05.04.1924
Neðri deild: 43. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2137 í B-deild Alþingistíðinda. (1535)

67. mál, búnaðarlánadeild við Landsbanka Íslands

Jakob Möller:

Jeg vildi aðeins minnast á það, sem hjer hefir verið sagt í sambandi við ilt umtal Reykvíkinga um landbúnaðinn. Jeg fyrir mitt leyti verð að segja, að þetta mun vera nokkuð orðum aukið. Jeg hefi alls ekki orðið var við, að menn hjer í Reykjavík hefðu um bændur eða búnað ill orð. Auðvitað getur það verið, að ýmsir, sem ekki geta þá talist með málsmetandi mönnum, hafi af strákskap sagt þetta eða hitt. En á það vildi jeg benda, að hjer í þinginu falla ekki síður hnútur frá bændunum í garð bæjarmanna en frá bæjarmönnum í garð bænda. Sje jeg ekki annað en bændur hjer á þingi sæti svo að segja hverju tækifæri, sem gefst, til hnútukasts. Og fer það heldur vaxandi. Væri vel sæmandi, að þingmenn gættu sín gegn því, sem þeim þykir aðrir fara lengra í en góðu hófi gegnir.