28.04.1924
Neðri deild: 57. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2196 í B-deild Alþingistíðinda. (1593)

132. mál, Leyningur

Pjetur Ottesen:

Á þinginu 1919 fluttu þm. Eyf. hjer í hv. Nd. frv., þar sem landsstjórninni var heimilað að selja bæjarstjórn Siglufjarðar prestssetrið Hvanneyri og kirkjujörðina Leyning. En undanskilið sölunni átti íbúðarhúsið og önnur jarðarhús prestssetursins að vera og heimatúnið og haglendi fyrir skepnur prestsins.

Allsherjarnefnd, sem um málið fjallaði, lagði til að vísa málinu til stjórnarinnar, sökum ónógs undirbúnings og svo þess, að nefndin var mótfallin sölu á Siglufjarðareyri.

Till. nefndarinnar var samþykt.

Á þinginu 1921 flutti þáv. 1. þm. Eyf. (Stefán Stefánsson) frv. þetta óbreytt, og klofnaði allshn. í málinu. Meiri hl., þrír nefndarmenn, vildi samþykkja frv., en minni hl. vildi samþykkja það með þeirri breytingu, að undanskilja kaupstaðarlóðina. Flutti hann brtt. um það og var hún samþykt, og fór frv. svo breytt til hv. Ed. En hv. Ed. færði það aftur í sitt upprunalega horf, en þannig breytt var það aldrei tekið á dagskrá í Nd. og dagaði þannig uppi.

Nú hefir hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) flutt þetta mál í hv. Ed., þannig, að stjórninni sje heimilað að selja Siglufjarðarkaupstað kirkjujörðina Leyning. Eins og menn munu sjá, er þetta ekki nema partur af því frv., sem áður hefir legið fyrir þinginu um þetta efni. Frv. þetta styðst við þá sameiginlegu nauðsyn kauptúna og kaupstaða að hafa grasnytjar til mjólkurframleiðslu og land til beitar, og mun engum dyljast, að heppilegra er, að kaupstaðirnir og kauptúnin eigi slík lönd sjálfir en að þeir taki þau á leigu. Með því er miklu meiri trygging fyrir því, að þessum jörðum sje sómi sýndur, og er það afarmikilsvert atriði. Þingið hefir áður gengið inn á þá braut, sem hjer er farið fram á, t. d. 1919, er heimilað var að selja Stykkishólmi kirkjujarðirnar Sellón og Ögur. Þar var hin sama þörf fyrir hendi og hjer er um að ræða fyrir Siglufjarðarkaupstað. Jörðin Leyningur hefir mikið beitiland og allgóð ræktunarskilyrði, og þótt jörðin liggi nokkuð langt frá kaupstaðnum, mun ekki vera völ á annari betri jörð. Bæði sóknarprestur, biskup og hjeraðsfundur eru samþykkir sölu jarðarinnar, og sje jeg því ekki ástæðu fyrir þingið að taka í annan streng.

Það má nú raunar segja, að það sje formsatriði eitt að bera þetta mál undir þingið, þar sem það mundi geta fallið undir gildandi lög um sölu þjóðjarða; en bæði er það, að hjer á kaupstaður í hlut, og auk þess hefir þetta mál komið fyrir þingið áður, þótt í annari mynd hafi verið, þá hefir nú þessi leið verið farin.

Í efri deild var mál þetta í landbn., og lagði hún eindregið með málinu. Jeg hefi rakið sögu þessa máls til að sýna, að það hefir verið gaumgæfilega athugað og ekki að því hrapað. Jeg vona því, að deildin láti það ganga fram nefndarlaust, því hæpið er, að það nái fram að ganga, fari það í nefnd, svo mjög sem nú er liðið á þingtímann.