02.05.1924
Neðri deild: 61. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2201 í B-deild Alþingistíðinda. (1599)

132. mál, Leyningur

Atvinnumálaráðherra (MG):

Háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) mintist á framkvæmd þjóðjarðasölulaganna á árinu 1923, og stend jeg þar illa að vígi til svars, þar sem jeg var ekki við það mál riðinn á því ári, eins og kunnugt er, en jeg þykist þess fullviss, að á því ári hafi verið framhaldið þeirri venju um framkvæmd þjóðjarðasölulaganna, sem fyrir löngu hefir verið upp tekin. Háttv. 2. þm. Rang. (KlJ), sem stóð fyrir þessari sölu, er nú ekki viðstaddur hjer í svipinn, og því get jeg ekki upplýst þetta nánar, en jeg efast alls ekki um, að hann hefir í þessu farið nákvæmlega eftir lögunum um sölu þjóðjarða. Það getur vel verið, að háttv. 2. þm. Reykv. þyki jarðeignir og ítök ódýr víða úti um land, t. d. rekafjörur, en hann má vita, að slíkir hlutir eru miklu ódýrari úti um land en hjer í nágrenni Reykjavíkur. Jeg þekki til um þetta víðar en hjer í nágrenninu. Hv. þm. vill afnema þjóðjarðasöluna, og skal jeg ekki um það deila við hann, en hann hlýtur að vita, að það er skilyrði fyrir sölunni gegn þeim kjörum, sem hann nefndi, að ábúandi jarðarinnar kaupi jörðina sjálfur, ella fellur alt andvirðið þegar til útborgunar, ef út af því er brugðið. Það er og gömul reynsla, að bóndi, sem er orðinn eigandi að jörð sinni, gerir meira að jarðabótum en hann mundi gera, ef hann væri áfram leiguliði. Jeg viðurkenni það gjarnan, að söluskilyrðin eru kaupandanum mjög hagstæð, en frá sjónarmiði landbúnaðarins held jeg þó, að þetta hafi borgað sig vel. En þó nú háttv. þm. vilji annaðhvort breyta eða afnema þessi lög um þjóðjarðasölu, er það orðið fullseint, þar sem það er þegar búið að selja mestan hluta af þessum eignum ríkisins.

Þá drap hv. þm. eitthvað á þessar leigulóðir á Siglufirði. Hvernig sem því er varið, verður það að vera svo meðan leigusamningarnir eru ekki útrunnir; mig minnir, að þeir væru til eitthvað 40–50 ára. (JBald: 99 ára). Nei, það er ekki svo langur tími, en vitaskuld verður leigan að vera óbreytt meðan samningstíminn er ekki á enda.

Það er satt, að það er venja, að kaupandi greiði l/10 hluta andvirðis við kaupin, en það stendur ekkert í þessu frv. um það, hversu mikið Siglufjörður skuli greiða, ef kaupin takast, en jeg hygg, þó að þetta atriði sje að vísu á valdi stjórnarinnar, að það verði fylgt reglum þjóðjarðasölulaganna um þetta. Annars heyrir þessi sala ekki undir atvinnumálaráðuneytið; það er kirkju- og kenslumálaráðherrann, sem þessu ræður. Jeg get yfir höfuð ekki sagt fleira um þjóðjarðasöluna á undanförnum árum en jeg hefi þegar tekið fram, en jeg leyfi mjer að ganga út frá því, að fylgt hafi verið fyrirmælum laganna í þessu efni. (JBald: Stjórnin getur neitað að selja). Já, það er að vísu heimild til þess, en það hefir víst sjaldnast verið gert. Stjórnin hefir einnig vald til þess að hækka verðið frá matsverði, ef hún álítur þess þörf, og þessar jarðir hafa aldrei verið seldar við lægra verði en þær hafa rentað sig fyrir.