16.04.1924
Neðri deild: 52. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2158 í B-deild Alþingistíðinda. (1549)

67. mál, búnaðarlánadeild við Landsbanka Íslands

Jón Kjartansson:

Jeg vona, að jeg megi þakka hv. form. landbn. (HK) fyrir það svar hans, að nefndin ætli sjer ekki að setjast á frv. mitt um bankavaxtabrjefin; það er ekki skylt þessu máli, sem hjer er nú rætt um, og getur því vel gengið fram, þótt þetta frv. um búnaðarlánadeild verði samþykt.

Þá ætla jeg ekki að svara hv. þm. Str. (TrÞ) mörgum orðum. Jeg get fullvissað hann um það, að hann fær mig aldrei til þess að gera blaðagreinar mínar eða annara að umræðuefni hjer í þingdeildinni, og allra síst þegar hann hefir saurgað þinghelgina með þessum staðlausa þvættingi sínum, sem hann er enginn maður til þess að standa við. Hinsvegar held jeg, að við ættum báðir að geta orðið ásáttir um það: að leggja það undir dóm þjóðarinnar, hvern sóma þingið hefir af setu okkar hjer, og að leggja það undir dóm flokkanna okkar, hvors fyrir sig, hvern sóma flokkarnir hafi af því að hafa okkur meðlimi. Þá ættum við í þriðja lagi að geta orðið ásáttir um: að leggja blaðamensku okkar beggja undir dóm þjóðarinnar. Blaðamenska mín er að vísu stutt, en hans er orðin alllöng, og hefir ef til vill fengið sinn dóm hjá þjóðinni. En eitt viðurkenni jeg þó, að þessi hv. þm. hefir fram yfir mig og fram yfir alla aðra þm. hjer í þessari hv. deild: Hann hefir ítrekað saurgað þinghelgina. En jeg öfunda hann ekki af því, og jeg öfunda hann ekki af því að eiga að leggja það undir dóm þingbræðra sinna og dóm þjóðarinnar.