16.04.1924
Neðri deild: 52. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2169 í B-deild Alþingistíðinda. (1554)

67. mál, búnaðarlánadeild við Landsbanka Íslands

Bernharð Stefánsson:

Jeg ætlaði mjer ekki í fyrstu að leggja neitt til þessara mála, en nokkur orð í ræðu hæstv. fjrh. (JÞ) hafa komið mjer af stað. Hann sagði okkur, eins og raunar var áður kunnugt, að Landsbankinn bæri á móti því, að hann gæti lagt fje fram í þessu skyni, og sagði, að ef við ætluðumst samt til þess, að hann gerði það, þá yrðum við að sanna hið gagnstæða. En jeg lít svo á, að meðan Landsbankinn á inni í Íslandsbanka meira fje en það, sem hjer um ræðir, og ekki er næg sönnun færð fyrir því, að það fje þurfi þar að vera, þá eigi sönnunin fyrir þessum vanmætti bankans að koma frá honum sjálfum. Hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) mintist á þetta sama og taldi bankanum nauðsynlegt að geyma þetta fje sitt þarna til tryggingar sparisjóðsinnieignum. En hvað sem um þetta kann að vera, þá liggur mjer við að efast um, að Landsbankinn hafi lagt fje sitt inn í Íslandsbanka í þessu skyni. Og undarlegt er það, að mjer er kunnugt um, að tveir merkir þm., sem voru í fyrra spurðir um ástæðuna fyrir þessari ráðstöfun bankans, gátu ekkert um það sagt. Fyndist mjer því vel við eigandi, að þetta væri rannsakað til hlítar áður en því væri slegið föstu af þingi og stjórn, að bankinn gæti ekki lánað þetta fje út. Og ekki er það nema eðlilegt, að bændum komi það kynlega fyrir sjónir, að samtímis því, að bankinn telur sig ófæran til að veita þeim eyrislán, hversu vel trygt sem það er, þá hefir hann efni á að láta fje sitt liggja í Íslandsbanka á mjög lágum vöxtum. Það er auðvitað, að bankinn verður jafnan að hafa eitthvert fje laust. En hinsvegar er ekki vitað, að þetta fje sje altaf laust. Jeg held því, að þessi viðskifti bankanna þyrftu betri skýringar við til að jeg gæti fallist á það, að fjeð væri ekki fyrir hendi.

Það er raunar ýmislegt fleira, sem jeg hefði viljað taka fram í sambandi við þetta mál, en skal þó láta staðar numið. En jeg vildi að lokum taka undir það með hv. þm. Borgf. (PO), að verði þetta frv. að lögum, þá vona jeg, að hæstv. stjórn sjái um, að þau verði ekki einskisverð pappírsákvæði, heldur látin koma til framkvæmda. Og þótt jeg sje stjórnarandstæðingur, eins og hv. þm. er kunnugt, þá er mjer samt engin launung á því, að jeg ber hið besta traust til hæstv. atvrh. (MG) hvað þetta mál snertir.