16.04.1924
Neðri deild: 52. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2142 í B-deild Alþingistíðinda. (1540)

67. mál, búnaðarlánadeild við Landsbanka Íslands

Fjármálaráðherra (JÞ):

Þetta mál stendur raunar enn í sömu sporum og við 2. umr. Jeg get því að mestu leyti vísað til þess, sem jeg sagði þá viðvíkjandi því, hve varhugavert það er að leggja Landsbankanum með slíkum lögum sem þessum skyldu á herðar til framkvæmda, sem ekki eru í nokkru samræmi við venjulegar reglur um bankastarfsemi. Nú hefir stjórn bankans tekið enn af skarið og lýst yfir því, að bankinn hefði ekki fje til þess að leggja fram í þessu skyni. Það er því tilgangslítið að samþykkja frv. Eins og það er orðað getur það ekki komið að neinum notum, ef Landsbankinn treystist ekki til þess að leggja fram fjeð.

Nú hefir komið fram brtt. við frv., á þskj. 396, og útbýtt nú á þessum fundi. Jeg veit þess vegna ekki, hvort hv. þdm. hafa áttað sig á henni til fulls. Jeg sje mig þó til neyddan að fara um hana nokkrum orðum.

Það er nú svo, eins og hv. þdm. er kunnugt, að ríkissjóður er búinn að leggja eina miljón kr. sem innskotsfje í Landsbankann, og af þessu fje á ríkissjóður að fá arð í hlutfalli við annað starfsfje bankans. Upphæð þessa arðs hefir verið mismunandi ár frá ári, eins og hv. frsm. (ÁJ) gat um. En þær tölur eru samt enginn mælikvarði fyrir því, hvað há sú upphæð kann að verða í framtíðinni. Upphæð innskotsfjárins er 100 þús. kr. á ári. Nú er hún ein miljón, og á að vaxa upp í tvær miljónir. En það gefur að skilja, að eftir því, sem eign ríkisins í bankanum vex, eftir því vex sú upphæð, sem ríkið fær árlega frá bankanum í arð, að öðru jöfnu. Og þó það beri við eitt ár, eins og t. d. 1922, að þessi upphæð verði lág, þá er það enginn mælikvarði fyrir því, hvers vænta megi síðar. Og því síður má nokkuð marka af því, þótt það komi fyrir eitt ár, að arðurinn verði enginn. Það er sjálfsagt að vænta þess, að þetta fje gefi eðlilegan arð þegar um hægist og tímarnir batna. En arðurinn af slíku innlánsfje er ekki eðlilegur fyr en hann er sem næst jafn útlánsvöxtum bankans á hverjum tíma. Arður, sem þannig getur brugðist sum ár, verður að vera hærri en innlánsvextir, til þess að eigandinn sje skaðlaus. Það má því með rjettu gera ráð fyrir 6% af þessu fje, eða 60–70 þús. kr. á ári eins og nú stendur, og innan fárra ára 100–120 þús. kr., og getur orðið hærra, ef vel gengur. Nú er farið fram á það með brtt. þessari á þskj. 396, að bankinn sje leystur undan því að greiða ríkissjóði hlutdeild af tekjuágóða bankans af innskotsfje ríkissjóðs. Slíkt framlag til bankans nær ekki nokkurri átt, samanborið við það, sem bankinn leggur á sig. Jeg skil hreint ekkert í hv. flm. (TrÞ og ÁJ) að bera fram aðra eins till. Eftir henni öðlast Landsbankinn rjett til þess, þótt hann leggi ekki fram nema 100 þús. krónur til landbúnaðarlána, að fá jafnmikla upphæð frá ríkinu, eða jafnvel hærri. Á þann hátt getur bankinn árlega fengið eins mikið fje eða meira en það, sem hann hefir standandi í þessum útlánum. Jeg geri ekki ráð fyrir því, að það hafi verið meining hv. flm. þessar brtt. á þskj. 396, að málunum yrði skipað svona. Yfir höfuð get jeg ekki sjeð, — ef á annað borð ætti að styrkja Landsbankann með framlagi úr ríkissjóði til þess að veita landbúnaðinum vægari lánskjör — neinn annan grundvöll heilbrigðari en þann, að upphæðin sje miðuð við þá fúlgu, sem bankinn á útistandandi í slíkum lánum, þannig, að vaxtamismunurinn sje bættur á hverjum tíma. Hitt nær ekki nokkurri átt, að bankinn fái frá ríkinu fúlgu, sem nemi jafnvel fullum vöxtum af þessum lánum, eða ennþá meiru. Þetta og fleira, sem fram hefir komið, sýnir, að málið er ekki svo gerhugsað af hálfu hv. flm. eða landbn., að forsvaranlegt sje, að deildin afgreiði það í því formi, sem það nú liggur fyrir. Og jeg get sagt nú eins og við 2. umr., að jeg sje mjer ekki fært að greiða atkv. með frv., þegar stjórn Landsbankans hefir lýst yfir því, að hún treystist ekki til að leggja fram það fje, sem hjer ræðir um.