16.04.1924
Neðri deild: 52. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2152 í B-deild Alþingistíðinda. (1546)

67. mál, búnaðarlánadeild við Landsbanka Íslands

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg þarf ekki að vera langorður um þetta mál, en ætla aðeins að svara hv. 4. þm. Reykv. (MJ). Það er alveg rjett, að bankastjórnin er á móti þessu. Og mjer finst það ekkert undarlegt, að hún vilji ráða sjálf. En þrátt fyrir það, þarf bankanum ekki að stafa nein hætta af samþykt þessa frv. Er það auðsjeð mál, að þar sem bankinn fær 1% í beinan hagnað og lánin verða tryggari en önnur lán, þá skaðast hann ekki um einn eyri af þessu, heldur þvert á móti. Það, sem hv. 4. þm. Reykv. sagði um, að þetta væri hættulegt fyrir bankann, á því ekki við minstu rök að styðjast.

Þá talaði hv. sami þm. um það, hve bankinn hefði dýrt rekstrarfje. Um innskotsfje ríkissjóðs er það að segja, að græði bankinn, þá þarf hann auðvitað að borga talsvert mikið, en skaðist hann, þarf hann ekkert að borga, svo að það fje getur ekki staðið honum að neinu leyti í vegi í þessu máli. Annars er fje bankans að mestu leyti sparisjóðsfje, sem hann greiðir af venjulega sparisjóðsvexti.

Að bankinn treysti sjer ekki til að lána fjeð, er alls ekki frambærileg ástæða, því að ef lánin eru trygg, þá er ágóðinn líka tryggur. Og bankanum ber eins skylda til að styrkja landbúnaðinn og aðra atvinnuvegi, hvort sem þar er nefnd verslun eða sjávarútvegur. Það er því alls ekki rjett í þessu tilfelli að láta bankastjórnina ráða — og þingið hefir fult vald til þess að skifta sjer af því, hvernig fje bankans er varið. En um daglega starfsháttu hans dettur engum í hug að taka fram fyrir hendurnar á bankastjórninni.

Það er fjarri sanni, að hjer sje verið að ráðast á bankann. Hitt er ekki rjett að láta afskiftalaust, að landbúnaðurinn sje settur algerlega hjá um lánveitingar.

Hv. þm. Str. (TrÞ) mun svara fyrir sig, og get jeg látið þetta nægja.