16.04.1924
Neðri deild: 52. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2157 í B-deild Alþingistíðinda. (1548)

67. mál, búnaðarlánadeild við Landsbanka Íslands

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg skal vera mjög stuttorður, enda er jeg bundinn við fjárlagaumr. í hv. Ed. Það gleður mig, að brtt. 396 hefir verið tekin aftur, og þarf jeg því ekki að fara mörgum orðum um það atriði, en jeg mun ekki svara háttv. þm. Str. (TrÞ) öðru en því, að jeg álít hvorugt vera rjett, að gengið sje of nærri bankanum eða hitt, að gefa honum gýligjafir, vera að fleygja í hann svona miklu af eignum ríkissjóðs, sem þar var um að ræða. Var þetta hvort fyrir sig næg ástæða fyrir mig til þess að vera á móti þessu frv. Annars vildi jeg segja það, út af því, sem talað hefir verið um, að það væri verið að hlutast til um störf bankans með þessu frv., að það er löggjafarvaldið en ekki bankastjórnin, sem ákveður það, hvort slík lánadeild sem þessi verður stofnuð eða ekki. Jeg get alls ekki viðurkent, að það eitt að setja lög um slíkt efni sem þetta gangi of nærri starfsfrelsi bankans eða bankastjóranna; en það verður að gæta þess, að ekki sje neitt það sett í lög, sem gengur á móti venjulegum bankareglum og skynsamlegum rekstri bankans. En það var einmitt því að gegna um vaxtaákvæðin í frv., en nú hefir þessu verið breytt og hæstv. atvrh. (MG) hefir komið því atriði í betra horf; en þá er annað eftir. Er hag bankans nú svo háttað, að fært sje að bæta á hann þessum nýju verkefnum? Liggi ekki fyrir þinginu neinar skýrslur, bygðar á sjálfstæðri rannsókn þings eða stjórnar um þetta atriði, held jeg, að það verði að taka umsagnir bankastjóranna um þetta trúanlegar. Bankastjórnin telur þetta alls ekki fært nú, og meðan annað ekki liggur hjer fyrir upplýst um þetta, er hnekki þessari umsögn bankastjórnarinnar, verður að byggja á henni. (TrÞ: Það má vel sjá hag bankans á reikningum hans). En þeir eru ekki komnir út fyrir árið 1923, en jeg skal hjer geta þess, að bankastjórnin hefir nýlega tjáð mjer, að sparisjóðsfje bankans hafi á árinu 1923 minkað um 2 milj. kr., og vegna þess hafi hann ekki handbært fje til útlána, sem ekki er heldur að vænta, úr því svona er ástatt. Þetta er þungamiðjan í svari bankastjórnarinnar, að hún sjer það ekki fært, að bankinn leggi fram þetta fje til þarfa landbúnaðarins. Breyting vaxtakjaranna hefir því engin áhrif í þessu efni, þegar bankastjórnin segir svona afdráttarlaust, að fje sje ekki til.