01.04.1924
Neðri deild: 39. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í B-deild Alþingistíðinda. (156)

1. mál, fjárlög 1925

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg vil þakka hæstv. forseta það, að hann leyfir mjer að taka nú strax til máls og spyrna frá mínum dyrum. Jeg kvarta heldur ekki undan því, að hæstv. fjrh. skyldi nota þetta tækifæri til þess að kasta orðum að mjer. En mjer datt í hug, einkanlega þegar fór að líða á ræðu hæstv. fjrh., gömul saga:

Er sagt, að þeir Páll Ólafsson og Jón á Þingeyrum hafi eitt sinn verið staddir á bæ, og er stigið var á bak til burtferðar, fór einn svo geyst, að hann fjell af baki. Þau köstuðu þá fram þessari vísu, skáldin:

Best er að fara stilt af stað,

steyptist einhver þarna;

skyldi’ hann hafa hálsbrotnað,

helvítið að tarna.

Þó að jeg sje yngri og óreyndari en hæstv. fjrh. og óviðbúinn að svara þessari miklu ræðu hans, finst mjer jeg verða að leggja honum þá lífsreglu, að best sje að fara stilt af stað. Og því meiri ástæða er til þessa, þar sem ræða hans var þrauthugsuð, niðurskrifuð, upplesin; var því vart fljótfærni um að kenna, en þess þyngra verður að dæma hana, ef ekki er farið nógu stilt af stað.

Já, orð hæstv. fjrh. voru ekki vanhugsuð, þau voru hugsuð eins og hann getur hugsað best, en því þyngra verður að taka á því, sem ljettvægt reynist.

Það, sem mjer viðkom af ræðu hæstv. fjrh., kom og við öðrum manni, sem hann kallaði hv. 1. þm. Skagf., og mun jeg nefna þann mann svo nú, samræmisins vegna.

Datt mjer í hug önnur vísa út af því, hvernig hæstv. fjrh. fórst nú við þann mann, 1. þm. Skagf., í sambandi við það, hvernig honum hefir áður farist við hann.

Hæstv. fjrh. er alinn upp á guðræknu heimili og kann sjálfsagt þá vísu, því hún er úr Passíusálmunum (XII, 17) og hljóðar svo:

Lætur hann lögmál byrst

lemja og hræða,

eftir það fer hann fyrst

að friða’ og græða.

Þetta er sú uppeldisaðferð, sem hæstv. fjrh. hefir beitt við hv. 1. þm. Skagf. (MG). Fyrst hefir hann lamið hann með byrstu lögmáli, nú fer hann loks að friða og græða.

Stóra ræðan, sem hæstv. fjrh., þáverandi hv. 1. þm. Reykv., flutti rjett fyrir þingbyrjun, gat ekki skoðast öðruvísi en sem árás á fyrv. fjármálastjórnir, og þá einna helst hæstv. forsrh. (JM) og fyrv. hæstv. fjrh., núverandi hæstv. atvrh. (MG), og það, að þegar stjórnarskiftin urðu, kom hæstv. fjrh. (JÞ) hv. 1. þm. Reykv. (JÞ) í þann sess, en ekki hv. 1. þm. Skagf., eins og áður, gat heldur ekki skoðast annað en árás á hv. 1. þm. Skagf.

Hæstv. fjrh. vildi nú fara að fullnægja síðari helming vísunnar, með því að taka upp varnir fyrir hv. 1. þm. Skagf. gegn Tímanum. En þetta var ekki rjett hjá hæstv. fjrh., að hann væri að verja hv. 1. þm. Skagf. fyrir Tímanum, því Tíminn hefir ekki annað gert en að benda á tölur þær, sem hæstv. fjrh. hefir látið á þrykk út ganga og tala ljóst um stjórnarstörf hv. 1. þm. Skagf., og í öðru lagi hefir Tíminn aðeins bent á, hver ásökun lægi í því, að hæstv. fjrh. setti sjálfan sig í fjármálaráðherrastólinn, en ekki hv. 1. þm. Skagf. Þessi stóra vörn hæstv. fjrh. fyrir hv. 1. þm. Skagf. er því sú, að hann er að verja hann fyrir ræðu þeirri, sem hv. 1. þm. Reykv. hjelt í þingbyrjun. Þessi stóra vörn hæstv. fjrh. fyrir hv. 1. þm. Skagf. er því sú, að hann er að verja hann fyrir þeim manni, er nú tók frá hv. 1. þm. Skagf. fjármálaráðherrasessinn. Hæstv. fjrh. er að verja hæstv. atvrh. fyrir sjálfum sjer.

Jeg ætla aðeins að stikla á stóru á þeim afsökunum, sem hæstv. fjrh. bar fram fyrir stjettarbróður sinn. Þá er að minna á það, sem hann hefir oftar vitnað í — tölurnar. Kom hjer enn í ljós, að hann vill fá þær inn í Þingtíðindin, og þá að sjálfsögðu hafa þau prentuð. Nú er gott að minnast talnanna. Hæstv. fjrh. sagði, að ljóst væri, að á 3 árum, eða 1920–1923, hefði orðið 9 milj. kr. tekjuhalli, að viðbættu tapi á skipakaupum. En 2 þessi ár var hv. 1. þm. Skagf. fjrh. Verður því hæstv. fjrh. að standa upp aftur og halda enn skörulegri ræðu, ef hann vill koma mjer í skilning um, að þetta sje afsökun fyrir fyrirrennara hans.

Önnur höfuðafsökun fyrir hv. 1. þm. Skagf. var sú, að hæstv. fjrh. vitnaði í Þingtíðindin og sagði, að þau sýndu, að hv. 1. þm. Skagf. hefði ætíð verið andvígur fjáreyðslu á þingi. Jeg ætla mjer ekki að bera á móti því. Jeg hefi setið með honum í fjvn. og kom okkur vel saman um málin. Mun jeg ekki ásaka hann um fjáreyðslu í tillögum sínum.

En menn mega ekki halda sjer eingöngu við það, sem talað er. Hv. 1. þm. Skagf. talaði 1921 ákaflega hart á móti því að taka lán. En áður en árið var liðið varð hann til þess að taka það stærsta lán, sem tekið hefir verið og erfiðast mun reynast landsmönnum.

1921 talaði hv. 1. þm. Skagf. líka ákaflega sterkt með innflutningshöftum, en rjett í þinglok, eða skömmu síðar, afnam hann innflutningsnefndina og dró þannig allan þróttinn úr innflutningshöftunum.

Jeg mótmæli því ekki, að hv. 1. þm. Skagf. hafi verið tillögugóður í fjármálaræðum sínum, en þegar borið er saman, hvað hann hefir talað og hvað hann hefir framkvæmt, þá virðist ekki óyggjandi sönnun fengin fyrir sparsemi hans.

Þriðja afsökun hæstv. fjrh. fyrir hv. 1. þm. Skagf. var sú, að stjórnin gæti engu ráðið um afdrif fjárlaga. Víst er það, að slíkt er ákaflega mikið á þingsins valdi. En þess ber að gæta, að hv. 1. þm. Skagf. sat sem ráðherra á þinginu 1921, þegar sett voru ný fjárlög. Þá var þess strax krafist af Tímanum, að hann, er hann sá, að hann var útilokaður frá því að hafa áhrif á meðferð þings og stjórnar á fjárlögunum, segði af sjer. Stæði hv. 1. þm. Skagf. nú betur að vígi, ef hann hefði orðið við þeim áskorunum. En hann brast það þrek, sem þurfti. En jeg get aldrei viðurkent, að það sje fullnæg afsökun fyrir ráðherra, að láta undan þinginu. Hann á að leggja hnefann á borðið og segja: „Jeg fer, ef þið samþykkið þetta; ef þið viljið halda í mig, verðið þið að fella það.“ Hæstv. fjrh. virðist ætla að gera þetta nú. Hann hefir sagt í fjvn. — og jeg hygg, að það sje ekkert launungarmál — : „Það er ákveðið, að engar umframgreiðslur eigi sjer stað á mínum liðum, nema með mínu samþykki.“ Þetta er vel sagt. Nú stendur hann í þeim sporum, sem Tíminn vildi að hv. 1. þm. Skagf. stæði í 1921. Þessi afsökun hæstv. fjrh. er því í sterkustu mótsögn við athafnir hans sjálfs, og getur hann því ekki krafist þess, að jeg taki hana gilda.

Fjórða höfuðafsökun hæstv. fjrh. fyrir stjettarbróður sinn var sú, að hann bar fjrh. frá 1920–1921 saman við þann fjrh., sem tók við 1922 af hálfu Framsóknarflokksins.

Jeg vil fyrst minna á það, að þetta er nú í annað skiftið, sem hæstv. fjrh. vegur í þann knjerunn að ráðast á fjarstadda menn, sem ekki geta borið hönd fyrir höfuðs sjer. Við 2. umr. fjárlaganna rjeðist hann á búnaðarmálastjórann, sem jeg og hæstv. atvrh. urðum að verja. Nú ræðst hann á annan mann, sem fjarverandi er. Jeg er yngri maður og má ekki setja ofan í við hann, en jeg mótmæli þessari aðferð; finst, að hann ætti að velja sjer annan vettvang til þessa en deildina, þ. e. blöðin, þar sem þessir menn geta svarað fyrir sig.

En um aðalatriðið, það er að bera saman þá ráðherrana Magnús Jónsson og hv. 1. þm. Skagf., get jeg sagt það, að jeg ætla mjer ekki að fara út í þann samanburð. Jeg finn enga ástæðu til að fara að verja Magnús Jónsson, þó jeg sje ritstjóri aðalmálgagns Framsóknarflokksins. En benda má á það, að ólíkt er hafst að. Hvernig var afstaða Framsóknarflokksins til Magnúsar Jónssonar? Hann var ráðherra eitt ár. Og hann var það ekki lengur. Það er ekki verið að tala um, að hann verði ráðherra aftur. En þrátt fyrir þann áfellisdóm, sem tölur hæstv. fjrh. (JÞ) hafa kveðið upp yfir hv. 1. þm. Skagf., gerir hann hann aftur að ráðherra.

Þessi er munurinn, og hann er mikill.

Hæstv. fjrh. var að minna á, að óvarlegt væri fyrir þá að kasta grjóti, sem byggju sjálfir í glerhúsum. Jeg hefi minst á sambúð hans við fyrv. stjórnir. Enn má minna á það, að eitt það, sem hann áfeldi harðast í stóru ræðunni, var þriggjamannaráðuneytið. En svo gengur hann orðalaust inn í þriggjamannaráðuneyti á eftir.

Og viðvíkjandi því, hve óholt sje, að ráðherrarnir hafi mismunandi skoðanir, vil jeg spyrja: Býr hann ekki sjálfur í hinu brothættasta glerhúsi hvað það snertir? Í gær var hæstv. atvrh. sá eini úr hans flokki, sem greiddi atkv. með okkur Framsóknarflokksmönnum. Hæstv. fjrh. var þá að rugga til á einkennilegan hátt. Og jeg gæti minst á fleiri dæmi um það, að núverandi ráðherrar stangast eins og hrútar í málunum. Hæstv. fjrh. býr því sannarlega sjálfur í glerhúsi.

Jeg vil aðeins minna á eitt enn. Það er brtt. hæstv. fjrh. um umræðuhluta Alþingistíðindanna. Jeg vil minna á, að sá dagur, sem hæstv. fjrh. velur til þess að koma fram með þessa brtt., er 1. apríl. Og með hana hleypur hæstv. fjrh. hræðilegasta apríl, því að hún er svo óþinglega framborin, að hæstv. forseti hlýtur að úrskurða hana frá atkvgr. Það er sem sje ekki hægt að breyta lögum með fjárlögum.

Þegar þessi fyrsta till. hæstv. fjrh. er svo fljótfærnisleg, þá er ekki gott að hugsa til þess, að svo fljótfær maður skuli eiga að fara með fjárlög landsins á versta tíma, því að hætt er við, að þegar farið er með slíku flani af stað, kunni að verða drepið fæti. En jeg vona — landsins vegna — að þetta verði ekki yfirskriftin yfir öllum fjármálaferli hæstv. fjrh., — að hann verði ekki ein samfeld keðja af því að „hlaupa apríl“.