01.04.1924
Neðri deild: 39. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 464 í B-deild Alþingistíðinda. (157)

1. mál, fjárlög 1925

Frsm. meiri hl. samgmn. (Jón Auðunn Jónsson):

Samgmn. Nd. hefir ekki getað orðið sammála um till. um flóabátastyrkinn. Við, sem skrifum undir nál. meiri hlutans, álítum óhjákvæmilegt að hækka styrkinn minst um 5 þús. kr.

Ýmsir höfðu búist við því, að þegar e/s Esja tæki upp strandferðirnar, myndi sparast mikið á þessum lið. Hefir það og orðið að sumu leyti, en ekki svo mikið sem ætlað var.

Staðhættirnir eru þannig, að ómögulegt er að halda uppi ýmsum ferðum inn firði og flóa án sjerstakra báta, því ekki tekur tali að láta Esju fara alla þá króka. Jeg vil sjerstaklega benda á 3 báta. Fyrst á bátinn við Ísafjarðardjúp, sem annast þar mann- og póstflutninga. Hygg jeg ómögulegt að fá bát til þess fyrir minna en 10–12 þús. kr. árlega fyrir póstferðir einar saman. Síðasta ár voru gerðar tilraunir til að fá þar bát til póstferða, og fjekst hálfgildings tilboð um bát, sem var orðinn ófær til fiskiveiða. Jeg þarf nú ekki að eyða orðum að því, hve ófullnægjandi slíkar fleytur sjeu á Ísafjarðardjúpi, þar sem bæði er óveðrasamt og ill siglingaleið. Ríkissjóður verður þó altaf að annast póstflutning, hvað sem mannflutningi líður. Jeg get ekki búist við, að það komi deildinni á óvart; þótt Ísfirðingar geri kröfu til að fá einhvern styrk til mannflutninga á sjó, þar sem enginn vegarspotti er á landi og allar landferðir ómögulegar. Til annara hjeraða landsins hefir verið veitt fje í tugum þúsunda árlega til vegagerða á landi, svo að tæplega verður með sanni sagt, að krafa Ísfirðinga sje ósanngjörn.

Sama er að segja um Borgarnesbátinn. Hann er óhjákvæmilegur til póstflutninga, þar sem póstflutningar á landi mundu verða bæði dýrari og óábyggilegri. Hinsvegar gat nefndin ekki betur sjeð en að styrkur til þessara ferða hafi verið óþarflega hár undanfarið. Hún gat ekki betur sjeð en að ferðirnar væru gróðavænlegar, flutningur afskaplega mikill, bæði á fólki og vörum, og fargjöld svo mikil, að þau hljóta að skifta tugum þúsunda. Jafnframt vill hún taka það fram, að henni virðist nauðsynlegt, að ferðirnar til Búða. Skógarness og Stapa komist í samband við Faxaflóaferðirnar. Íbúar hlutaðeigandi hjeraða hafa aðalviðskifti sín við Reykjavík, en ekki við Breiðafjörð, eins og verið hefir.

Þriðji báturinn, sem meiri hluti nefndarinnar telur nauðsynlegast að styrkja, er Skaftfellingur. Nefndin sjer ekki, að hjá því verði komist að veita styrk til ferða hans, en vill jafnframt láta hann taka að sjer ferðirnar til Rangársands. Að vísu eru þær töluverðum örðugleikum bundnar, en verði bátnum veittur styrkur með tilliti til þeirra, er sjálfsagt, að hann kosti flutning varanna frá Vestmannaeyjum til Rangársands, þótt hann yrði neyddur til að skipa þeim upp í Vestmannaeyjum í bili. Að veita sjerstakan styrk til flutninga til Rangársands getur hins vegar varla komið til mála.

Ekki getur nefndin heldur álitið, að hægt verði að komast hjá að veita styrk til ferða á Breiðafirði. Að vísu eru ferðir um utanverðan fjörðinn viðunandi, en alls ekki um innri hluta hans. Strandferðaskipin koma þar ekki. Nefndin er sammála um, að Svanur sje mjög óheppilegur til þessara ferða. Heppilegast mundi vera, að innanflóaferðum væri þar eins og annarsstaðar hagað svo, að vörurnar væru fluttar frá Hvammsfirði, Gilsfirði og víðar til Stykkishólms eða Flateyjar. Hins vegar er það fyrirkomulag, að hafa Breiðafjarðarbát í förum sunnan Snæfellsness hin mesta fjarstæða, einkum vegna þess aukakostnaðar, sem það veldur Breiðafjarðarbátnum, umfram það, sem Faxaflóabátur þarf til þess að kosta.

Þá álítur nefndin, að nauðsynlegt sje að veita styrk til bátaferða frá Hornafirði til Austfjarða. Satt er það að vísu, að Esja getur komið á Hornafjörð að vorinu og að Austur-Skaftafellssýsla fær nú vörur sínar að sumrinu með milliferðaskipum beint frá útlöndum til Hornafjarðar. En eftir að fer að hausta, kemst Esja ekki inn á Hornafjörð. Skipið ætlaði inn á fjörðinn síðasta haust, en hafnsögumaður rjeði frá því og áleit slíkt ekki forsvaranlegt. Vátrygging á skipi og vörum inn til Hornafjarðar fæst ekki lengur en til 15. október. Austurskaftfellingar eru því neyddir til að flytja landafurðir sínar austur á fjörðu. Að öllum þessum ástæðum athuguðum vill nefndin leggja til, að styrkur sje veittur til þessa, og álítur fullsæmilegt í þessu skyni 3000 krónur.

Nefndin vill viðurkenna, að rjett hefði verið að veita fleiri bátum styrk, t. d. bátnum, er gengur hjeðan upp í Hvalfjörð, og bátnum, sem gengur út í Grímsey. Jeg get líka hugsað, við nánari yfirvegun, að sníða mætti af tillögum meiri hluta nefndarinnar til að halda uppi ferðum milli Hornafjarðar og Austfjarða. En tillögur minni hlutans tel jeg, að nái engri átt. Enda hygg jeg, að nefndarmaður sá, er skrifaði undir nál. hans með fyrirvara, sje því í ýmsu ósamþykkur. Þannig getur það tæplega staðist að veita 18 þús. kr. styrk til ferða á Faxaflóa, jafnvel þótt e/s Suðurland njóti hans ekki. Til Ísafjarðarbátsins verður engan veginn komist af með minna en 15 þús. kr., eins og þar hagar til og jeg hefi nokkuð vikið að áður. — Það hefir verið nefndinni til mikilla óþæginda, að hún hefir ekki alstaðar fengið skýrslur um þann styrk, er bátarnir hafa notið annarsstaðar frá, og heldur ekki skýrslur um, hvernig ríkissjóðsstyrkurinn hefir verið notaður. Hún hefir að vísu fengið skýrslu frá Skaftfellingi, Suðurlandi, Djúpbátnum og Hvalfjarðarbátnum, en hins vegar engar frá Breiðafjarðar- eða Austfjarðabátunum. Þetta hefir verið mjög óheppilegt, þar sem nefndinni fyrir bragðið hefir veist erfiðara að ráða í styrkþörf bátanna en ella mundi hafa orðið. Nefndin, eða meiri hluti hennar, vill leggja áherslu á, að styrkur sje ekki útborgaður nema þeim, sem senda stjórninni viðunandi skýrslur.