16.04.1924
Neðri deild: 52. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2145 í B-deild Alþingistíðinda. (1542)

67. mál, búnaðarlánadeild við Landsbanka Íslands

Tryggvi Þórhallsson:

Hæstv. fjrh. (JÞ) gat þess út af brtt. á þskj. 396, að tölur þær, sem hv. frsm. (ÁJ) las upp, væru enginn mælikvarði á það, hve hátt gjald ríkissjóður ætti að fá fyrir innskotsfje sitt frá bankanum. Þetta er rjett. En þær eru mælikvarði á það, hvað ríkissjóður hefir fengið. Þær sýna, að þetta innskotsfje er það langdýrasta lán, sem nokkur stofnun hjer á landi a. m. k. hefir fengið enn. Árið 1917 er upphæðin 500 þús. kr. og gjaldið þá 45 þús. kr., eða 9%. Árið 1918 er upphæðin 600 þús. kr., en gjaldið 99½ þús. Þetta eru afskaplegir vextir. Með öðrum orðum: þetta innskotsfje, sem landið hefir lagt í bankann — það hagræði er bankinn margbúinn að borga langt fyrir sig fram.

Við umræðurnar um þetta mál síðast var bent á það af mjer og hv. frsm. (ÁJ), að þetta, að bændur fengju ódýr lán hjá bankanum, kæmi fram í því, að hann gæti minna borgað landinu í arð af innskotsfje þess. Og nú á þessum krepputíma er sjáanlegt, að bankinn muni borga mjög lítið til ríkisins af innskotsfje sínu. En það er trygging í því fyrir bankann, að geta reiknað með því að þurfa ekkert að borga. Að bera till. fram á þennan hátt er gert til þess að sýna bankastjórninni, að þingið vilji gæta fullrar sanngirni gagnvart bankanum.

Annars er einkennilegt, hvernig hæstv. fjrh. snýr sjer í þessu máli nú, þegar athugað er viðhorf hans við fyrri umr. Þá var hann á móti málinu af því, að þá væri bankanum íþyngt um of. Nú er hann á móti því af því, að bankanum sjeu með brtt. veitt of mikil fríðindi. Jeg skil ekki samræmið í þessu. Í öðru orðinu er hann á móti bankanum, í hinu vill hann hjálpa honum. Jeg hygg, að hjer sje sem oftar, þar sem um öfgar er að ræða, að sannleikurinn sje þar mitt á milli. í þessu máli er hæstv. fjrh. beggja megin við sannleikann, en við, sem frv. fylgjum, næst hinu rjetta.

Þá kem jeg að hv. þm. V.-Sk. Jeg verð að láta það í ljós út af því, sem fram kom í gær, að mig furðar á því, að hann skuli einu sinni láta sjá sig hjer, hvað þá taka hjer til máls. Jeg vil spyrja hann út af því, sem nú er kunnugt orðið, hvort hann hafi borið það undir húsbændur sína, hina dönsku kaupmenn, hvað hann ætti að tala hjer í dag. Þessa húsbændur, sem nú er upplýst, að hann þjónar, að vitni þess manns, sem áður var ritstjóri Morgunblaðsins og hlotið hefir lofsamleg ummæli af sjálfum hv. þm. V.-Sk. og hans flokksmönnum, en varð að fara frá blaðinu af því, að hann vildi ekki beygja sig undir hina dönsku eigendur. Nú vita allir, að hv. þm. V.-Sk. verður að bera hvað eina, sem hann leggur til málanna, undir hina dönsku húsbændur. Þegar hann nú segir, að jeg sje að leika skrípaleik með pappírslög — er það eftir skipun frá þeim dönsku, sem hann segir það, því að vitanlega veit hann, að ekki er minsti fótur fyrir þessu? Jeg er hissa á offrekju þessa hv. þm. Það mundi ekki líðast í nokkru landi, að maður fengi að sitja í þingsæti, sem uppvís væri orðinn að því sem ritstjóri, að eiga að standa útlendum kaupmönnum reikningsskap á öllu, sem hann leggur til opinberra mála. Slíkur maður yrði í hvaða landi sem er að leggja niður þingmensku þegar í stað. Sómi þingsins og flokksins krefst þess, að hann hreinsi sig af þessu, ef hann getur. Íslendingar hafa aldrei kunnað því vel, og síst nú, að hafa danska menn sem yfirritstjóra við blöð sín.