25.04.1924
Efri deild: 54. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2194 í B-deild Alþingistíðinda. (1586)

132. mál, Leyningur

Frsm. (Eggert Pálsson):

Jeg býst ekki við, að það þurfi langa framsögu um þetta mál, þar eð hv. flm. (EÁ) hefir skýrt tekið fram ástæðurnar til þess, að það er fram komið. Því er svo varið, að Siglufjarðarkaupstað vantar mjög land til afnota fyrir fje — beitiland — og hefir bærinn augastað á jörðinni Leyningi í því skyni. Siglufjörður hefir áður farið fram á það við þingið að fá líka keypta kirkjujörðina Hvanneyri, að undantekinni eyrinni, sem bærinn stendur á, en þar sem það fjekst ekki, þá kemur bærinn nú fram með þessa málaleitun.

Jeg skal geta þess, að þau stjórnarvöld, sem hjer eiga hlut að máli, eru þessu ekki andstæð, hvorki hlutaðeigandi prestur nje biskupinn. Og nú hefir þinginu borist skeyti frá bæjarfógeta Siglufjarðarkaupstaðar, sem sýnir ekki aðeins, að bæjarstjórnin öll æskir eftir þessum kaupum, heldur einnig, að hlutaðeigandi prestur er sölunni meðmæltur.

Að bæjarfjelagið hefir snúið sjer til þingsins í þessu efni, kemur af því, að þar sem það sjálft er kaupandi, þá getur það ekki metið jörðina. Og hinsvegar er heldur ekki hægt að leita umsagnar sýslunefndar Eyjafjarðarsýslu um söluna, þar eð jörðin er nú ekki lengur í því lögsagnarumdæmi. Þess vegna hefir orðið að fara beint til þingsins með þetta litla og einfalda mál, sem jeg vona, að fái framgang. Jeg vona, þar sem enginn hlutaðeigenda er sölunni mótfallinn, eins og þegar hefir verið sýnt fram á, að enginn hv. deildarmanna mæli í gegn þessu frv. og að því verði hraðað eftir föngum í gegnum hv. deild, svo að það komi sem fyrst til hv. Nd. og verði að lögum.