05.04.1924
Neðri deild: 43. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2101 í B-deild Alþingistíðinda. (1520)

67. mál, búnaðarlánadeild við Landsbanka Íslands

Flm. (Árni Jónsson):

Landbn. hefir haft frv. þetta til meðferðar og hefir samþykt að mæla með því, að frv. næði fram að ganga.

Raunar hefir einn nefndarmanna, háttv. þm. Ak. (BL), skrifað undir nál. með fyrirvara og mun hann eflaust gera grein fyrir afstöðu sinni.

Nefndin var á einu máli um það, að það sje landbúnaðinum hin mesta nauðsyn að eiga greiðari aðgang að lánsfje til aukinnar framleiðslu, til ræktunar og húsabóta, en nú er. Sjerstaklega er henni ljóst, að hin dýru lán með skömmum afborgunarfresti geta aldrei komið landbúnaðinum að verulegum notum. Þegar um ræktunarlán er að ræða, er það vitanlegt, að fyrstu árin gefa engan arð. Fyrstu árin eru ekkert nema kostnaður. Ávextirnir koma ekki í ljós fyr en síðar meir. Það er því landbúnaðinum hin mesta nauðsyn, hvort sem hann tekur lán til ræktunar eða annars, að lánin sjeu til langs tíma.

Eitt af því fyrsta, sem nefndin gerði, var að biðja bankastjórn Landsbankans að koma á fund hennar til skrafs og ráðagerðar um frv. Því þótt gera hefði mátt ráð fyrir, að bankastjórnin væri frv. hlynt, þar sem það er yfirskoðunarmaður bankans, sem ber frv. fram, sá maður, sem fyrir utan bankastjórnina ætti að vera kunnugastur hag bankans allra manna, þá vildi nefndin þó eiga tal við bankastjórnina um frv.

En undirtektir bankastjórnarinnar urðu aðrar. Bankastjórnin lagði á móti frv. Að ósk nefndarinnar staðfesti bankastjórnin ummæli sín á fundi nefndarinnar brjeflega, og skal jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp brjef hennar; það hljóðar svo:

„Vjer höfum móttekið brjef hinnar háttvirtu landbúnaðarnefndar, dags. 14. þ. m., þar sem hún beiðist skriflegrar umsagnar bankastjórnarinnar um frumvarp á þingskjali nr. 87, um stofnun búnaðarmáladeildar við Landsbanka Íslands.

Í tilefni af því leyfum vjer oss að taka það fram, er hjer fer á eftir, að því er snertir þá hlið málsins, sem að bankanum snýr, — en sjáum ekki ástæðu til þess að fara inn á mál þetta að öðru leyti.

Oss virðist að með frumvarpi þessu sje farið inn á mjög varhugaverða braut, þar sem ætlast er til þess að Alþingi fari með lögum að ráðstafa fje bankans, og það í þó nokkuð stórum stíl og ákveða vaxtakjörin.

Bæði er það nú, að bankinn hefir ekki fje er hann geti lánað með þeim vaxtakjörum, er um ræðir í tjeðu frumvarpi, og það til langs tíma — og eins er hitt, að vjer teljum að slík íhlutun af þingsins hálfu muni hafa í för með sjer ekki aðeins að bankanum síður bætist nýtt starfsfje og lánstraust, hjer og erlendis, heldur yrði það til þess, að hann ætti á hættu að missa af fje því, er hann nú hefir. — Því fari þingið að ráðstafa fje bankans og ákveða vexti af lánum, þá er ekki að vita hvar lendir, hve langt verði farið á þeirri braut.

Skírskotum að öðru leyti til þess sem vjer höfum munnlega tjáð nefndinni og mælumst til þess, að hún leggi til að frumvarpið verði ekki gert að lögum.“

Jeg ætla ekki að fara mörgum orðum um þetta brjef bankastjórnarinnar. Hv. deildarmenn munu sjálfir bærir um að draga sínar ályktanir af því. Það er aðeins sú skoðun, sem fram kemur í brjefi hv. bankastjórnar, að Alþingi eigi ekki að hafa íhlutunarrjett um starfsemi bankans, sem jeg tel mjög hæpna. Hjer er um ríkisstofnun að ræða. Bankastjórarnir eru hjer ráðsmenn ríkisins. Þeir bera ábyrgð á sínum gerðum gagnvart eigendunum. En þó ríkið geti auðvitað ekki farið að sletta sjer fram í dagleg störf bankastjórnarinnar, geti ekki farið að setja þeim reglur um það, hvort þeir skuli lána Pjetri eða Páli 100 kr. eða 1000 kr., þá hefir ríkið samkvæmt hlutarins eðli rjett til þess að draga í stórum dráttum línurnar fyrir starfsemi bankans, og ber jafnvel skylda til þess. Nefndin gat sem sagt ekki felt sig við svör bankastjórnarinnar, heldur samþykti að mæla með frv. með nokkrum breytingum.

Þá vil jeg snúa mjer að frv. sjálfu og brtt. nefndarinnar.

Frv. fer fram á, að þessari sjerstöku deild, sem ætlast er til, að stofnuð verði, sje lagt til á næstu árum alt að 1¼ milj. kr. í ár sje lagt fram 250 þús. kr., en næstu tvö árin 500 þús. kr. á ári. Þetta er að vísu nokkur fjárhæð, en þó ekki mikil, þegar tekið er tillit til upplýsinga þeirra, sem gefnar eru í greinargerð hv. flm. (TrÞ). Álítur nefndin þetta ekki ókleift fyrir bankann, en finst rjett að bera fram nokkrar brtt. við frv. til þess að gera það aðgengilegra fyrir bankann, án þess þó að íþyngja um of þeim, sem lánsins njóta.

Fyrsta brtt. nefndarinnar er aðeins orðabreyting; nefndinni fanst orðunum „til jarðabóta“ ofaukið, þar sem frv. telur sjálft skýrt fram um tilgang laganna.

Önnur brtt. nefndarinnar er sú, að nýr liður komi inn um það, að lánum úr þessari deild sje einnig varið til húsabóta. Það er svo sumstaðar hjer á landi, að ekki er annað sýnt en að jarðirnar muni leggjast í auðn vegna þess, að ekkert fje er fyrir hendi til þess að gera nauðsynlegustu umbætur á húsakynnum. Og þó að við sjeum víða á eftir í verklegum framkvæmdum, þá kveður þó hvergi rammara að því en um húsakynnin. Þar hygg jeg, að vjer stöndum öðrum þjóðum lengst að baki. Og frá heilsufræðilegu sjónarmiði er það hið mesta nauðsynjamál, að úr þessu sje bætt hið allra fyrsta. Það er engin von um, að berklaveikinni verði útrýmt meðan fjöldi landsmanna þarf að hafast við í rökum, köldum og loftillum húsakynnum.

Hjer hagar líka miklu ver til en í öðrum löndum, því að hjer er ekki hægt að fá neitt hentugt byggingarefni til varanlegra bygginga. En kostnaðarsamt er að flytja það frá öðrum löndum og erfitt að sækja það úr afskektum sveitum, þó það sje komið til landsins. Er því skiljanlegt, að menn reyni í lengstu lög að baslast við það, sem er, þótt ljelegt sje. Nefndin hefir því litið svo á, að þessi liður ætti að koma með, því að það sje eitt fyrsta skilyrðið fyrir viðreisn landbúnaðarins, að hægt sje að fá hagfeld lán til bygginga.

Þriðja brtt. nefndarinnar er í samræmi við þessa aðra brtt. Það hefir, eins og áður hefir verið minst á hjer í þessari hv. deild, þótt bresta mikið á það, að hús þau, sem bygð hafa verið á seinni árum til sveita, væru traust og varanleg. Nefndin gerir því ráð fyrir, að leitað sje álits sjerfróðs manns á byggingum, þegar lán eru veitt í þessu skyni. Með því ætti að fást trygging fyrir, að vel og traustlega sje bygt.

Þá er fjórða brtt. nefndarinnar. Okkur fanst vaxtakjörin, sem hjer um ræðir, óþarflega lág, og bankastjórnin segist ekki geta fengið innlánsfje með þeim kjörum. Því er það skoðun okkar, að landbúnaðurinn geti staðið straum af því að borga 5% vexti í stað 4%, eins og frv. gerði ráð fyrir. En jafnframt höfum við ljett undir með honum með því að lengja lánstímann úr 20 árum upp á 25 ár og afborgunarlausu árin úr 4 upp í 5 ár. Þess verður að gæta, þótt þetta sjeu lægri lánskjör en bankarnir yfirleitt hafa, að þegar ákveða skal vexti af útlánum, verður að taka mikið tillit til þess, hve vel lánin eru trygð. Allir eru sammála um, að fasteignaveð sjeu bestu tryggingarnar, sem hægt er að fá. Þó þessir vextir sjeu því nokkuð lægri en almennir útlánsvextir bankanna, finst nefndinni ekki nema sanngjarnt, að svo sje, þar sem um tryggustu lán er að ræða, sem bankinn á völ á. Og auk þess á þessi banki ekki fyrst og fremst að vera gróðafyrirtæki. Hann á fyrst og fremst að vera lyftistöng undir atvinnuvegi landsmanna.

Jeg hefi nú stuttlega rakið efni frv. og meðferð landbn. á því, og skal jeg nú áður en jeg sest niður leyfa mjer að fara nokkrum orðum um þetta mál alment, eins og það kemur mjer fyrir sjónir, og vil jeg strax taka það fram, að það, sem jeg segi nú, stendur algerlega á mína eigin ábyrgð, en ekki nefndarinnar.

Jeg held, að það sjeu ekki skiftar skoðanir um það, að landbúnaðurinn á nú sem stendur við meiri örðugleika að stríða en nokkru sinni áður í minni þeirra manna, sem nú lifa. Það er margt, sem þessu veldur. Landbúnaðurinn er enn mikið á eftir tímanum. Hann hefir ekki enn komist upp á að hagnýta sjer vinnuafl og starfsaðferðir nútímans. Hann hefir þess vegna orðið á eftir í samkeppninni við hinn aðalatvinnuveg vorn, sjávarútveginn. Landbúnaður hjer á landi verður líklega aldrei rekinn sem stórgróðafyrirtæki, en björgulegur og lífvænlegur atvinnuvegur ætti hann að geta verið.

Nú er það svo, að sjávarútvegurinn getur verið stórgróðafyrirtæki, þegar vel gengur. Hann getur í góðum árum borgað miklu hærri vexti og greitt miklu hærra kaup heldur en landbúnaðurinn. En hann verður altaf áhættumeiri. Lánsstofnanir okkar hafa ekki, að því er mjer virðist, tekið nægilegt tillit til þessa við ráðstöfun á fje sínu. Landbúnaðurinn hefir orðið þar út undan.

Það mun láta nærri, að nú sem stendur stundi um 40% af þjóðinni landbúnað. En þegar gerður er samanburður á því, hvað mikið af veltufje bankanna gangi til hvors um sig af þessum aðalatvinnuvegum, þá sjest, að landbúnaðurinn fær ekki nándarnærri eins mikið og sjávarútvegurinn á hlutfalli við fólksfjölda. Jeg þekki þetta ekki sjálfur, en kunnugur maður hefir fullyrt við mig, að landbúnaðurinn myndi alls ekki hafa yfir 15% af öllu veltufje bankanna beggja, og eru þó talin með öll lán samvinnufjelaganna, sem, eins og menn vita, eru að töluverðu leyti skipuð mönnum, sem ekki stunda landbúnað, og þau fjelögin eru hvað frekust um starfsfje. Það er því sennilega nokkuð innan við 15% af veltufje bankanna, sem þessir 2/5 hlutar landsmanna hafa til sinnar starfrækslu. Hin 85%, eða vel það, hafa þá þessir 3/5 hlutar, sem eftir eru. Allir sjá, að hjer er um ójafna skiftingu og hreint ranglæti að ræða. Auk þess eru lánskjör bankanna yfirleitt ekki þannig, að landbúnaðurinn eigi hægt með að standa straum af þeim. Hann þarf lengri lán og lægri vexti. En ekki nóg með það. Landbúnaðurinn á ekki einu sinni nema mjög takmarkaðan aðgang að þessum erfiðu lánum; það er mjer sjálfum kunnugt um, því að jeg hefi sjálfur leitað þessara lána fyrir bændur og ekki fengið.

En það er viðurkent, að landbúnaðurinn eigi að hafa lægri vaxtakjör heldur en sjávarútvegurinn, af því að hann sje tryggari atvinnugrein. Það er viðurkent af mönnum, sem um það eru bærir að dæma. Jeg vil leyfa mjer að vitna í yfirlýsingu um þetta, sem einn af bankastjórum Íslandsbanka gaf í ræðu, er hann hjelt á stjórnmálafundi austur í sýslum í fyrra haust. Þar var um það rætt, að Íslandsbanki hefði haft hærri útlánsvexti en Landsbankinn og mundi með því ætla að ná inn tapi sínu. Bankastjórinn svaraði því á þá leið, að það hefði komið fyrir, að bankinn hefði á nokkrum tímabilum haft hærri útlánsvexti en Landsbankinn. En vaxtamismunurinn væri þó ekki nema 40 þús. kr. á ári síðustu 3 árin, og þyrfti bankinn því 120 ár til að ná upp tapi sínu á þennan hátt. En þó svo væri, að Íslandsbanki hefði hærri útlánsvexti en Landsbankinn, þá taldi bankastjórinn ekkert óeðlilegt við það, vegna þess, að Landsbankinn hefði tiltölulega miklu meiri viðskifti við landbúnaðinn, og þau lán væru altaf áhættuminni. Jeg man ekki upp á hár, hvernig orðin fjellu, en meiningin var þessi.

Hjer er það viðurkent af þeim manninum, sem allra manna best ætti að vera bær um að dæma um slíka hluti, að landbúnaðurinn eigi að hafa lægri kjör en aðrir atvinnuvegir, af því að hann sje áhættuminni. En þrátt fyrir þessa skoðun þessa háttv. bankastjóra og margra annara mætra manna, þá hefir landbúnaðurinn ekki betri vaxtakjör en aðrir atvinnuvegir, og hann á samt ekki aðgang að lánsstofnunum neitt nándarnærri á móts við þá. Þetta er ekki rjettlæti.

Mjer finst jeg verða var við þá skoðun nokkuð alment, sjerstaklega hjer í Reykjavík, að landbúnaðurinn sje bara nokkurskonar ómagi á þjóðinni, nokkurskonar horgemlingur, sem öllum mætti vera sama um, þó að hrykki upp af einhvern daginn. Menn virðast hafa gleymt því, að í full þúsund ár hefir þetta verið aðalatvinnuvegur vor, alt fram á síðustu ár. Og landbúnaðurinn hefir leyst þetta hlutverk svo vel af hendi, að þrátt fyrir óáran og ánauð, eld og ís, þrátt fyrir allar þær þrekraunir sem þessi þjóð hefir orðið að ganga í gegnum á liðnum öldum, þá er þjóðin þó svo, að hún stendur ekki nágrannaþjóðunum okkar að baki, hvorki að andlegu nje líkamlegu atgervi. Jeg efast um, að öðrum atvinnugreinum hefði tekist eins vel að leysa þetta hlutverk af hendi. Þegar málið er athugað frá þessari hlið, horfir það nokkuð öðruvísi við.

Landbúnaðurinn hefir hjer eins og annarsstaðar betri skilyrði en aðrir atvinnuvegir til þess að vernda þjóðerni og tungu.

Borgarlíf og borgarfólk er líkt í flestum löndum, Það er ekki fyr en út í sveitirnar kemur, að þjóðareinkennin skýrast til muna. Hjer hefir sveitamenningin haft meiri þýðingu en í nokkru öðru landi á síðari öldum. Hjer hefir orðið „bóndi“ jafnan verið virðingarheiti, þvert á móti því, sem víða annarsstaðar hefir þekst.

Og hvað er sjálfstæðisviðurkenning vor annað en viðurkenning á því hlutverki, sem landbúnaðurinn hefir leyst af hendi!

Eða halda menn máske, að sjálfstæðisviðurkenningin hafi fengist vegna togaranna, bíóanna og bílanna!

Efling landbúnaðarins, efling sveitalífsins er efling þjóðernis vors og tungu. En þjóðernið og tungan eru hyrningarsteinar sjálfstæðis vors. Efling landbúnaðarins er því ævarandi sjálfstæðismál.

Nú er svo komið, að þessi atvinnuvegur er í stórhættu. Honum hnignar ár frá ári og flestir bændur eru að komast í fátækt. Jeg hefi heyrt menn furða sig á því, að samúð ætti sjer stað á milli bænda og verkamanna í kaupstöðum. Satt er það líka, að ekki falla hagsmunir þeirra saman. Aðrir eru atvinnuveitendur, en hinir atvinnuþiggjendur. Hjer er því ekki um hagsmunasamúð að ræða. Þetta er samúð fátæklingsins með hinum, sem líkt stendur á fyrir. Eftir því sem bændastjettinni hnignar, eftir því vex þessi samúð. Og þjóðfjelagi voru stafar ekki eins mikil hætta af nokkru eins og því, að bændur lentu í svo miklum kröggum, að þeir gleymdu sínum ferna metnaði, að í stað stjettartilfinningar hinnar öruggu bændastjettar með þeirri ríku ábyrgðartilfinningu, sem hún hefir jafnan haft, kæmi stjettartilfinning öreiganna með öllu því ábyrgðarleysi og allri þeirri úlfúð, sem henni fylgir.

Vjer megum ekki telja fje eftir þessum atvinnuvegi. Það er helg skylda vor að vernda hann eftir föngum og að gera honum a. m. k. jafnhátt undir höfði og öðrum atvinnuvegum. Vjer eigum að gera þær kröfur til landbúnaðarins, að hann viðhaldi þjóðerni voru og þjóðareinkennum og því, sem er best í fari voru, og jafnframt að gera honum kleift að fullnægja þeim kröfum, með því að veita honum fje til nauðsynlegra framkvæmda og endurbóta. Vjer eigum að gera þessar kröfur. En vjer megum þá heldur ekki segja: minn góði landbúnaður, við höfum ekkert handa þjer, þú getur lifað — eins og Magnús sálarháski — á munnvatni þínu og guðsblessun.