16.04.1924
Neðri deild: 52. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2147 í B-deild Alþingistíðinda. (1543)

67. mál, búnaðarlánadeild við Landsbanka Íslands

Hákon Kristófersson:

Hv. þm. V.-Sk. (JK) beindi þeirri fyrirspurn til landbúnaðarnefndar, hvað hún hefði gert af frv. hans um stofnun nýs flokks bankavaxtabrjefa. Út af þeirri fyrirspurn og ummælum hv. þm. lýsi jeg yfir því, að nefndin hefir alls ekki lagst á þetta frv. hans. En hitt er það, að nefndin vildi sjá, hversu færi um þetta frv. fyrst, áður hitt kæmi fram. En hvernig sem um það fer, þá kemur hitt frv. fram næstu daga. En ekki er fullráðið, hvaða till. nefndin gerir um það mál. Hitt get jeg þó sagt, að bankastjórnin er ekki síður mótfallin því en frv. því, sem nú er verið að ræða um, þótt á annan hátt sje.

Um brtt. þá, sem hjer er fram komin frá hv. þm. Str. (TrÞ) og hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ), er það að segja, að hún kemur ekki frá landbúnaðarnefnd, og jeg býst við því, að atkvæði hennar sjeu laus og óbundin. Þó er ástæða til þess að ætla, að meiri hluti nefndarinnar sje á móti till. Jeg sje enga meiningu í því að versla við Landsbankann um þetta mál, en það finst mjer að gert sje, ef á að veita honum þessa eftirgjöf. Nema hún eigi að skoðast sem styrkur til bankans fremur en styrkur til landbúnaðarins.

Jeg mun greiða frv. atkvæði eins og það liggur fyrir. Að vísu er lítils árangurs að vænta, eftir svari bankastjórnarinnar að dæma. En tímarnir kunna að batna, og þegar hagur bankans batnar, er ekki örvænt um árangurinn.