16.04.1924
Neðri deild: 52. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2148 í B-deild Alþingistíðinda. (1544)

67. mál, búnaðarlánadeild við Landsbanka Íslands

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg er dálítið hræddur um afdrif þessa máls, ef ekkert er að gert, og þykir mjer það ilt, því jeg vil gjarnan, að það nái fram að ganga. Jeg er hissa á þeim svörum landsbankastjórnarinnar, að það skifti engu máli, hvort vextir af lánum þessum sjeu ákveðnir 5% eða 6%, eða 1% yfir innlánsvexti. Mjer finst, að hjer hljóti að liggja það á bak við, að bankinn vilji ekki neitt fyrir málið gera. í frv. stendur ekki, að bankinn skuli leggja fram 500 þús. kr. árlega, heldur alt að þeirri upphæð. Og ef það eru ekki vextirnir, sem bankinn setur fyrir sig, þá getur það ekki annað verið en það, að hann vill ekki sinna málinu. Nema hann óttist að þurfa að leggja fjeð fram alt í einu; en til þess er ekki ætlast. Jeg vil því leyfa mjer að gera þá brtt. við frv., að vextir af lánunum megi vera alt að einum af hundraði hærri en innlánsvextir á hverjum tíma. Mjer finst, að bankinn megi vel við það una, því hann þarf ekki að óttast, að að honum verði gengið um að leggja fram alla upphæðina, ef hann getur sýnt fram á það, að hann eigi erfitt með það.

Aftur finst mjer, að brtt. hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ) og hv. þm. Str. (TrÞ) sje óaðgengileg fyrir ríkissjóð, og vil jeg skjóta því til hv. flm., hvort þeir vilji ekki taka þá till. aftur með því skilyrði, að þessi till. komi í staðinn. Með þessu móti held jeg, að málinu sje borgið. Það er ekki hægt að neita framgangi málsins af umhyggju fyrir bankanum, ef þessi till. verður samþykt.