16.04.1924
Neðri deild: 52. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2148 í B-deild Alþingistíðinda. (1545)

67. mál, búnaðarlánadeild við Landsbanka Íslands

Magnús Jónsson:

Hæstv. atvinnumálaráðherra (MG) finst nú rutt úr vegi þeim erfiðleikum, sem á því voru, að Landsbankinn gæti uppfylt þær skyldur, sem gert er ráð fyrir að leggja honum á herðar með samþykt þessa frv. Finst hæstv. atvrh. engir erfiðleikar lengur, þegar gert er ráð fyrir hærri vöxtum en 4%. En nú segir bankastjórnin einmitt í brjefi sínu til hv. landbúnaðarnefndar, að án tillits til vaxtaupphæðarinnar sjái hún sjer alls ekki fært að uppfylla þær skyldur, sem bankanum eru lagðar á herðar, ef frv. er gert að lögum. Hún gengur jafnvel svo langt, að hún segir þetta ekki fært, þó að vextirnir verði ákveðnir lægst 6%. Eða er það ekki rjett hjá mjer? (ÁJ: Jú, það er rjett).

Það var ekki nema eðlilegt, að vaxtaákvæðið væri þegar í fyrstu rætt mikið því að það lá alveg í augum uppi, að bankinn mundi blátt áfram tapa á að lána landbúnaðinum fje með 4% vöxtum. Þarf ekki annað en athuga, hvaða starfsfje bankinn hefir, til þess að sjá þetta. Er þá fyrst að nefna innskotsfje landssjóðs. Það er í raun inni ekki lánsfje, en þegar vel gengur bankastarfsemin, er það dýrasta starfsfje, sem bankinn hefir með höndum. Þá eru erlendu lánin, og vita allir, að þau eru alt annað en ódýr. Loks er innlent sparisjóðsfje, peningar á innlánsskárteinum o. s. frv. Af öllu þessu fje þarf bankinn að greiða hærri vexti en gert var ráð fyrir í frv. að hann fengi af lánum til landbúnaðarins.

En nú, þegar vaxtaákvæðinu hefir verið breytt, þá finst sumum hv. þm. öllu rutt úr vegi. En það vita þeir þó, að bankastjórnin treystist ekki til að lána þetta fje. Fyrir þinginu liggur nú frv., sem bankastjórnin sjálf mun hafa samið, um að breyta fyrirkomulagi bankans, gera hann að hlutabanka, og einn tilgangurinn með þeirri breytingu er sá, að opna möguleika til þess að auka starfsfjeð. Þetta eitt sýnir glögglega skoðun bankastjórnarinnar á því, hvort fært sje fyrir bankann að leggja árlega ½ miljón af starfsfje sínu í nýjan banka, á sama tíma, sem hún fer fram á aukið starfsfje til þeirra verkefna, sem hann hefir nú með höndum.

Hv. frsm. landbn. þótti það auðsjáanlega hart, að nefndin hefði altaf fengið nei á nei ofan hjá stjórn bankans. En mjer finst þetta ekkert undarlegt, þar sem þingið hygst að taka fram fyrir hendurnar á bankastjórninni um ráðstöfun á fje bankans. Þetta er mjer stærra atriði heldur en vaxtatapið, sem bankinn hefði orðið fyrir, ef frv. hefði verið samþykt óbreytt.

Það hefir verið talað um óþarfa viðkvæmni hjá mjer í þessu máli. Látum það vera, að jeg hafi sýnt í því viðkvæmni. Jeg ber engan kinnroða fyrir það, þar sem jeg álít, að hjer sje viðkvæmnin á rjettum stað. Er það ekki skylda hvers einasta þm. að gæta rjettar Landsbankans, þegar á hann er ráðist, og það meira af kappi en forsjá? Á undanförnum þingum hefir oft verið talað um það, að hjer á þinginu væri slegið múr utan um Íslandsbanka. Jeg tel, að þessi múr hafi verið sjálfsagður gegn óbilgjörnum árásum á bankann, og tel mjer til sóma, að hafa verið í þessum múr. En hversu miklu meiri er þá ekki þörfin á því, að slá nú múr um sjálfa bankastofnun ríkisins, þegar óviturlega er verið að hafa hönd á henni á þann hátt, sem verða má til tjóns.

Jeg vil minnast nokkuð á lánstraust bankans erlendis. Þegar ríkið þarf að taka lán, spyrja erlendir fjármálamenn jafnan fyrst að því, hvort tekjuhalli sje á fjárlögunum. Þegar bankinn þarf að taka lán, er spurt fyrst að því, hvort hann sje undir afskiftum þings og stjórnar. Þetta er eðlilegt, þar sem bankinn er ríkiseign, en þá eru menn hræddir við afskifti þess opinbera. Yrði það bankanum til ómetanlegs tjóns, að geta ekki svarað þeirri spurningu hiklaust neitandi.

Erlendis er ekki mikið um ríkisbanka. Flestir bankar eru þar einkastofnanir. Er það meðfram af því, að altaf er hætt við, að ríkisbankar eigi yfir sjer vofandi afskifti þings og stjórnar. Það dugir ekki að segja, að stjórn og þing fari vel með valdið. Afskifti pólitískra flokka af peningastofnunum þykja aldrei heppileg. Þess vegna er ekki rjett, fyrir sök smámunalegra hagsmuna, að svifta bankann að nokkru sjálfsforræði sínu. Það, að bankinn láni landbúnaðinum þessa upphæð, spillir í sjálfu sjer ekkert lánstrausti hans. En við þessi afskifti þingsins er asninn leiddur inn í herbúðirnar. (HK: Hefir það ekki verið gert að nokkru leyti fyr en nú? — TrÞ: Þetta mál hefir öðruhvoru verið á döfinni nú í 10 ár). Við skulum aðeins líta á það, hvernig pólitísku flokkarnir hafa ráðstafað fjárreiðum ríkisins. Ríkissjóður er uppetinn. Lán hafa verið tekin og uppetin. Sjóðir, sem með lögum er svo ráðstafað, að þeim skuli haldið sjerstökum, en á hinn bóginn hafa ekki verið beinlínis teknir undan valdi þings og stjórnar, eru uppetnir í óleyfi. Þannig er landhelgissjóður uppetinn og kirkjujarðasjóður uppetinn. Á nú ekki að láta staðar numið? Nei, nú vill þingið seilast í þá aura, sem undan hefir verið skotið, og sem tryggja átti sem best. Nú er byrjað að ráðstafa sáttmálasjóðnum. Og nú á að fara að eyða Landsbankanum. Nei, nú ætti að slá á þessa hönd í tíma, áður en hún fer að sóa þessu síðasta athvarfi.

En jeg get vel búist við því, að gerlegt væri, að landbúnaðinum væri látinn í tje einhver fjárhæð árlega, með hagfeldum kjörum, hvernig svo sem fyrirkomulagi þeirra lána yrði hagað. En þá verður landið að gera það. Þingið verður að veita til þess af því fje, sem það ræður yfir. Ef þar er tómt, þá ætti það að verða að þarfri hugvekju um takmörkin fyrir getu landsins, en ekki til þess, að byrja nú á enn háskalegri eyðslustarfsemi en hingað til hefir verið rekin.

Annars sje jeg á brtt. hv. atvrh., að meiri alvara muni fylgja þessu máli en jeg hafði í rauninni búist við. En frv. sjálft er svo lauslega og illa samið, að furðulegt má heita, og meðal annars af því hjelt jeg í lengstu lög, að hjer væri ekki um alvörumál að ræða. T. d. ákvæðið í 10. gr. um það, að tillagið í ár skuli aðeins vera 250 þús. kr. Það kemur eins og eftirskrift í sendibrjefi. En við samning mikilsverðra frv. dugir ekki að nota neitt sendibrjefahandahóf.

Jeg mun greiða atkvæði á móti þessu frv., og jeg vona, að hv. deild geri það yfirleitt; því að sú mun verða reyndin, að hjer sje ekki viturlega ráðið ráðum ella.