrir hag þjóðanna, að landbúnaðurinn standi í sem mestum blóma. Þannig er það í öllum nágrannalöndum vorum, að ef einhver vill ráðast í einhverjar landbúnaðarframkvæmdir, sem eru heilbrigð fyrirtæki frá almennu sjónarmiði, þá á hann víst að fá fje til þess með hagfeldum kjörum. Hjer hjá okkur vantar svo mikið á, að þessu sje þannig varið. Þetta frv. stefnir að því, að menn viðurkenni nauðsyn þessa máls, ekki aðeins í orði, heldur einnig í verki, og að landbúnaðurinn fái nú þann stuðning, sem hann þarfnast.

Læt jeg svo þau ályktarorð fylgja þessu máli, að þetta sje svo mikið og brýnt nauðsynjamál, að ef þetta reynist erfitt í framkvæmdinni, verður heldur annað að víkja en þetta mál sitji á hakanum. Verði það ofan á hjá lánsstofnunum ríkisins, að þetta mál sje þeim of erfitt til framkvæmda, þá á Alþingi að leggja svo fyrir, að annað víki fyrir þessu. Þetta, sem hjer er farið fram á, er ekki annað en bráðabirgðaráðstöfun, aðeins tilraun til þess að ráða bót á núverandi ástandi. Þetta er heldur ekki það eina, sem gera skal, en meðan ekki verður bent á annað held jeg fast við, að þetta verði gert. Jeg held því fram, að þessi leið sje vel fær og að það verði ekki auðvelt að hnekkja þeim rökum, sem færð eru fyrir þessu í greinargerð frv. Ennfremur vil jeg bæta því hjer við, — og það mun sjást síðar þegar á líður þetta þing, hvort ekki er satt, sem jeg ætla að Landsbankanum muni aukast veltufje með væntanlegri nýrri seðlaútgáfu, og þó þetta sje há upphæð, sem hjer er um að ræða, er ekki víst, að hún verði öll notuð, að minsta kosti ekki í fyrstu, meðan menn eru að venjast þessu fyrirkomulagi.

Enn er eitt atriði, sem jeg vil víkja að, það eru ákvæði 3. gr. þessa frv. um vaxtakjörin, að það eru engin nýmæli, sem hjer er farið með, að vextirnir skuli ekki vera hærri en 4%. Þetta ákvæði var á síðasta þingi sett í jarðræktarlögin, og kom mjer því ekki til hugar að fara að breyta því og gera kjörin bændum óhagstæðari. Þó mun jeg ekki halda mjög fast við þetta, en skýt því til væntanlegrar nefndar, að hún taki þetta til athugunar. En yfir höfuð verð jeg ekki mjög fús að gera stórfeldar breytingar á þessu. Þó að vaxtakjör sjeu nú orðin alstaðar erfiðari, finst mjer samt ekki full ástæða til að hverfa frá þessum ákvæðum 8. greinar, af þeim ástæðum, að breytingar þær, sem orðnar eru á vaxtakjörunum, eru sprottnar af ástæðum, sem landbúnaðinum eru alveg óviðkomandi, — þ. e. falli íslensku krónunnar. Gengisfall hennar er alls ekki bændum að kenna. Landbúnaðurinn á og ekki neinn þátt í tapi bankanna nje hinum dýru lánum, sem tekin hafa verið. Það hefir ekki farið neitt af þeim til landbúnaðarins. Í öðru lagi verður það fje sem í þessu skyni yrði lánað, að teljast mjög tryggilegt, svo áhættan mundi verða harla lítil fyrir bankann.

Að lokum vil jeg óska þess, að málið fái, að lokinni þessari umræðu, að ganga til landbn. Jeg get raunar búist við því, að sumum hv. þm. fyndist í fljótu bragði eins rjett að láta það fara til fjhn., en jeg vil samt leggja hitt fremur til. Því í eðli sínu er mál þetta miklu meira landbúnaðarmál en bankamál. Og til hv. landbn. vil jeg snúa mjer með þá ósk, ef hún fær málið til meðferðar, að hún taki mál þetta til sem rækilegastrar yfirvegunar og að hún hverfi ekki frá þeirri leið, sem hjer er bent á, nema hún sjái fram á aðra heppilegri og betri að því takmarki, sem með frv. er ætlað að ná. Og vonandi verður þetta mál ekki dregið eins á langinn að þessu sinni eins og það hefir verið dregið um öll undanfarin ár.

Þá skal jeg að endingu sömuleiðis benda á, að komið hefir fram till., sem fer í líka átt og frv. þetta, en sem fer miklu skemra. Eins og kunnugt er, er hjer í Reykjavík til stofnun, sem heitir Söfnunarsjóður Íslands. Hefir hann árlega veitt að láni 50–60 þús. kr. Nú hefir verið stungið upp á því, að þessi lán yrðu aðeins veitt eftirleiðis til landbúnaðar. Þetta vildi jeg biðja hv. nefnd að athuga. En þar sem hjer er um svo lítið fje að ræða, þá get jeg ekki búist við, að það eitt út af fyrir sig geti orðið nokkur lausn málinu, ekki síst þar sem þegar mun vera búið að ráðstafa eða lofa fyrirfram því fje, sem sjóðurinn hefir til útlána næstu 2–3 árin.