16.04.1924
Neðri deild: 52. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2144 í B-deild Alþingistíðinda. (1541)

67. mál, búnaðarlánadeild við Landsbanka Íslands

Jón Kjartansson:

Jeg vil beina þeirri fyrirspurn til hv. landbn., hvort það sje meining hennar að leggjast á frv. mitt um útgáfu nýs flokks bankavaxtabrjefa. Jeg óttast — því miður — að frv. það, sem hjer ræðir um, verði pappírslög og ekkert annað. Og hv. landbn. virðist álíta þetta líka, því hún er í vandræðum með málið, enda mun ekki hafa annað vakað fyrir hv. flm. (TrÞ) en að búa hjer til pappírslög. En mjer þykir það illa farið, ef landbúnaðurinn á að gjalda þess, að þetta er gert að humbugsmáli.

Hv. frsm. landbn. (ÁJ) leggur ekkert upp úr þriðja svari landsbankastjórnarinnar — af því að það er jákvætt. En öðru máli gegndi um hin — af því þau voru neikvæð! Þetta líkist því að ganga aftan að siðunum. En það er vitanlega ekki undarlegt, ef það hefir verið ætlunin frá upphafi, að þetta væri skrípaleikur, eins og heyrst hefir, að hv. flm. hafi sagt við stjórn Landsbankans, þegar hann bar málið undir hana.