02.05.1924
Efri deild: 60. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2191 í B-deild Alþingistíðinda. (1578)

67. mál, búnaðarlánadeild við Landsbanka Íslands

Frsm. (Eggert Pálsson):

Skýrsla hæstv. fjrh. um, hvernig stjórn Landsbankans lítur á þetta mál, kemur mjer alls ekki neitt á óvart, því mjer er kunnugt um það af viðtali við bankastjórnina og brjefum hennar til landbn. hv. Nd., að hún er frv. þessu algerlega mótfallin, og hv. deild kemur þetta heldur ekki á óvart, því það er skýrt frá þessum mótmælum hennar í nefndaráliti landbn. En þó bankastjórnin sje á móti þessu, þá get jeg ekki annað en efast um, hvort þessi mótmæli bankastjórnarinnar sjeu eftir atvikum takandi til greina. Mjer finst það vera skylda okkar, sem erum kunnugir landbúnaðinum og vitum, hversu erfitt er að fá lán handa honum, að reyna að gera eitthvað honum til hjálpar. Og mjer finst, að það væri jafnvel til bóta að samþykkja þetta frv., þótt lögin kæmust ekki í framkvæmd, því jeg hygg, að samþykt slíkra laga kynni þó að verða til þess, að stjórn Landsbankans færi að reyna að finna einhverja aðra leið til bjargar landbúnaðinum. En ef frv. þetta væri felt að þessu sinni eða vísað frá, þá hygg jeg, að það yrði til þess, að ekkert yrði hugsað um þetta mál frekar og það látið eiga sig, eins og átt hefir sjer stað hingað til. Jeg vil því mælast til þess við hv. deild, að hún samþykki þetta frv., þrátt fyrir það, þótt engin fyrirheit liggi fyrir um það, að lögin komist í framkvæmd bráðlega.