13.03.1924
Neðri deild: 22. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2096 í B-deild Alþingistíðinda. (1511)

67. mál, búnaðarlánadeild við Landsbanka Íslands

Flm. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg vil síst gera minna en háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) úr þörfinni á því, að fólkið flytjist úr kaupstöðunum og upp í sveitirnar, og því var það, að jeg tók einnig nýbýli upp í frv. En stofnun þeirra, eins og líka stofnun mjólkurbúa og ostagerða o. fl., sem talið er upp í 2. gr. frv., er í sjálfu sjer ekki í samræmi við aðaltilgang frv., því það er skiljanlegt, að lán í þeim tilgangi eru ekki eins trygg. En jeg tók það þó með af því að jeg sá, að nauðsyn ber til þess, að meira sje gert fyrir þær framkvæmdir. En að gera þennan lið, nýbýlin, að einasta atriði frv., get jeg alls ekki fallist á. Í fyrsta lagi er það alveg ótímabært, þar sem svo stutt og lítil reynsla er enn fengin í nýbýlamálinu. Eins og kunnugt er, þá var það fyrst í fyrra, að þingið samþykti lög um nýbýli með jarðræktarlögunum, og er órannsakað ennþá, hvernig þær tilraunir, sem í því efni hafa verið gerðar, muni reynast. Því teldi jeg það mjög gáleysislega farið, ef farið væri nú strax að veita stórfje, alt að ½ milj. kr., að láni til þeirra framkvæmda. Í því efni verðum við að bíða átekta og prófa okkur áfram. Vil jeg því alvarlega vara hv. landbn. við þessu. — Hinu lofa jeg hv. 2. þm. Reykv., að jeg mun síst vera ófús til þess að styðja að því, að tilraununum með nýbýlin verði haldið áfram, og gefist þær vel, þá má hann vita, að engum skal vera ljúfara en mjer að stuðla að því, að alt verði gert, sem hægt er, til þess að gera fólki mögulegt að flytja úr Reykjavík og upp í sveitirnar, því jeg veit vel, hvaða þýðingu það hefir fyrir okkar þjóðfjelag.