05.04.1924
Neðri deild: 43. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2110 í B-deild Alþingistíðinda. (1521)

67. mál, búnaðarlánadeild við Landsbanka Íslands

Tryggvi Þórhallsson:

Mjer er það mjög ljúft að þakka bæði hv. landbúnaðarnefnd og hv. frsm. (ÁJ) fyrir afskifti af þessu máli. Sjerstaklega er mjer ljúft að þakka hv. frsm. fyrir ræðu hans, vegna þess hlýleika og skilnings í garð landbúnaðarins, er þar kom fram. Það eina, sem jeg gat ekki felt mig við í ræðu hans, var það, er hann sagði um stjettartilfinningu öreiganna. En það er aukaatriði, sem hægt er að tala um seinna.

Jeg vildi fyrst víkja að einu atriði í ræðu hv. frsm., þar sem hann sagði, að 15% af veltufje bankanna væri í höndum landbúnaðarins. Jeg hygg, að þetta sje fullhátt áætlað, heldur en hitt, og veikir það auðvitað ekki þennan málstað.

Þá vil jeg víkja að brtt. nefndarinnar við frv. Jeg skal viðurkenna, að mjer finst fult samræmi í þeim. Og satt að segja var jeg að hugsa um, er jeg bar fram frv., að taka upp í það húsabætur í sveitum — varanlegar húsabætur, — eins og stendur í nál. En jeg hvarf frá því vegna þess, að mjer fanst, að með því móti væri ekki hægt að fara fram á eins lág vaxtakjör. Nefndin bætir þessu inn í og hækkar jafnframt vexti úr 4% upp á 5%. Í þessu er fult samræmi, og sem flm. get jeg fallist á, að frv. verði samþykt eins og það kom frá nefndinni.

Þá skal jeg minnast á brjef bankastjórnarinnar. Mjer kemur ekki til hugar að áfella bankastjórnina fyrir undirtektir hennar, enda voru þær mjer kunnar áður en jeg bar frv. fram. Bankastjórnin telur sjer — eins og eðlilegt er — fyrst og fremst skylt að líta á hag bankans sjálfs á þessum tímum. Hjer er enginn skjótur ágóði á ferðum. Jeg get þess vegna viðurkent, að bankastjórnin einmitt megi líta á málið frá þessu sjónarmiði. En hins eiga þing og stjórn með að krefjast, og mega krefjast, eins og hv. frsm. sagði, að bankinn leggi eitthvað á sig til slíkra nauðsynja og hjer er um að ræða.

Jeg býst við, að hinir lágu vextir sjeu bankanum þyrnir í augum. Árið 1913 var ákveðið, að ríkissjóður legði 100000 kr. á ári inn í Landsbankann næstu 20 ár. Ætti upphæðin því á þessu ári að nema 1200000 kr. Jeg vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp þá lagagrein, er að þessu lýtur:

„Landssjóður leggur Landsbankanum til árlega næstu 20 ár 100 þúsund krónur til þess að greiða með lán Landsbankans, 2 miljónir, sem tekið var samkvæmt lánsheimild í lögum nr. 82, 22. nóvember 1907.

Landssjóður skal vera innskotseigandi (interessent) að þessu fje. Skal hann af því fá sömu hlutdeild, sem hann mundi fá af jafnhárri hlutafjárupphæð, af hreinum tekjuágóða bankans, í hlutfalli við annað eignarfje hans.

Í þessu efni skal skoða seðla landssjóðs sem eign bankans.

Uns lánið, sem nú er, er að fullu greitt, greiðir bankinn vöxtu af því (þeim hluta þess, sem á hverjum tíma er ógreiddur).“

Bankinn á að greiða vexti af fje þessu. En aðallega er ætlast til, að ríkissjóður fái gjald af ágóða bankans. Þetta er einmitt eftirtektarvert í þessu máli. Ef svo fer, að bankinn fær minni ársarð, borgar hann auðvitað minna af honum til ríkissjóðs. Hann fær það því aftur, sem hann hagnast minna á þessari vaxtalækkun. Ríkið er því hjer að ráðstafa sínum eigum, en ekki bankans. Aðstaða þess í þessu máli er fullkomlega rjettmæt.

Þá vík jeg að öðru atriði, er líka kemur hjer til greina. Landsbankinn á mikið fje inni í Íslandsbanka. Upphæðin er há, en vextir lágir. Væri þessu fje ekki betur varið til þess að styrkja þann atvinnuveg, sem banki landsins á að láta sjer annast um?

Jeg skal ekki orðlengja þetta frekar, en vil aðeins endurtaka þakklæti mitt til hv. frsm. (ÁJ) og landbúnaðarnefndar fyrir meðferð þessa máls, og vona, að deildin beri gæfu til að fara að till. nefndarinnar.