05.04.1924
Neðri deild: 43. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2134 í B-deild Alþingistíðinda. (1532)

67. mál, búnaðarlánadeild við Landsbanka Íslands

Jakob Möller:

Jeg skil ekki, hvað hv. frsm. (ÁJ) og hv. flm. (TrÞ) eru að tala um þetta frv. sem heimildarlög. Jeg skil það sem skipun. Jeg er að vísu ekki lögfróður maður, en jeg kann þá ekki lög að lesa, ef þetta: „sjerstök lánadeild skal stofnuð“ er ekki bein skipun. Það er að vísu heimild að því leyti, að upphæð lánsfjárins er ekki fastákveðin. En deildina skal stofna, og bankinn er skyldur að lána alt að miljón, ef um er beðið. En vitanlega ákveður bankinn, hvaða tryggingu hann tekur gilda, og getur þannig takmarkað lánin. En lögin eru bein skipun um að leggja fram fje í þessu skyni. Það er óheppilegt og má ekki standa ómótmælt í Þingtíðindunum, að þetta sje aðeins heimild, og því tóm pappírslög.

Hv. þm. V.-Sk. (JK) var að hafa það eftir mjer, að litlu skifti um vaxtakjörin, hver þau væru. Þetta er misskilningur, sem jeg vil leiðrjetta. Jeg sagði aðeins, að ekki væri síður á það að líta, hvernig lánskjörin væru að öðru leyti. Það er t. d. mjög svo einfalt reikningsdæmi um veðdeildarlán, sem tekin eru með stórum afföllum, hverju muna megi á vöxtunum til þess, að það borgi sig að taka lánið með hærri vöxtum affallalaust. Þessi munur getur hæglega verið svo mikill, að 5% lán sjeu engu betri en 6%. Veðdeildarlán þola ekki eins háa vexti og önnur lán. Hitt er ljóst, að landbúnaðurinn þarf að fá fje með sem bestum kjörum, og það er þýðingarmikið fyrir bankann, hvaða vexti hann fær af því fje, sem hann leggur fram. En jeg vil benda á, að það er hættuleg braut fyrir þá, sem vilja þessu máli vel, að ákveða vextina í hlutfalli við innlánsvextina á ýmsum tímum. Það er augljóst, að ef svo verður ákveðið, þá eru því í rauninni engin takmörk sett, hvað vextirnir megi verða háir. Það getur borgað sig fyrir bankann, ef hann vill hækka útlánsvextina, að hækka líka innlánsvextina — hann græðir á því —, en hinsvegar, með því að fastákveða þessa vexti, þá er lagður hemill á útlánsvexti bankans yfirleitt. Jeg held, að bankarnir hafi farið heldur langt í því undanfarið að hækka útlánsvexti, en þeir hafa líka hækkað innlánsvexti. Þetta hefir bygst á þeirri kenningu, að hægt væri að hafa áhrif á gengið með hærri vöxtum, þannig að gengið hækkaði. Nú held jeg að áhrifin sjeu þveröfug, svo jeg teldi ekki illa farið, þótt bankinn fengi hemil á sig í þessu efni.