15.02.1924
Sameinað þing: 1. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í B-deild Alþingistíðinda. (16)

Rannsókn kjörbréfa

Frsm. 3. kjörbrjefadeildar (Jón Auðunn Jónsson):

Það var út af ræðu háttv. 2. þm. Reykv. (JBald), að jeg stóð upp. Honum hefir þegar verið svarað að mestu leyti af hv. þm. V.-Sk. (JK), svo að jeg þarf litlu við að bæta. Háttv. 2. þm. Reykv. segir, að þau atkv., sem greidd hafa verið á tveim stöðum, eigi að vera ógild. Nú veit jeg eigi, hvernig á að samræma það við kosningalögin, sem mæla svo um, að ekki megi meina manni, sem er á kjörskrá, að kjósa, nema kjörstjórn sje kunnugt, að hann standi á kjörskrá annarsstaðar og hafi ekki afsalað sjer atkvæðisrjetti þar. Þess vegna eru atkvæði þeirra, sem kjósa utan kjörstaða og kjördæmis, efalaust gild. Bæði háttv. 2. þm. Reykv. og ýmsir aðrir þm., þar á meðal hv. 5. landsk. þm., töluðu svo, sem atkvæðaseðlar Haralds Guðmundssonar, þeir er teknir voru gildir án mótmæla, hafi verið ógallaðir. Þetta er eigi rjett, og því til sönnunar skal jeg leyfa mjer að lesa á nokkra þeirra, þótt jeg hafi á þetta bent áður. Hjer er á einum: Herddur Guðmundson, öðrum: Horoldur Guðmuson, og enn: Haraldur Guðmunson. Auðvitað eru þetta alt stórgölluð atkv., þó að kjörbrjefadeildin álíti, að eigi beri að ónýta þau. Jeg hygg, að þessir seðlar sjeu engu ógallaðri en sá, sem á stendur: „Sigurjónsson Jónsson. Alt annað hjal hv. 2. þm. Reykv. er sprottið af vöntun á vilja til að skilja kosningalögin rjett og auðskildri löngun til að þóknast skoðanabræðrum sínum á Ísafirði.

Það var rjett hjá hv. 1. þm. Árn. (MT), að hann var strangur í kosningunum 1919. Man jeg þá, að 5 seðlar, sem á stóð: Jón Auðunn (vantaði föðurnafnið), voru gerðir ógildir. Ennfremur talaði hv. þm. um heimagreiddu atkv. á Ísafirði og sagði, að Sigurjón hefði þar af um 45 atkv. meiri hluta; ennfremur, að enga miskunn væri að finna hjá Magnúsi. En sami hv. Magnús hefir ekki á móti því, að honum sje sýnd miskunn í Árnessýslu. Þó að þar væri ekki neitt ólöglegt framið, hefi jeg fullar sannanir fyrir því, að þar hafi Magnús hlotið þá miskunn að hreppa 220 af 250 heimagreiddum atkv. Sami háttv. þm. sagði, að kjósandi, sem skrifaði „herra Haraldur Guðmundsson“, hefði sýnt tilhlýðilega kurteisi. Var það ekki sama kurteisi, sem einn kjósandi sýndi á Ísafirði 1919, með því að skrifa „bankastjóri Jón Auðunn Jónsson“, en þó var sá seðill gerður ónýtur þá, eftir kröfu hv. þm. (MT). Að svo stöddu finn jeg ekki ástæðu til að svara fleiru. Í almennum aths. hv. 1. þm. Árn. um kosningalögin var margt rjettilega athugað, en kemur ekki við því máli, sem hjer liggur fyrir.