01.04.1924
Neðri deild: 39. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 468 í B-deild Alþingistíðinda. (159)

1. mál, fjárlög 1925

Pjetur Þórðarson:

Jeg kvaddi mjer hljóðs vegna þess, að jeg heyrði, að farið var að tala um ferðir til Borgarness. Jeg býst við, að jeg verði að játa, að það hafi verið yfirsjón af mjer að skrifa undir nál. á þskj. 240 fyrirvaralaust. Jeg skal sleppa því að minnast á orsökina til þess, því hún hefir engin áhrif á málefnið. En hins vildi jeg geta, hvers vegna jeg á ekki að öllu leyti þær tillögur, er koma fram í þessu nál. Fyrst er það, að jeg er ekki fullkomlega sammála um það, að styrkurinn til Borgarnesbátsins sje óhæfilega hár, samanborið við aðra báta. Ástæðurnar til þess eru þær, að enginn bátur hefir eins mikinn flutning að annast. Hann flytur allan Vestur- og Norðurlandspóst milli Borgarness og Reykjavíkur, auk þess sem hann annast alla mannflutninga milli Reykjavíkur og Vestur- og Norðurlands, að því fráskildu, er Esja flytur. Í öðru lagi er jeg ekki sammála um það, að rjett sje að þessi bátur taki að sjer ferðir til hafna á Snæfellsnesi sunnanverðu, jafnvel þótt þær tilheyri Faxaflóa. Jeg tel mjög óheppilegt, að póstbáturinn til Akraness og Borgarness hafi þessar ferðir á hendi, enda gætu þá fleiri hafnir komið til greina, t. d. Straumfjörður og Akrar. Jafnvel þótt ferðir á þessa staði yrðu aðeins fáar, þá mundu þær verða útgerð bátsins mikill skaði, en hjeruðunum lítill ávinningur, og tel jeg því tvímælalaust, að þær mundu ekki borga sig.

Loks eru það tillögurnar um úthlutunina á bátastyrknum, sem jeg get ekki verið hinum nefndarmönnunum sammála um. Sjerstaklega tel jeg ótækt að áætla svo litla upphæð til Skaftfellingabáts, sem hjer er gert, að verða mun að litlu gagni. Jeg álít að hækkunin á styrknum, sem jeg er hinum nefndarmönnunum sammála um, megi ekki minni vera, og er það aðalatriðið, sem jeg var þeim sammála um. Annars skal jeg geta þess, að mjer þykir þessi hækkun of lítil, enda þótt jeg vildi hana heldur en ekki neitt. Annars er jeg fremur fylgjandi till. hv. þm. A-Sk. (ÞorlJ) á þskj. 261,XII.

Jeg get ekki stilt mig um að geta þess, að í fyrra flutti jeg tillögu um að hækka þennan bátastyrk svo ríflega, að minni vandi væri að úthluta styrknum en verið hefir og útlit er á, að verði. Jeg man ekki betur en að þessari hækkunartillögu minni væri tekið sem einhverri fjarstæðu. Þó hygg jeg, að erfitt verði að synja fyrir það, að úthlutun styrksins hefði ekki orðið slíkt vandamál og raun er á orðin, ef tillagan hefði verið samþykt þá. Mjer hefði nú verið skapi næst að flytja þessa till. hjer aftur, en hefi tekið þann kost að hallast að þeirri till., sem hærra fer, án þess þó að vera ánægður með hana, og vona jeg, að hv. deild samþykki till. hv. þm. A.-Sk. Ef svo yrði, tel jeg líklegt, að eitthvað lítið af fjárveitingunni gæti fallið til Grímseyjarbátsins og Hvalfjarðarbátsins og til að hækka styrkinn til Skaftfellings frá því, sem ætlað er í till. nefndarinnar.

Jeg hefi ekki vakið máls á þessum ágreiningi milli mín og meðnefndarmanna minna vegna þess, að jeg álíti, að farið hafi verið á bak við mig í þessu máli; það var sjálfum mjer að kenna, að jeg gat ekki leiðrjett það, sem mig greindi á við nefndina, áður en jeg skrifaði undir nál. meiri hlutans.

Jeg skal þá leyfa mjer að minnast á nokkra liði á þskj. 261, og þá fyrst á IV. liðinn, sem jeg er meðflm. að. Við 2. umr. var styrkur til læknisbústaðar og sjúkraskýlis í Borgarfirði feldur með fremur litlum atkvæðamun. Býst jeg við, að ástæðurnar hafi verið þær, að ýmsum hv. þm. hafi þótt langt að bíða til næsta árs eftir samskonar styrk handa hjeruðum sínum. Ef horfið yrði að því ráði að veita styrk í þessu skyni 2–3 hjeruðum árlega, skyldi jeg ekki metast um, hvert fyrst yrði. En jeg tel alveg ótækt að fella niður í þetta sinn slíka fjárveitingu, því að það yrði til að fjarlægja enn meir þau hjeruð, sem mesta þörfina hafa, frá því takmarki, er þau ætla sjer að ná í þessu efni. Því tel jeg mjer skylt að fylgja þessari tillögu, að ákveðin upphæð sje veitt í þessu skyni, hvað sem því líður, hvert hjerað yrði hans fyrst aðnjótandi.

Þá vil jeg minnast lítið eitt á X. brtt., frá háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ). Jeg flutti tillögu við 2. umr. um hækkun á fjárveitingunni til akfærra sýsluvega, sem fór nokkuð lengra en þessi, en tillaga mín fann ekki náð fyrir augum hv. deildar. Jeg er því samþykkur þessari brtt., og þætti mjer vænt um, ef hún næði fram að ganga. Tel jeg óþarft að endurtaka þau rök, sem jeg færði fyrir þessu við 2. umr., en skal einungis bæta því við, að þegar draga verður úr öllum verklegum framkvæmdum vegna fjárskorts ríkissjóðs, þá er auðvitað rjettast að snúa sjer fyrst að þeim, sem eru jafnnauðsynlegar eins og viðhald veganna og jafnmikið fje er lagt til frá öðrum til móts við ríkissjóð.

Jeg skal ekki auka á málalengingarnar eða ræðupart Alþingistíðindanna með því að minnast á margar brtt., en þó verð jeg að sjálfsögðu að segja nokkur orð um XXXVI. brtt. Jeg vænti þess, að háttv. deildarmenn muni eftir erindi, sem kom til Alþingis í þingbyrjun og var lagt fram í lestrarsal sem nr. 37. Jeg skal ekki tilgreina mikið af því, sem þar stendur, því það er þannig vaxið, að jeg hygg, að hver sá, sem lesið hefir, hljóti að muna eftir efni þess. Það á skylt við tillögu þessa, sem fer fram á að veita Finnboga bónda Helgasyni í Hítardal 800 krónur í viðurkenningarskyni fyrir sjerstakan dugnað í því að halda uppi bygð á því fornfræga höfuðbóli. Mjer er ljóst, að slík tillaga sem þessi muni verða talin koma kynlega fyrir og ekki rjettmætt að taka hana upp í þau málefni, sem menn álíta að Alþingi beri að fjalla um. En ef vel er aðgætt, býst jeg við, að svo sje um margar fastar fjárveitingar í þessari grein, að það geti verið álitamál, hve ríkar ástæður liggi til þeirra. Hjer á jeg við ýmsa styrki til þess að halda uppi bygð á ýmsum stöðum, og mætti lengi um það deila, hvort það sje þess virði að styrkja það af landsfje. Þessi tillaga um samskonar styrk kann ef til vill að koma öðruvísi fyrir en hinar aðrar styrkveitingarnar. En ef hún er sett í samband við áðurnefnt erindi, hygg jeg, að margir hv. þm. muni kannast við, að jafnmikil ástæða muni vera til að veita styrk til þess að halda uppi bygð á þessum stað sem mörgum öðrum. Jeg leyfi mjer því að vænta þess, að það verði þegjandi samkomulag um að veita þessa upphæð.