05.04.1924
Neðri deild: 43. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2120 í B-deild Alþingistíðinda. (1525)

67. mál, búnaðarlánadeild við Landsbanka Íslands

Jakob Möller:

Jeg geri ekki ráð fyrir, að hv. frsm. (ÁJ) hafi ætlast til neins stuðnings frá oss Reykvíkingum, eftir því sem honum fórust orð í vorn garð. En jeg læt það ekki á mig fá og stend upp til þess að lýsa því, að jeg er samþykkur frv. Jeg verð að játa, að það er mikið til í því, sem hæstv. fjrh. (JÞ) og hv. 4. þm. Reykv. (MJ) sögðu, að það væri varhugavert fyrir löggjafarvaldið að beita mjög eignarrjetti sínum í þá átt að ráðstafa fje bankans og taka fram fyrir hendur bankastjórnarinnar í því efni. Hinsvegar má tæplega gera ráð fyrir því, þó að nokkur pati bærist út um lönd um það, að löggjafarvaldið neytti aðstöðu sinnar til þess að tryggja það, að bankinn verði hluta af starfsfje sínu til hinna tryggustu lána, sem hugsanleg eru, að það eitt geti rýrt lánstraust bankans. Auðvitað yrði í því sambandi á það litið, með hverjum kjörum fje væri bundið í þessum lánum.

Þá er það vandasama atriði að ákveða vextina. Jeg verð að taka undir með hæstv. atvrh. (MG), að það gæti vissulega komið til greina að fara lengra en háttv. landbn. hefir gert, þegar á það er litið, að hjer er um lán að ræða, sem veitt eru með fullri fjárhæð. Þó að vextirnir væru 1% hærri en af veðdeildarlánum, sem eru 5%, munar það afarmiklu, að engin afföll þarf að greiða.

Aftur verður að líta á það, að ekki má miða of mikið við vaxtahæðina, sem nú er, þar sem gert er ráð fyrir, að hin fyrirhugaða lánadeild láni til 20–25 ára. Nú sem stendur eru vextir mjög háir, en það getur skipast skjótlega, og er ekki óhugsandi, að útlánsvextir bankanna verði jafnvel aðrir er lánstíminn er á enda, komnir niður fyrir vextina af þessum fyrirhuguðu lánum, að minsta kosti ef þeir verða 6%. Skilst mjer, að frá því sjónarmiði megi ekki gera of mikið úr því, hve háir útlánsvextir eru nú.

Vitanlega er hagur bankans nú allörðugur, og er því varhugavert að leggja honum þær skyldur á herðar að binda með lágum vöxtum fje, sem hann hefir af skornum skamti, og minka þannig tækifæri bankans til þess að vinna upp það tjón, sem hann hefir orðið fyrir. Jeg hefði eiginlega kunnað því betur, ef frv. hefði farið í þá átt að leggja þá kvöð á Landsbankann, að hann skyldi verja árlega nokkru fje til þess að kaupa skuldabrjef Ríkisveðbanka Íslands, og væri hann þá látinn taka til starfa. Með því væri sú stofnun að nokkru leyti komin yfir byrjunarörðugleikana, þar sem hún fengi þannig stuðning frá Landsbankanum, en hinsvegar væri það þá trygt, að meira starfsfje kæmi í þessu skyni heldur en það, sem lagt yrði fram af bankanum.

Þar sem hæstv. fjrh. talaði um, að hjer væri farið inn á aðra braut en til var ætlast, þegar skorað var á stjórnina að undirbúa lánsstofnun fyrir landbúnaðinn, þá er það misskilningur, enda er þetta frv. samið að talsverðu leyti eftir lögunum um Ríkisveðbankann. Hjer er í raun rjettri um sömu leið að ræða, sama niðurstaðan, sem sá maður komst að, er undirbjó málið fyrir stjórnina, og þingið 1921 fjelst á, en í stað þess að hafa sjerstakan banka, er lánveitingum í þessu skyni í ýmsum deildum bankans safnað hjer undir einn hatt, og eru ýms ákvæði frv., sem að þessu lúta, tekin beint upp úr lögunum um Ríkisveðbankann.

Hæstv. fjrh. kvað það komið í ljós, að skilyrðin fyrir stofnun Ríkisveðbankans væru ekki fyrir hendi. Mjer skilst, að hæstv. fjrh. hafi hjer talað út í bláinn, því að mjer vitanlega hefir ekkert verið gert til þess að koma bankanum á fót. Þingið 1921 gerði ráð fyrir, að rannsakað væri, hvernig best mætti haga fasteignaveðlánastofnun, en jeg veit ekki til, að síðan hafi neitt verið gert til þess að framkvæma þá rannsókn, hvernig starfrækja ætti slíka stofnun. En niðurstaða þingsins var sú, að ráðlegast mundi að koma á fót slíkri stofnun, og er ekkert komið fram, sem afsanni það álit.

Jeg minnist vel þeirrar tilraunar, sem hæstv. fjrh. gerði á þingi 1921 til þess að skilja landbúnaðarmál frá almennri starfsemi bankans. En eins og þá var rækilega sýnt fram á, var sú tilraun bygð á misskilningi, því að lög bankans gefa fullkomlega svigrúm fyrir slíka lánsstofnun.

Eins og jeg sagði áðan, hefði jeg talið rjettara, að þetta frv. hefði farið í þá átt að leggja kvöð á Landsbankann um kaup á brjefum Ríkisveðbankans, því að þá væri gert kleift að stofna þann banka og meira tækifæri til að fá fje í þessu skyni. Jeg skil það vel, að stjórn Landsbankans muni ekki ljúft að taka á sig þessa byrði, þó að hinsvegar megi um það deila, hve veigamiklar ástæður bankastjórnarinnar gegn þessu eru. Jeg skal líka játa, að ef 9. gr. frv. hefði ekki verið, þá veit jeg ekki, hvort jeg hefði greitt frv. atkv. Í þessari grein er sú öryggispípa, að það er öldungis óhætt að treysta því, að bankanum sjeu ekki gerð nein stórspjöll með þessu; því ef bankinn treystir sjer ekki til að inna af hendi þær skyldur, sem þetta frv. leggur á hann, þá er sú leið opin fyrir hann og stjórnina, að koma strax á stofn ríkisveðbanka, og lít jeg raunar svo á, að það verði besta lausnin á málinu.