30.04.1924
Efri deild: 58. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2184 í B-deild Alþingistíðinda. (1574)

67. mál, búnaðarlánadeild við Landsbanka Íslands

Frsm. (Eggert Pálsson):

Það hefir oftast verið litið svo á, að hjer á landi væri aðeins um tvo atvinnuvegi að ræða, sjávarútveg og landbúnað. Hinsvegar mætti segja, að þriðji atvinnuvegurinn, verslunin, stæði eins og milliliður. En það liggur í hlutarins eðli, að til þess að atvinnuvegirnir geti notið sín hjer á landi, þarf það fjármagn, sem um er að ræða, að geta runnið nokkurnveginn jafnt út til þeirra allra. Það má segja, að fjármagn þjóðfjelagsins sje eins og blóðið fyrir líkamann. Fái það ekki að ganga hindrunarlaust til allra hluta líkamans, segir það sig sjálft, að þeir hlutar hljóta að visna upp og deyja. Sama er að segja um atvinnuvegi þá, sem ekki fá að njóta eða geta ekki notið neinnar hlutdeildar í fjármagni þjóðfjelagsins.

Árið 1886 var stofnaður landsbanki hjer á landi, sökum þess að mönnum var það ljóst, að þörf væri á stofnun til þess að lyfta undir atvinnuvegi þessa lands. Í sama tilgangi var einnig Íslandsbanki stofnaður.

Því verður alls ekki neitað, að þessar tvær stofnanir hafa lyft mjög undir hvorttveggja sjávarútveginn og verslunina. Hinsvegar er ekki hægt að segja það, að þær hafi komið landbúnaðinum verulega til góða. Ekki samt svo að skilja, að þessar stofnanir hafi haft á móti því að lána til landbúnaðar sem til hvers annars með sömu kjörum. En þar sem verslunin og útvegurinn þola, að lánin sjeu stutt og vextir háir, þá þolir landbúnaðurinn aftur á móti það ekki. Hefir hann því af eðlilegum ástæðum orðið að fara varhluta af þessum hlunnindum.

Högum er svo háttað um landbúnaðinn, að framkvæmdir þar þurfa langan tíma til að bera árangur og uppgrip eru og verða þar jafnan lítil. Þess vegna þurfa lán til hans að vera hvorttveggja í senn, bæði löng og með lágum vöxtum. Aftur á móti er hagnaðurinn af landbúnaði tryggari en af bæði sjávarútvegi og verslun. Þetta nægir þó ekki, því að flestir, bæði bankar og einstaklingar, eru með því marki brendir, að þeir vilja fá sem hæsta vexti af fje sínu. Á þessum annmörkum, sem jeg hefi nefnt, hafa því lánveitingar til þessa atvinnuvegar að mestu strandað.

Þess vegna var það fyrir ekki alllöngu, að tekið var til þeirra ráða að stofna ríkisveðbanka, með það fyrir augum, að landbúnaðurinn gæti fengið þar lán til lengri tíma og með vægari vöxtum en annarsstaðar. Ekkert hefir þó enn orðið úr framkvæmdum að því er þennan banka snertir. Það hefir borið þar að sama brunni, að engir hafa viljað leggja fram peninga upp á þá vexti, sem þar er um að ræða.

Allir sjá þó, að við þetta má ekki una. Geti landbúnaðurinn ekki fengið lán við sitt hæfi, liggur það í hlutarins eðli, að hann hlýtur fyr eða síðar að veslast upp. Hann getur heldur ekki staðið algerlega í stað, því það að standa í stað er sama sem að fara aftur á bak. Alger kyrstaða þar, sem alt annað er á hreyfingu áfram, er sama og afturför. En verði landbúnaðurinn algerlega aftur úr að því er framþróun snertir, þá snertir tjónið ekki aðeins atvinnuveginn sjálfan, heldur snertir það líka tilfinnanlega þjóðina í heild sinni. Það er öllum ljóst, að það, sem er viðhaldsafl þjóðarinnar, er landbúnaðurinn. Hyrfi hann úr sögunni, getur þessi þjóð ekki haldið áfram að vera sjerstök þjóð. Allar aðstæður benda til þess, að þá myndi hjer ekki um aðra bygð að ræða en lítilfjörlegt fiskiver, sem getur ekki haft kraft í sjálfu sjer til þess að þróast. Þó að sjávarútvegurinn sje það berandi afl í þjóðfjelaginu, þá verður honum að koma nýtt blóð til þess að hann megi halda þrótti sínum, en það nýja blóð kemur vitanlega frá sveitabúskapnum. Þess vegna er bráðnauðsynlegt, að eitthvað verði gert fyrir þann atvinnuveg, svo hann fái blómgast í framtíðinni. En til þess heyrir fyrst og fremst, að hann eigi kost á sem hagkvæmustum lánum.

Hjer eru nú að vísu talsverðir erfiðleikar á, og þeir verða ekki brotnir á bak aftur með öðru móti en að einhverjir vilji leggja fram fje, þótt með lægri vöxtum sje en hægt er að fá annarsstaðar.

Ástandið í þessu efni er orðið mikið verra nú en fyrir fáum árum. Þá áttum við þó altjend til jarðræktarsjóðinn. Og vitanlega var það landbúnaðurinn, sem gekk fyrir að fá fje úr þeim sjóði. En nú er hann uppetinn að mestu. Hann hefir sem sje gengið til þess, sem ekki er hægt að segja, að hafi orðið landbúnaðinum að nokkru gagni enn sem komið er, kaups og notkunar á hinum svo nefndu þúfnabönum. Eigi eitthvað að gera í þessu efni, verður þess vegna einhver að taka á sig það vaxtatap, sem óhjákvæmilegt er, ef landbúnaðurinn á að geta fengið þau lán, sem hann þolir og þarfnast.

Í frv. því, er hjer liggur fyrir, er lagt inn á þá leið, að snúa sjer til Landsbankans í þessu efni og láta hann taka á sig þetta tap. Er það að mörgu leyti eðlilegt, þar sem hann er nokkurskonar grein af ríkissjóði. Og ef það er ekki hann, sem leggja má þetta óhagræði á, þá veit jeg ekki, hvar það skal niður koma.

Því ber ekki að neita, að stjórn Landsbankans er á móti þessu, og er það ofureðlilegt, því að hún telur sjer skylt að hugsa frekar um hag bankans en hag lántakendanna. En jeg finn ekki ástæðu til að fara eftir þeim mótmælum, eða láta þau á nokkurn hátt hamla okkur frá að gera það, sem í okkar valdi stendur til þess að mál þetta nái fram að ganga. Það má nú að vísu, eftir öllum sólarmerkjum að dæma, gera ráð fyrir því, að ekki yrði strax farið að framkvæma þessi lög, þótt þau verði samþykt. En eigi að síður er sjálfsagt að gera skyldu sína, með því að samþykkja frv. þetta.

Þá hafa komið fram brtt., sem sýnilega eru í samræmi við skoðun bankastjórnarinnar.

Hin fyrsta er um, að þetta verði aðeins heimild fyrir bankastjórnina, og yfirleitt eru allar tillögurnar sniðnar eftir reglugerð bankans, sem ekki er nema eðlilegt frá sjónarmiði hans. En þar sem nú svo mjög er orðið áliðið tíma þingsins, og hinsvegar víst, að svona stórar breytingar, ef þær komast að, eru sama sem að fella frv., þá vildi jeg mælast til, að hv. flm. vildi taka þær aftur. Jeg skil ofurvel, hvað hv. þm. hefir gengið til með því að koma fram með tillögur þessar. Hann hefir viljað, að það sýndi sig á prenti, hvernig frv. tæki sig út í samræmi við reglugerð bankans og hvernig hann hefði hugsað sjer slíka deild.

Jeg vænti nú, að hv. þm. geri tillögur þessar ekki að kappsmáli og verði við þeim tilmælum mínum að taka þær aftur.