16.04.1924
Neðri deild: 52. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2170 í B-deild Alþingistíðinda. (1555)

67. mál, búnaðarlánadeild við Landsbanka Íslands

Tryggvi Þórhallssom:

Mjer er óblandin ánægja að vita til þess, hvað örugg og föst sóknin hefir verið í þessu máli. Er þess því að vænta, að það gangi vel fram, og get jeg tekið undir það með hv. þm. Borgf. (PO) og hv. 2. þm. Eyf. (BSt), að það er gott að mega vænta áframhaldandi stuðning hæstv. atvrh. (MG) í máli þessu.

Þegar brtt. kom fram frá hæstv. atvrh., þá tókum við hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ) fúslega aftur okkar till. Frá okkar hálfu var ætlunin aðeins sú, að stíga spor í áttina til samkomulags, til þess að síður væri hætta á, að málið strandaði. En ljúft er okkur auðvitað að fara þessa leið, því þar er skrefið stigið nær óskum háttv. deildar, og því líklegra til sigurs.

Hv. 4. þm. Reykv. (MJ) hefir ráðist gegn frv., og hefir hæstv. atvrh. og fleiri svarað honum að nokkru, og sömuleiðis er hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) honum andstæður í meginatriðinu, því, að þingið megi ekki hafa afskifti af bankanum. Hv. 4. þm. Reykv. hræðist það, að erlendir skuldheimtumenn bankans spyrji bankastjórana um þessi viðskifti bankans og ríkisvaldsins. Þetta má vel eiga sjer stað. En hverju svarar bankastjórnin: Jú, bankinn lánar samkvæmt tilmælum Alþingis ca. ½ milj. kr. á ári gegn fullum tryggingum til landbúnaðarframkvæmda o. s. frv. Þetta eru þær upplýsingar, sem bankinn hlýtur að gefa, og jeg hika ekki við að fullyrða, að þær muni hækka álit bankans í augum hinna erlendu lánardrotna, því að það er viðurkent um heim allan, að landbúnaðarlán eru tryggust allra lána.

Þá á jeg aðeins eftir þetta „postscriptum,“ sem hv. 4. þm. Reykv. (MJ) var svo fyndinn að nefna þannig. Hann hefir sjálfsagt ætlað að hitta þarna naglann á höfuðið, en hann hefir ekki veitt því eftirtekt, að það er algengt að setja bráðabirgðaákvæði síðast í lögum. Eins stóð hjer á; ákvæðið átti ekki heima í sjálfu frv. Annars held jeg, að þó mjer hefði þarna orðið á einhver formleg skyssa, þá hefði það í sjálfu sjer verið ákaflega smávægilegt atriði.

Þá vil jeg víkja nokkrum orðum að hv. þm. N.-Ísf. (JAJ). Hann ræddi málið með stillingu og gætni. Vildi hann fara aðra leið en þá, sem hjer er farin, og láta bankann kaupa veðdeildarbrjef. En eins og hv. deild hefir heyrt, þá eru svör bankastjórnarinnar þessu viðvíkjandi mjög ófullnægjandi. Og reynslan hefir sýnt, að þetta er engin úrlausn málsins. Enda benti jeg á það áður, að brjefin í síðasta veðdeildarflokki hafa fallið stórkostlega í verði og um 1 milj. kr. er enn óseld af þeim.

Nokkrum orðum vil jeg loks enn víkja að hv. þm. V.-Sk. (JK), og verð jeg þó að játa, að jeg geri það þrátt fyrir hálfgerð mótmæli frá samviskunni, því jeg hefi aldrei vitað neinn hv. þm. bera sig jafnilla og geta eins lítið bitið frá sjer, er hann hefir orðið fyrir jafnþungum orðum og jeg lagði á hv. þm. V.-Sk.

Hv. þm. kvaðst ekki vilja draga blaðagreinar inn í þingið, og sagði mjög skjálfraddaður, að ekki vildi hann vitna í þær, — en fyrir fáum dögum síðan las hann sjálfur upp langan kafla úr tímaritsritgerð og ljet hörð ummæli fylgja. Sje jeg ekki mikinn mun á slíkum greinum. Enda veit hv. þm. það sjálfur, að þetta var algerlega haldlaus fyrirsláttur.

Hv. þm. sagði, að jeg hefði saurgað þinghelgina. Það hefir þá verið helst með því, að jeg nefndi þessa dönsku kaupmenn, sem nú er sannað um, að ráða einu helsta blaði hjer í landi og eru yfirstjórnendur þess. En hvor okkar mun þá hafa saurgað þinghelgina meir — jeg, sem aðeins hefi nefnt þá, eða hv. þm. V.-Sk. sem hefir gengið undir ok þeirra?

Jeg vil líka minna hv. þm. (JK) á, að hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ) talaði um, að hann (JK) hefði komið á ösnu hjer inn í deildina og fengið hræðilega útreið. Þetta voru fyllilega rjettmæt ummæli. Jeg rjeðst ekki á hv. þm. (JK) að fyrra bragði. Hann gaf tilefnið með gersamlega órökstuddum ummælum, svo jeg varð að gera það sama og Þorgeir Hávarðsson, en Þorgeir Hávarðsson henti það, að hann drap mann af því, að hann lá svo vel við höggi. Því það er víst, að enginn annar maður á landinu — að einum undanskildum — og alls enginn á þingi liggur eins vel við höggi og hv. þm. V.-Sk. Og þó er einn munur á honum og manni þeim, sem Þorgeir drap: Hv. þm. V.-Sk. mun altaf liggja eins vel við höggi meðan hann er undir hinu danska oki. Hvenær sem einhver sjer grein í blaði hv. þm. og skrifaða af honum, verður honum á að spyrja: Hver hefir skrifað þessa grein? Hefir hún verið endurskoðuð uppi í húsi Nathan & Olsen! Er hún gerð samkvæmt stjórnarboði!

Jeg get minst á það, að í Morgunblaðinu var talað um „Íslendingabók“, sem sýna ætti þm. í dag. En í gær var birt „Danskbogen“, og hún skýrir frá, hverjir töglin hafa við Morgunblaðið og á hv þm. Það eru dönsku mennirnir.

Hv. þm. eru orðnir órólegir, og ef til vill hefi jeg farið helsti langt út í þetta, en jeg hefði ekki hnept svona að hv. þm. V.-Sk., hefði hann ekki verið fyrri til að ráðast á mig. — (Forseti (PO): Jeg vil minna menn á að halda sjer við málið, sem fyrir liggur).