16.04.1924
Neðri deild: 52. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2164 í B-deild Alþingistíðinda. (1552)

67. mál, búnaðarlánadeild við Landsbanka Íslands

Jakob Möller:

Jeg er sama sinnis nú sem áður, og tel því rjett að samþykkja þetta frv. Það er að vísu kunnugt, að Landsbankastjórnin hefir lagt á móti þessu máli og telur það ekki vera í samræmi við almennar bankareglur. Hinsvegar er það kunnugt, að bankinn hefir veitt lán gegn mismunandi háum vöxtum, og ef nú vextirnir af þessum lánum verða ákveðnir 1% hærri en sparisjóðsvextir, álít jeg, að þeir sjeu ekki orðnir lægri en venjulegir fasteignaveðlánavextir bankans. En aðalatriðið er það, hvort þetta yrði til að spilla áliti bankans erlendis, eins og háttv. 4. þm. Reykv. hefir haldið fram; en jeg get ekki skilið, að það sje á neinum líkindum bygt.

Mjer er óskiljanlegt, hvernig það út af fyrir sig ætti að geta spilt áliti bankans út á við. Öllum lánardrotnum hans hlýtur að vera kunnugt um það, að bankinn er ríkiseign og er gefinn undir löggjafarvaldið, og það getur auðvitað farið með hann eins og því sýnist. Spurningin er þá aðeins þessi, hvort ríkisvaldið fer óforsvaranlega að ráði sínu við bankann með þessu. En frá mínu sjónarmiði getur það ekki álitist, allra síst þar sem bankanum eru opnaðar útgöngudyr með tilliti til Ríkisveðbankans, sem eiginlega er stofnaður með 1. 1922. Það má ekki síður deila um það, að hverju gagni kæmi stofnun nýrrar veðdeildar og skylda bankans til að kaupa veðdeildarbrjefin; er það auðvitað eins mikið brot á almennri bankastarfsemi eins og það, sem hjer er um að ræða. Það er brot á venjulegri bankastarfsemi að binda bankann með hvað mikið af veðbrjefum hann skuli kaupa og með hvaða verði. Venjulega kaupir hann þau eftir því, sem hann sjer sjer fært í þann og þann svipinn, og ákveður afföllin þá í hlutfalli við vextina.

Þegar annars er verið að tala um það, hvað hættulegt sje fyrir þingið að fara að „disponera“ yfir fje bankans, þá er ástæða til að athuga það, hvernig farið hefir verið að við bankann áður. Á sínum tíma var bankinn látinn taka 2 milj. kr. lán til rekstrarfjárauka, en ríkissjóður tókst á hendur að greiða lánið á 20 árum, gegn því að fá hlutfallslegan arð af rekstri bankans. Með þessu var bankinn látinn taka dýrara lán en þekst hefir, og þó bætist þar við, að nú verður bankinn að greiða gengismun á íslenskum og dönskum krónum, sem núna er að minsta kosti 20%. Og hvort sem um lán er að ræða eða ekki, þá er bankanum gert að skyldu að greiða ríkissjóði, ekki eins og hlutabankar gera, heldur eftir því, sem arðurinn kemur út. Í framkvæmdinni hefir það orðið svo, að Landsbankinn hefir borgað meiri vexti af innskotsfje sínu en hinn bankinn af sínu hlutafje.

Það hefir verið sagt hjer, að sjerstaklega illa muni standa á fyrir bankanum nú hvað innstæðufje snertir. Venjan er sú, að upphæð þess er nokkuð á reiki, eftir því sem efnahagur manna er í þann og þann svipinn. Og eftir þeim upplýsingum, sem jeg hefi fengið, mun sparisjóðsfje hafa vaxið það sem af er þessu ári um af því, sem það minkaði síðastliðið ár. Jeg hygg, að meðalársvextir, sem bankinn greiðir af starfsfje sínu, sje 6%, þegar tekið er tillit til þess, að sparisjóðsfjeð er hlutfallslega meira en það útlenda fje, sem bankinn starfar með. Jeg get þó ímyndað mjer, eins og jeg hefi áður tekið fram, að bankanum muni vera óhægt að leggja fram þetta fje fyrsta árið, og því væri ef til vill ástæða til að fresta framkvæmdum þangað til síðar. En sýnist þetta svo og sjái bankinn sjer þetta ekki fært, þá er sú leið opin að stofna Ríkisveðbankann.