16.04.1924
Neðri deild: 52. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2180 í B-deild Alþingistíðinda. (1558)

67. mál, búnaðarlánadeild við Landsbanka Íslands

Jón Kjartansson:

Jeg fyrirgef háttv. frsm. landbúnaðarnefndar (ÁJ) það, þótt hann færi með rangt mál í sinni ræðu, vegna þess að hann var reiður, er hann flutti hana. Hann talaði um, að illa sæti á mjer að veitast gegn þessu frv., þar sem jeg væri þingmaður landbúnaðarhjeraðs. Jeg hefi ekki talað á móti málinu, einungis bent á gallana í frv. og óttast, að frv. mundi ekki koma að gagni, þótt yrði að lögum. Landbúnaðurinn má ekki gjalda þess, að illa sje á málum hans haldið. Jeg hefi óttast, að þetta verði pappírslög. Jeg hefi nú hvorki meira nje minna en stjórn Landsbankans fyrir mjer í því, að þetta sje skrípaleikur. Bankastjórnin hefir sagt, að hv. þm. Str. (TrÞ) hafi látið í ljós, að hann gerði sjer að vísu ekki vonir um, að málið næði fram að ganga, en þó myndi hann beita sjer fyrir því, til að sýna bændum áhuga sinn. (TrÞ: Fullkomin ósannindi). Jeg hefi, eins og jeg sagði, bankastjórnina fyrir mjer í þessu og hverf ekki frá því.