02.05.1924
Neðri deild: 61. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2198 í B-deild Alþingistíðinda. (1598)

132. mál, Leyningur

Jón Baldvinsson:

Jeg hefi leyft þessu frv. að ganga hjer í gegnum tvær umr. óáreittu, án þess að gera neinar aths. við það. Stafar þetta af því, að á þessum síðustu tímum þingsins er svo mikið flaustur á öllu, að menn fá ekki tíma til þess að athuga öll málin nógu gaumgæfilega. Það eru oft milli 10–20 mál í dagskrá í senn, og öll þurfa þau fram að ganga. Þar af kemur flaustrið, sem nú er á öllu. Jeg hefi ávalt verið mótfallinn þjóðjarðasölu, hvort heldur um kirkju- eða ríkissjóðsjarðir hefir verið að ræða. Í þessu máli horfir þetta þó að vísu dálítið öðruvísi við en venja er um slíkar sölur. Hjer er það bæjarfjelag, sem vill kaupa. Er því nokkuð öðru máli að gegna um þetta eða sölu í hendur einstakra manna. En mjer finst þó, að ríkið gæti eins vel selt Siglufjarðarbæ þessa jörð á leigu með eins góðum kjörum fyrir bæinn, að á sama mætti standa, þótt hann ætti ekki jörðina. Hinsvegar er eignin lausari fyrir, ef bærinn á hana, heldur en að hún sje áfram í eign ríkisins. Það er hættara að bæjarfjelagið geti aftur selt þessa jörð til einstakra manna, og þá liggur opin leið fyrir til þess, að braskað verði með hana. Þetta mál hefir áður verið hjer á ferðinni og var þá miklu víðtækara; átti þá að selja bænum alla Siglufjarðareyri. En það mun nú vera svo komið, að Siglufjarðareyri er nú leigð einstökum mönnum með þeim kjörum, að nærri stappar, að þessi eign sje gengin úr eigu ríkisins. Jeg skýt því nú til hæstv. stjórnar, að hún rannsaki þá leigumála, sem um þetta gilda, og hvernig þeim er varið, og gefi um það skýrslu til Alþingis, enda þótt jeg geti ekki gert ráð fyrir, að það verði fyr en á næsta þingi, sem sú skýrsla yrði lögð fram.

Hjer hefir nú legið frammi skýrsla um þjóðjarðasölu á árinu 1923, og hefi jeg yfirfarið hana lauslega. Hefi jeg komist að þeirri niðurstöðu, að ríkið hafi á því ári selt 5 eða 6 jarðir fyrir talsvert minna verð en vera ætti, auk ýmsra hlunninda og ítaka, sem seld hafa verið. Vænti jeg, að hæstv. forseti (BSv) leyfi mjer að fara þetta út fyrir efni dagskrárinnar aðeins nokkur orð ennþá. í Skaftafellssýslu hafa verið seldar rekafjörur fyrir lítið verð, og eftir öðrum upplýsingum skýrslunnar er það hinsvegar sjeð, að margar jarðir hafa verið seldar allmikið fyrir neðan fasteignamatsverð, og ætla jeg því, að ríkissjóður hafi beðið nokkum halla af þessum sölum.

Það er mjög leitt, að ríkissjóður skuli þannig vera látinn losa sig við eignir sínar, því það hlýtur að rýra lánstraust ríkisins bæði inn á við og út á við, en hinsvegar eru hin góðu leigukjör, sem leiguliðar landssjóðsjarða njóta, jafngóð fyrir þá og ættu þeir jarðirnar sjálfir. Þeir njóta sama arðs og hlunninda af öllum jarðabótum og öðrum umbótum á jörðunum eins og á eignarjörð þeirra væri. Það liggur við, að ætla megi, að verið sje að reyna að koma verði þessara jarðeigna ríkisins niður fyrir allar hellur, svo lágt eru þær metnar til söluverðs, jafnvel þó um allgóðar jarðeignir sje að ræða. Þannig var t. d. ein af jörðum ríkissjóðs, Arnarnes, nýlega seld fyrir 6 þús. kr. Þessi jörð liggur þó mitt á milli tveggja stærstu kaupstaða landsins, Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, og er enginn efi á því, að þessi jörð verður síðar miklu meira virði, ef kaupstaðir þessir eiga fyrir sjer að vaxa hjer eftir eins og hingað til. Sama er að segja um jörð í Suður-Múlasýslu, sem var seld fyrir neðan fasteignamatsverð, og liggur þó þessi jörð nærri stóru kauptúni í þeirri sýslu. Þetta er algerlega röng stefna, og því segi jeg hið sama um þessa jörð í Siglufirði. Jeg álít, að ríkissjóður ætti fremur að eiga þessa jörð, en gæti vel leigt hana Siglufjarðarkaupstað með svo aðgengilegum kjörum, að Siglfirðingar þyrftu ekki að óska eftir eignarrjettinum á jörðinni frá ríkinu. Þeim mætti á sama standa, þó þeir ættu hana ekki, ef þeir hefðu hennar sömu not og hún væri þeirra eign. Jeg mundi hafa komið fram með frv. um að banna alla þjóðjarðasölu, ef jeg hefði ekki talið næsta ólíklegt, að það fengi góðar undirtektir á þessu þingi, enda hefi jeg haft margt annað fram að bera og eigi getað sint þessu. En sem sagt, jeg vil láta rannsaka leigumálann um Siglufjarðareyri ásamt ýmsum fleirum leigumálum. Jeg hefi heyrt sagt, að lóðir á Siglufjarðareyri sjeu leigðar fyrir mjög lágt afgjald til einstakra manna, svo nærri megi heita, að þeir eigi lóðirnar. Jeg álít sanngjarnara, að ríkissjóður fái hærri leigu af þessum lóðum norður þar, sem hafa hækkað gífurlega í verði á síðari árum, fremur en að sá ágóði lendi í vasa einstakra útgerðarmanna þar. Það er og augsýnilegt, að það er ekki eftir miklu að slægjast fyrir þá sjóði, sem eiga að fá andvirði þessara seldu eigna ríkisins. Það er venjulegast svo ákveðið, að l/10 hluti söluverðs sje greiddur um leið og salan fer fram, en jarðirnar eru oft seldar þegar í stað aftur og lenda þá oft í braskarahöndum, og getur þá vel farið svo, að ríkið tapaði öllum eftirstöðvum söluverðsins, þrátt fyrir það, þó jarðirnar sjeu margsinnis seldar aftur við miklu hærra verði. Jeg vildi því ekki láta þetta frv. ganga fram mótmælalaust, þó jeg sjái því miður ekki fram á annað en að það verði samþykt viðstöðulaust, og vegurinn þannig ruddur til þess, að þessi jörð verði síðar einstakra manna eign.