01.04.1924
Neðri deild: 39. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í B-deild Alþingistíðinda. (155)

1. mál, fjárlög 1925

Klemens Jónsson:

Hæstv. fjrh. (JÞ) hefir nú loks fengið tækifæri til að uppfylla það loforð, sem hann hefir að minsta kosti tvisvar fundið ástæðu til að gefa mjög hátíðlega, um að athuga nánar einhver ummæli í framsöguræðu minni við 1. umr. fjárlaganna.

Jeg verð að segja, að jeg gat fyrst ekki almennilega áttað mig á, hver þessi atriði í ræðu minni voru, sem sjerstaklega gátu gefið honum ástæðu til andsvara. En jeg gat mjer þess til, að það væru skuldirnar, sem jeg drap lauslega á í ræðu minni, sem hann þyrfti að athuga. Jeg skal viðurkenna, að það var aldrei ætlun mín að rannsaka það mál nákvæmlega, enda var mjer þess engin þörf, til þess að ná tilgangi mínum. Þegar mjer við fyrstu rannsókn reyndist tekjuhallinn 1920–1922 6½ milj. kr., þá ætlaði jeg satt að segja ekki að trúa þessu. Jeg átti því tal um þetta við greindan mann og gætinn og nákunnugan reikningum landsins og bað hann að athuga þetta nánar. Hann tók málið til rannsóknar og komst að sömu niðurstöðu og jeg. Jeg veit líka, að endursamning hæstv. fjrh. hefir ekki hlotið einróma samþykki þeirra, sem til þekkja. Hann hefir fylgt sinni eigin aðferð, en mjer er kunnugt um, að ríkisbókhaldið vill ekki viðurkenna, að sú aðferð sje nákvæm. Það, sem jeg vildi með minni skýrslu sanna, var það, að tekjuhallinn hjá okkur hefði vaxið svo, að ógerningur væri að halda áfram á þeirri braut. Og fleirum en mjer var það ljóst, að við svo búið gæti ekki staðið. Hitt hafði mjer aldrei dottið í hug, að rannsaka upp á eyri, hvað tekjuhallinn hefði vaxið einmitt þessi ár. Það var óþarfi, því að það var nákvæmlega kunnugt um allar skuldir landsins í árslok 1923 með þáverandi gengi, og það var aðalatriðið.

Viðvíkjandi útreikningnum skal jeg annars taka það fram sjerstaklega, að jeg sje ekki betur en að endurborguð lán þurfi ekki altaf að telja til tekjuhalla. Og jeg hygg, að með rökum mætti finna talsvert lægri tölur en hæstv. fjrh. kom með. Annars finn jeg ekki ástæðu til að rökræða, hvort einstakar tölur eru rjett settar eða ekki. Aðalatriðið er, að nú er oss nauðsyn að draga saman seglin og reyna að fara að borga.

Hvað tekjuhallann 1923 snertir, þá tók jeg það fram í skýrslu minni, að utan hins eiginlega tekjuhalla, 1381000 kr., bæri eiginlega líka að telja það, sem Landsverslun hefði afborgað, því það hefði orðið eyðslueyrir, og yrði hann þá um 2 milj. kr. Jeg held því, að varla verði sagt, að jeg hafi farið með villandi skýrslur, enda hefir enginn gert það. Hæstv. fjrh. taldi skýrsluna frá þáverandi fjrh. á þingi 1923 hafa verið næsta villandi, og er jeg sömuleiðis þeirrar skoðunar, að þar hafi í sumum greinum verið farið of langt; hún hafi í nokkrum atriðum verið fullbjartsýn. En aðgætandi er, að það er mikið komið undir persónulegri skoðun manna þeirra, sem skýrslurnar gefa, hvernig þær eru. Mennirnir eru mjög misjafnir, sumir sjá ekkert nema torfærur, þar sem öðrum finst alt vera greitt, og vice versa. Jeg hygg, að þessi ráðherra, sem skýrslurnar gaf, hafi verið einn úr flokki þeirra, sem líta fullbjörtum augum á hlutina. Jeg ætla samt ekki að fara að verja hann neitt. Þó hann eigi ekki sæti hjer, þá er honum innan handar að koma annarsstaðar vörnum fyrir sig.

Ekki er mjer kunnugt um það, að það hafi verið tíska, að hver ráðherranna úr hinum 3 þingflokkum hafi jafnan verið vitandi um fjárhaginn út í æsar. Auðvitað ætti það að vera skylda hvers fjrh. að gefa hinum ráðherrunum skýrslu um fjárhaginn öðru hverju, einkum ef hann er athugaverður, og er gott til þess að vita, að það verði venja, ef það þá ekki gleymist.

Hæstv. fjrh. vjek mörgum orðum að því, hverjum þessi tekjuhalli væri að kenna. Því þarf jeg ekki að svara, því hann beindi því ekki til mín, enda hefi jeg aðeins gegnt ráðherrastörfum 2 síðustu árin, en ekki átt sæti á undanförnum þingum. Sannleikurinn er sá, eftir minni meiningu, að hann er engum einstökum manni að kenna. Hann er báðum aðiljum, stjórnum og þingum að kenna. Ef til vill hefir Alþingi 1919 verið sekara en stjórnin um fjárausturinn. En þess er þó að gæta, að finnist einhverri stjórn, að úr hófi keyri, þá hefir hún altaf það ráð að segja af sjer, til að forðast ábyrgðina. Dómur sögunnar býst jeg við að verði sá, að hinn illi fjárhagur sje fyrst og fremst að kenna stjórn og þingi 1919.

Fleira hefi jeg ekki ástæðu til að taka fram um þetta svo sem sakir standa.

Háttv. fjvn. hefir þegar tekið afleiðingunum af nýju lögunum um gengisviðaukann og áætlar tekjur samkvæmt honum 380 þús. kr. Hygg jeg þetta mjög gætilega farið. Reikningslega ætti liður þessi að vera talsvert hærri, en hinsvegar má gera ráð fyrir minni innflutningi og hóflegri neyslu þessara vörutegunda eftir að tollurinn er kominn á.

Þá vildi jeg benda hv. Ed. á, hvort ekki væri ástæða til að hækka nokkuð 7. gr. fjárlaganna. Er þar reiknað með miklu lægri upphæð en nú verður að gera. Auðvitað veit enginn, hvað gengið verður næsta ár, en því miður er nú sem stendur lítið útlit fyrir, að það hækki. Og eins og það er í dag, er þetta rangur útreikningur. Teldi jeg því varlegra að reikna hvert sterlingspund á kr. 33,50 að minsta kosti. Jeg skýt því til hv. Ed. að taka þessa bendingu til greina.

Þá leggur hv. fjvn. til, að upphæðin, sem ætluð er til að standast kostnaðinn af framkvæmd berklavarnalaganna, sje tvöfölduð. Nú stendur svo á, að frv. er komið fram frá mjer um breyting á lögum þessum, og miðar það að því að flytja nokkuð af byrðinni yfir á sveitir, sýslur og einstaklinga. Veit jeg þó ekki, hvort vert sje að áætla þessa upphæð lægri, enda vansjeð ennþá um forlög frv.

Þá hefir hv. samgmn. látið til sín heyra og eru frá henni komin tvö nál. Fullhátt finst mjer tillagið til Esju sje áætlað, og vona jeg, að ekki fari svona mikið fje til hennar. — Hvað bátaferðum á flóum viðvíkur, þá mun mega gera ráð fyrir, að 60 þús. kr. sje fulllágt. Eru það aðallega þrír bátar, sem þarf að styrkja ríflega: Borgarnesbátur, Djúpbátur og Skaftfellingur. Jeg sje, að hv. minni hluti nefndarinnar hefir gert áætlun um, hve mikið þurfi að greiða til þessara bátaferða. Hygg jeg, að hún sje alt of lág. Að minsta kosti má fullyrða, að e/s Suðurland fáist ekki útgert til Faxaflóaferðanna fyrir 18 þús. kr. Nefndin hefir þá hlotið að gera ráð fyrir, að mótorbátur annaðist ferðir þessar. En það tel jeg hið mesta óráð. Bæði er það, að flutningur á vörum er mikill milli þessara staða, og auk þess yrði þá nauðsynlegur fólksflutningur að falla niður. Að öllu athuguðu er mjer nær að halda, að 60 þús. kr. áætlunin sje of lág, og mun því greiða atkvæði með brtt., sem hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) og fleiri hafa borið fram, um að hækka lið þennan upp í 65 þús. kr.

Þá ber hv. 3. þm. Reykv. (JakM) fram viðaukatill. um nýjan lið til talsímakvenna við bæjarsímann, sem er uppbót á launum þeirra. Jeg hygg, að þetta sje það starfsfólk ríkisins, sem sje langlægst launað að tiltölu, og því álít jeg fylstu sanngirni mæla með þessari till. Það er raunar altaf illa þokkað, þegar einhver einn flokkur er tekinn út úr launakerfinu, en hjer stendur þó svo sjerstaklega á, að þessi flokkur er svo miklu ver launaður en aðrir og svo lágt launaður, að ef þessar stúlkur væru hjer ekki flestar á vegum foreldra og vandamanna, þá væri óhugsandi, að þær gætu lifað af launum sínum.

Enn hafa þeir hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) og hv. 1. þm. N.-M. (HStef) komið fram með till. um að fella niður skálda- og listamannastyrkinn. Jeg verð að dást að hugrekki þeirra, því satt að segja hafði jeg einmitt sterka löngun til hins sama. en það heyrði ekki undir mig, og því gat jeg ekki komið því fram, þó jeg vildi. En jeg held, að við getum skammlaust hætt því eitt ár að styrkja þessa menn, og eins ættu þeir að geta sætt sig við það, að missa spón úr askinum sínum, eins og svo fjöldamargir aðrir nú á tímum. Mun jeg því greiða atkvæði mitt með þessari till., og verðum við þá – líklega – þrír á báti. Annars get jeg búist við að heyra raddir um skrælingjaskap og fleira þvílíkt fyrir slíkt tiltæki, en læt mjer það í ljettu rúmi liggja.

Jeg hafði búist við, að fram kæmi miðlunartillaga um styrkinn til Jóhannesar Lynge, en sje, að svo hefir ekki orðið, og get jeg því á engan hátt samþykt tillögu hv. 3. þm. Reykv. (JakM). Hún fer fram á svo gífurlega hækkun, að engu tali tekur.

Að því er útgjöldin til fjárkláðalækninga snertir, þá hefir hv. fjvn. nú fært þau niður í 10 þús. kr. Við þá upphæð get jeg sætt mig; en þó er hún fullhá, ef ekkert verulegt á að gera.

Hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) ber fram brtt. XXXIII, þar sem svo stendur, að „af upphæðinni skal 500 kr. varið til kenslu á Ísafirði fyrir skipstjóraefni á smáskipum.“

Jeg vildi spyrja, hvort þessi meinlausa og saklausa aths. þarf að standa í fjárlögunum. Það virðist liggja í augum uppi, að Fiskifjelagið geri þetta án þess það standi þarna, því það hefir mikið fje undir höndum, hlutfallslega meira en Búnaðarfjelagið. Í fyrra átti það tugi þúsunda í sjóði, og virðist mjer auðsætt, að hægt verði að fá þessa upphæð, sem í sjálfu sjer er lítilsvirði, frá því. (JAJ: Það er ætlast til þess). Já, þá finst mjer þessi aths. óþörf.

Brtt. XXXIV er nýr liður, sem hv. fjvn. vill setja inn og ræðir um eftirlit með skipum og bátum. Þessi brtt. er nauðsynleg og sjálfsögð. Nýlega hafa verið settar hjer ítarlegar reglur um slíkt eftirlit. Eigi slíkar reglur ekki að verða tómt, þarflaust pappírsbákn, þá þarf að fá einhvern mann til að hafa eftirlitið með höndum. Það stendur nú svo vel á, að við höfum þennan mann við hendina, þ. e. Ólaf Sveinsson, sem þessu er nákunnugur og samið hefir reglurnar.

Þá vildi jeg minnast örfáum orðum á brtt. XLII,1, sem fer fram á það, meðal annars, að styrkurinn til Indriða Einarssonar falli niður. Jeg veit ekki betur en að upphæð þessi sje í senn eftirlaun til þessa gamla embættismanns, eftir 30–40 ára þjónustu, og viðurkenning á starfi hans í þágu bókmenta og hagfræði. Skilst mjer, að ekki komi til nokkurra mála að hagga við þessu, og vil jeg skjóta því til hv. flm. (HStef) að taka till. aftur.

Sami hv. þm. flytur brtt. XLVII, um að dýrtíðaruppbót á ýmsum liðum falli burt. Er jeg þessu samþykkur að því er ýmsa liði snertir, en langt frá því um þá alla, því það er erfitt að fella burt nú, einmitt þegar dýrtíðin fer vaxandi, svo líklegt er, að uppbótin verði meiri 1925 en í ár, uppbótina til margra á þessum liðum, þar sem um ekkjur, börn og fátæklinga er að ræða. Annað mál er, hvort uppbótin hefði átt að koma inn á þessa liði.

Jeg vil að síðustu drepa á brtt. LIII, þ. e. heimildina til að greiða Eimskipafjelagi Íslands alt að 60 þús. kr. styrk, ef nauðsyn krefur. Jeg verð að taka undir það með ýmsum öðrum, að fjelag þetta er, eða var að minsta kosti, óskabarn þjóðarinnar, en hefir þó lítilla hlunninda notið fyr en nú upp á síðkastið. En þá hefir líka verið hlynt að því til muna, og mjer virðist það vera að bera í bakkafullan lækinn að verða við þessu, þegar búið er að samþykkja að veita því 45 þús. kr. Einnig liggur fyrir beiðni um skattfrelsi frá sama fjelagi, og eru líkindi mest á því, að hún nái fram að ganga.

Mjer finst því til fullmikils mælst, að fara enn að veita fjelaginu 60 þús. kr., ef nauðsyn krefur. Hver á að dæma um þá nauðsyn? Vitanlega hæstv. fjrh. Jeg hefi þurft að meta hana á mínum tíma, því þetta stendur í fjárlögunum í ár. Mjer virtist hún vera fyrir hendi og efast ekki um, að eins fari fyrir hæstv. fjrh., og mætti því þetta falla burt fyrir þá sök. Sem sagt, mjer finst nóg búið að styrkja fjelagið að þessu sinni, þó að þessu verði ekki bætt við. Má það og að sumu leyti sjálfu sjer um það kenna, hversu þröngur fjárhagur þess er; það rjeðst í það alveg að óþörfu að byggja stórt hús á dýrasta og versta tíma.

Niðurstaðan af þessu, sem jeg hefi sagt um brtt., er sú sama og áður; jeg mun fylgja hv. fjvn. í flestu eða öllu, en hvað snertir afstöðu mína til annara brtt., frá einstökum þm., þá mun jeg nú eins og við 2. umr. yfirleitt greiða atkv. með lækkunartill., en á móti hækkunartill.